fbpx
Fimmtudagur 18.desember 2025
Fréttir

Móðir glímir við varanlegan skaða eftir mistök í fæðingu á Landspítalanum

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 18. desember 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur úrskurðað konu í vil sem kærði þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að hún hefði ekki hlotið varanlega miska eða örorku af völdum þeirrar meðferðar sem hún hlaut á Landspítalanum við fæðingu barns hennar í apríl 2021 en stofnunin hafði þó samþykkt að hún ætti rétt á bótum. Fékk konan ekki, þrátt fyrir beiðni þar um, að hitta fæðingarlækni á meðan meðgöngunni stóð en Sjúkratryggingar segja það hafa verið ámælisvert. Af lýsingum í úrskurði nefndarinnar að dæma  var fæðingin vægast sagt erfið fyrir konuna og reyndi mikið á hana bæði líkamlega og andlega. Fram kemur hjá konunni að heilbrigðisstarfsfólk sem kom að fæðingunni hafi viðurkennt við hana eftir á að mistök hafi verið gerð. Er það niðurstaða nefndarinnar að miski konunnar sé ekki síst fólgin í vantrausti í garð heilbrigðiskerfisins en hún treysti sér ekki til að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna þessa vantrausts. Glímir konan jafnframt enn við verki og líkamleg óþægindi.

Úrskurðurinn féll í nóvember síðastliðnum en var ekki birtur fyrr en í dag.

Fram kemur í kæru konunnar að hún hafi fljótlega eftir að hún byrjaði í mæðravernd upplýst ljósmæður um að hún hefði miklar áhyggjur af komandi fæðingu enda væri saga um verulegar erfiðar fæðingar í fjölskyldu hennar og hún væri smágerð. Óskaði hún eftir að barnið yrði þegar kæmi að fæðingu tekið með keisaraskurði en var þá tjáð að slíkt væri ekki venjan hér á landi.

Fæðingarlæknir

Konan sagði í kærunni að henni hafi verið tjáð af ljósmóður að hún fengi að hitta fæðingarlækni sem myndi meta stöðuna áður en kæmi að fæðingunni. Það hafi þó aldrei orðið af því og þegar hún hafi beðið um það hafi ljósmæður hunsað það og sagt ekki vera þörf á því.

Þegar konan var gengin 42 vikur var ákveðið að setja fæðinguna af stað. Í kærunni segir að á Landspítalanum hafi tekið á móti henni og maka hennar ljósmóðir sem hafi sýnt af sér slæmt viðmót. Makinn hafi ekki fengið að fara með henni inn í skoðunarherbergi en þar hafi ljósmóðir framkvæmt á henni skoðun og verið svo harðhent að úr henni hafi blætt. Fæðingin hafi gengið hægt fyrir sig. Hún hafi fengið lyf til að koma af stað kröftugri samdráttum en þá fengið svo mikla verki að hún hafi þurft mænurótardeyfingu. Hún hafi verið orðin örþreytt og beðið um keisaraskurð en þá fengið þær upplýsingar að barnið væri komið of neðarlega til að það væri hægt.

Hríðarnar hafi tekið svo langan tíma að barnið hafi farið að erfiða og þá hafi fæðingarlæknir tekið þá ákvörðun að taka barnið með sogklukku. Hún hafi áður verið upplýst um að áður en það yrði gert yrði gripið til ráðstafanna vegna spangarinnar, sem er svæðið milli kynfæra og endaþarms, en af einhverjum ástæðum hafi það ekki verið gert og afleiðingarnar verið þær að hún hafi rifnað allverulega.

Eftir fæðinguna var konan saumuð en hún fullyrti í kærunni að hún hefði fengið hvorki verkjalyf né deyfingu og sársaukinn hafi því verið mikill. Það hafi gengið hægt að sauma hana og deildarlæknir og ljósmóðir séð um það í sameiningu. Hafi þau virst ekki hafa verið með það fyllilega á hreinu hvað þau hafi verið að gera. Eftir að lokið var við að sauma hafi henni verið sagt að standa upp. Um leið hafi liðið yfir hana. Í ljós hafi komið að mikil blæðing hafi verið til staðar og hún þurft að fara í aðgerð til að stöðva blæðinguna. Í kjölfarið hafi þurft að fjarlægja alla saumana og sauma hana upp á nýtt. Komið hafi í ljós að í fyrsta skiptið hafi ekki allar rifur verið saumaðar. Eftir aðgerðina hafi hún þurft blóðgjöf, enda hefði hún misst mikið blóð, bæði vegna mistaka við saumaskapinn en einnig vegna blæðinga frá legi.

Mistök

Um þremur vikum síðar þurfti konan að fara í aðra aðgerð til að sauma eitt af sárunum sem hafði opnast og blóðsöfnun frá fyrra skiptinu fjarlægð. Sagði hún í kærunni að eftir þessa aðgerð hafi komið ein þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem viðstödd hafi verið fæðinguna og önnur sem hafi saumað hana til hennar og beðist afsökunar á því sem hefði gerst við fæðinguna og upplýst hana jafnframt um að þær væru miður sín vegna þessa. Aðspurðar um hvað hefði farið úrskeiðis hafi þær svarað því til að fara hefði átt með hana strax inn á skurðstofu eftir fæðinguna í stað þess að reyna að sauma hana inn á fæðingarstofu.

Konan þurfti að liggja inni á Landspítala í nokkra daga og sagðist hafa verið svo bólgin og verkjuð í margar vikur eftir fæðingu að hún hafi átt erfitt með að hreyfa sig, ekki getað haldið á nýfæddu barni sínu né heldur hugsað um það að nokkru leyti í sex vikur eftir fæðinguna. Maður hennar hafi verið heima fyrstu sex vikurnar og sinnt barninu að öllu leyti. Eftir fæðinguna hafi þau hjónin síðan farið á fund með fæðingarlækninum sem hafði annast hana í fæðingu. Á þeim fundi hafi þeim verið tjáð að mun farsælla hefði verið að taka barnið með valkeisaraskurði í hennar tilviki. Það sé einmitt það sem hún hefði óskað eftir frá upphafi, í mæðravernd en eins þegar fæðingin hafi verið í uppsiglingu sem og í fæðingunni, ítrekað. Tækifærin til að grípa inn í og takmarka tjón hennar hafi verið fjölmörg.

Í maí á þessu ári samþykktu Sjúkratryggingar að konan ætti rétt á bótum úr sjúklingatryggingu þar sem hún hefði í fæðingunni ekki notið bestu mögulegu meðferðar á Landspítalanum. Það sem skapaði bótaskylduna væri að heilbrigðisstarfsfólki hafi yfirsést að spangarrifa sem konan hafi hlotið í fæðingunni hafi verið mun dýpri en áætlað hafi verið, með þeim afleiðingum að hún hafi fengið alvarlegan og fátíðan fylgikvilla spangarrifu, þ.e. mikla blæðingu og margúl. Í ljósi umfangs rifunnar hafi átt að sauma hana á skurðstofu, en ekki á fæðiungarstofu eins og gert var.

Örorka og miski

Sjúkratryggingar töldu hins vegar að ekki hefðu verið færð rök fyrir því að varanlegar afleiðingar hefðu hlotist af meðferð konunnar á Landspítalanum en bent var á í kærunni að hún hafi alla tíð síðan fundið fyrir verkjum og töluverðum óþægindum á umræddu svæði líkamans. Vildi stofnunin meina hins vegar að hún hefði hvorki hlotið varanlega miska né varanlega örorku sem konan andmælti.

Byggðu Sjúkratryggingar þessa niðurstöðu á mati læknis en í kæru konunnar voru færð ítarleg rök fyrir því að matið stæðist ekki kröfur um mat á  varanlegum afleiðingum líkamstjóna.

Svaraði konan spurningum Sjúkratrygginga meðal annars með því að henni hefði liðið afar illa andlega eftir fæðinguna. Hún geti ekki hugsað sér að eignast fleiri börn en áður hafi hún viljað eignast nokkur.

Sagði konan að vegna andlegra og líkamlegra afleiðinga hinnar ófullnægjandi meðferðar hefði hún ekki fulla starfsorku, ljóst væri að miski hennar og örorka væru varanleg. Færð voru í kærunni ítarleg rök fyrir þessu.

Vegna athugasemda Sjúkratrygginga Íslands þess efnis að konan hafi ekki leitað til sálfræðings var á það bent að í sjúkraskrá hennar komi fram að hún hafi óskað eftir sálrænni aðstoð og það hafi verið komið í ferli. Hins vegar hafi hún að endingu ekki treyst sér í slíka meðferð á Íslandi sökum þess að hún hafi misst trú á heilbrigðiskerfinu hér á landi.

Sjúkratryggingar vildu hins vegar meina að þar af leiðandi væru ekki forsendur til að meta andlegar afleiðingar atburðarins og að líkamlegu einkennin sem hún lýsti væru ekki eftir meðferðina á Landspítalanum en samkvæmt gögnum væru sárin sem hún hafi hlotið þá að fullu gróin. Fram kemur hins vegar í ákvörðun Sjúkratrygginga að ekki verði séð af fyrirliggjandi gögnum hvers vegna konunni var ekki boðið viðtal við fæðingarlækni á meðan meðgöngunni stóð vegna hins mikla fæðingarkvíða sem hún var með. Ámælisvert sé ef barnshafandi konum sé meinað að fá læknisfræðilegt mat á meintum vandamálum, óski þær eftir því.

Vantraust

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála segir að óljóst sé hvort að konan hefði verið send í keisaraskurð hefði hún fengið að tala við fæðingarlækni. Hins vegar verði að telja að slíkt sé í kjölfar sjúklingatryggingaratburðar til þess fallið að leiða til vantrausts á heilbrigðiskerfið, sér í lagi fyrir erlenda ríkisborgara, sem konan er. Megi ætla að atvikið hafi leitt til þess að hún hafi síður viljað leitað sér hjálpar vegna andlegra einkenna innan heilbrigðiskerfisins. Með hliðsjón af því og kvörtun konunnar um andlega vanlíðan, sem fái stoð í gögnum málsins, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að konan hafi orðið fyrir miska af þessum sökum.

Nefndin segir einnig að þau líkamlegu einkenni sem konan lýsi séu að öllum líkindum tengd taugaendum.

Við mat á miska þurfi að horfa til tapaðs trausts á heilbrigðiskerfinu og andlegrar vanlíðanar. Konan hafi því sannarlega hlotið varanlegan miska.

Hvaða varðar varanlega örorku segir nefndin að einkenni konunnar með óþægindum frá kvenlíffærum séu til þess fallin að marka líkamlega færni hennar nokkuð. Varanlega örorka hennar sé því 5 prósent.

Sá hluti ákvörðunar Sjúkratrygginga um að konan hefði ekki hlotið neinar varanlegar afleiðingar vegna umræddrar meðferðar á Landspítalanum var því felldur úr gildi og henni ákvarðaður varanlegur miski og varanleg örorka.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lenti í óvæntu veseni eftir setu í stjórn foreldrafélags með háttsettum einstaklingi

Lenti í óvæntu veseni eftir setu í stjórn foreldrafélags með háttsettum einstaklingi
Fréttir
Í gær

Þriðjungur grunnskólanema í sérkennslu eða með sérstakan stuðning í námi

Þriðjungur grunnskólanema í sérkennslu eða með sérstakan stuðning í námi
Fréttir
Í gær

Hvetur foreldra til að huga að þessu – „Óbærileg fyrir börn og ungmenni sem finna sig iðulega með öllu vanmáttug í þessum aðstæðum”

Hvetur foreldra til að huga að þessu – „Óbærileg fyrir börn og ungmenni sem finna sig iðulega með öllu vanmáttug í þessum aðstæðum”
Fréttir
Í gær

Andrés sakfelldur fyrir nauðgun gegn stúlku undir 15 ára aldri – Brotaþoli gat lýst íbúðinni hans

Andrés sakfelldur fyrir nauðgun gegn stúlku undir 15 ára aldri – Brotaþoli gat lýst íbúðinni hans