fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Fréttir

„Þá blasti við mér lítið barn í miðjum eldinum”

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 16. desember 2025 19:30

Óli Gränz og Ágúst Halldórsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óli Gränz er heiti endurminninga Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa, frá Vestmannaeyjum. Hann fæddist í Eyjum 16. janúar 1941 og hefur lagt gjörva hönd á margt á lífsleiðinni. Var ungur til sjós og síðar farsæll iðnaðarmaður, rak bílaleigu og verslun, settist á Alþingi og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, var bókaútgefandi á heimsvísu og mikilvirkur í félagsmálum. Óli segir frá æsku sinni og uppvexti, þátttöku í atvinnulífi og pólitík, einkamálum, prakkarastrikum og eldgosunum í Surtsey og Heimaey. Bókin er 315 bls. og prýdd fjölda mynda. Guðni Einarssonskráði. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.

Hér birtast tveir stuttir kaflar úr bókinni.

„Ég man vel þriðjudaginn 6. júlí 1954 þegar yngsta systir mín, Hulda Ósk, fæddist heima í Jómsborg. Hún var tvíburi og hinn tvíburinn fæddist andvana. Ljósmóðir var viðstödd fæðinguna auk yfirsetukonu. Enginn læknir var til staðar.

Ég var 13 ára og eitthvað að vappa fyrir utan svefnherbergið þar sem mamma fæddi Huldu, ég vissi ekkert af hinu barninu. Ljósmóðirin kallaði í mig og rétti mér heilmikinn vöndul af blóðugum tuskum og öðru sem mér þótti ekki kræsilegt. Hún sagði mér að fara með þetta niður í þvottahús og brenna það í eldhólfinu undir þvottapottinum. Ég hlýddi því og tróð vöndlinum í eldhólfið. Svo skvetti ég vel yfir af olíu og bar eld að. Þetta fór að skíðloga og það kom fínn trekkur.

Ég opnaði lúguna og skvetti inn meiri olíu svo þetta brynni nú allt upp. Þá blasti við mér lítið barn í miðjum eldinum og olíugusan lenti á kviðnum á því. Við það espaðist eldurinn og barnið krepptist upp í áttina til mín, alveg eins og það væri að setjast upp. Ég varð stjarfur af hræðslu, skellti lúgunni aftur og var viss um að ég hefði drepið litla barnið. Ég áttaði mig ekkert á að það væri eðlilegt þegar hitinn jókst svona mikið öðrum megin á litla kroppnum að hann krepptist saman.

Ég sé enn fyrir mér þegar barnið reistist upp í áttina til mín umvafið eldslogunum. Ég talaði aldrei um þetta við mömmu eða pabba en ræddi þetta við Huldu systur löngu seinna. Mér finnst að mamma hafi einhvern tíma nefnt að Hulda væri tvíburi, en það var aldrei minnst á bálförina. Það snertir mig enn djúpt að tala um þessa hræðilegu lífsreynslu. Fyrir ekki löngu síðan var ég að segja frá þessu í hópi vina minna. Þá vissi ég ekki af fyrr en ég var farinn að skæla, kominn á níræðisaldur og meira en 70 ár síðan að þetta gerðist.

Eftir á að hyggja var allt undarlegt við þetta. Í fyrsta lagi að láta mig, enn á barnsaldri, fara með vöndulinn og brenna hann án þess að láta mig vita hvað leyndist í honum. Annað er að á þessum tíma var algengt að lík barna, sem fæddust andvana eða dóu nýfædd, væru lögð í kistu með einhverjum sem dó um svipað leyti eða þau fengu sína eigin gröf.  Ég hef enga skýringu á því hvers vegna það var ekki gert í þessu tilfelli.”

Jómsborg

Reknir út af sjúkrahúsinu

„Við Gústi minn (Ágúst Halldórsson) vorum boðaðir í röntgenskoðun upp á sjúkrahús (í Vestmannaeyjum). Ég fór heim í bað og klæddi mig í ljósar gallabuxur og hvíta skyrtu. Við komum upp á spítala og var okkur vísað inn í herbergi eða biðstofu þar sem voru 8-10 karlar fyrir, aðkomumenn sem unnu í frystitækjunum í Vinnslustöðinni. Þar inni voru líka vegleg vigt og kvarði til að mæla hæð manna. Hins vegar sást hvorki læknir né heilbrigðisstarfsmaður.

Um leið og ég birtist svona strokinn og fínn segir einn karlanna: „Já, þú ert læknirinn!“ Ég var ekkert að leiðrétta það en gat ekki sleppt tækifæri til að hafa smá gaman. Ég sagði körlunum að ég þyrfti að vigta þá og mæla og skipaði þeim að hátta sig. Þeir spurðu hvar þeir ættu að setja fötin? Ég sagði að þarna væri allt þrifið oft á dag og meira að segja sótthreinsað. Þeim væri því alveg óhætt að brjóta bara fötin saman og setja þau snyrtilega á gólfið með fram veggjunum. Svo vigtaði ég þá og mældi. Þeir spurðu hvort ég þyrfti ekki að skrifa neitt hjá mér? „Nei, þegar maður er búinn að vera jafnlengi í þessu og ég þá bara leggur maður þetta á minnið,“ svaraði ég.

Um síðir kom læknirinn, kandídat úr Reykjavík, og rak upp stór augu þegar hann sá alla vertíðarkarlana á nærbuxunum, stuttum og síðum, tvístígandi á gólfinu. Hann spurði hvað væri eiginlega þarna á seyði?

„Ja, læknirinn sagði okkur að hátta okkur,“ sagði einn sem varð fyrir svörum. „Hann er líka búinn að vigta okkur og mæla,“ bætti annar við.

„Læknirinn? Hver er það?“ spurði kandídatinn með furðusvip. „Þessi þarna,“ sagði maðurinn og benti á mig. Kandídatinn varð alveg brjálaður og rak mig út með það sama. Ég komst aldrei að því hvers vegna við vorum boðaðir í myndatökuna. Líklega var það vegna þess að ég fékk ungur berkla og hef verið með blett í hægra lunganu alla tíð síðan. Það kallaði á reglulegt eftirlit. Ég fór mjög þétt í röntgenmyndatökur vegna þessa og helst árlega á tímabili.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ekki víst að Guðmundur Ingi snúi aftur í barna- og menntamálaráðuneytið

Ekki víst að Guðmundur Ingi snúi aftur í barna- og menntamálaráðuneytið
Fréttir
Í gær

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auður stígur til hliðar úr Gímaldinu

Auður stígur til hliðar úr Gímaldinu