
Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknarflokksins hefur, ásamt tveimur öðrum þingmönnum flokksins og þingmanni Miðflokksins, lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verði falið að útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á fjórum tegundum fugla utan hefðbundins veiðitíma þeirra. Ein tegundin, álft, hefur þó eftir því sem næst verður komist ekki hefðbundin veiðitíma enda hefur hún verið friðuð frá 1913, í 112 ár. Segir í greinargerð með tillögunni að um undanþágu frá friðun yrði að ræða og vísað er til þess að álftastofninn á Íslandi standi vel og að álftir valdi ítrekað tjóni á túnum og ökrum bænda.
Þórarinn er fyrsti flutningsmaður en meðflutningsmenn eru samflokksmenn hans Sigurður Ingi Jóhannsson og Stefán Vagn Stefánsson og þingmaður Miðflokksins Þorgrímur Sigmundsson.
Þingmenn Framsóknarflokksins lögðu síðast fram tillögur um veiðar á álft fyrir um áratug.
Samkvæmt tillögunni yrði ráðherranum falið að móta og útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja á kornökrum og túnum frá 15. mars til 20. ágúst og álft á kornökrum frá 1. maí til 1. október. Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf sé talin á aðgerðum vegna verulegs ágangs fugla á tún og kornakra. Ráðherra geri einnig stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi í samvinnu við Náttúruverndarstofnun og hagsmunaaðila. Ráðherra greini Alþingi frá tillögum sínum og leggi fram skýrslu um áætlunina eigi síðar en 1. desember 2026.
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að álftir, grágæsir, heiðagæsir og helsingjar valdi miklu tjóni á túnum og kornökrum. Þörf sé á að finna leiðir fyrir bændur til þess að stemma stigu við ágangi álfta og gæsa. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og Bændasamtök Íslands hafi tekið saman upplýsingar um ágang af völdum gæsa og álfta á ræktarlönd. Hægt sé að byggja á þeirri vinnu við mat á þörf til að bregðast við ágangi. Eftir sem áður þurfi að tryggja vernd stofnanna og meta árangur aðgerðanna.
Eins og áður segir hefur álftin verið friðuð á Íslandi síðan 1913 en rökin fyrir friðun á þeim tíma virðast einkum hafa verið fagurfræðilegs eðlis.
Um álftir segir í greinargerðinni að þær þurfi að éta um 300 grömm á dag af þurrefni. Ungfuglar safnist oft í stórum hópum í nýrækt og á kornökrum. Þörf sé á að veita staðbundna undanþágu frá ákvæðum laga um friðun hennar til þess að bregðast við tjóni. Álftin hafi verið friðuð á Íslandi frá árinu 1913 en álftarstofninn hafi stækkað verulega. Um 1960 hafi stofninn verið 3.000–5.000 fuglar en nú sé talið að stofninn sé um 34.000 fuglar.
Í samantekt Náttúrufræðistofnunar kemur fram að íslenski álftastofninn standi mjög sterkt og sé ekki í hættu.
Segir enn fremur í greinargerðinni að bændur hafi reynt að verjast ágangi fugla með ýmsum hætti, bæði með sjónrænum og hljóðrænum aðferðum. Þær dugi þó skammt þar sem fuglinn sé fljótur að venjast fælum og komi fljótt aftur í tún og akra. Sömu aðferðir eru notaðar í öðrum löndum og hafi fuglarnir einnig vanist fælum þar. Með vörnunum sé aðeins verið að hrekja fuglana tímabundið af ákveðnum svæðum en þeir leiti þá gjarnan til næsta bónda. Slík tilfærsla á vandamálinu sé ekki skynsamleg lausn til lengdar og sé því nauðsynlegt að bregðast við með aukinni forsjálni.
Loks má geta þess að í greinargerðinni er minnt á að álftir og gæsir teljist til andfugla og séu grasbítar. Þær sæki frekar í tún sem séu í góðri rækt en lélegri. Þær eigi auðvelt með að greina fóðurgildi gróðurs og velji sér bithaga eftir því. Ágangur álfta og gæsa valdi bændum fjárhagslegu tjóni og einskorðist sá vandi ekki við Ísland.
Tillöguna í heild sinni er hægt að kynna sér hér.