fbpx
Fimmtudagur 27.nóvember 2025
Fréttir

Hefur beðið í tvö ár eftir svari við umsókn um ríkisborgararétt

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 27. nóvember 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni á kvörtun ónefnds einstaklings yfir því að hafa ekki fengið svör frá Útlendingastofnun við umsókn um íslenskan ríkisborgararétt sem lögð var fram í september 2023. Segir í bréfi umboðsmanns til viðkomandi að þar sem tafirnar séu af orsökum sem séu ekki bundnar eingöngu við hans mál verði ekki farið lengra að sinni með málið af hálfu embættisins.

Kvörtunin til umboðsmanns var lögð fram í september síðastliðnum, tveimur árum eftir að umsóknin var lögð fram til Útlendingastofnunar.

Í tilefni af kvörtuninni var Útlendingastofnun ritað bréf í október síðastliðnum þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti umboðsmann um hvað liði meðferð og afgreiðslu umsóknarinnar.

Lögreglan

Svar Útlendingastofnunar barst í lok október og samkvæmt bréfi umboðsmanns til kvartanda kemur fram í skýringum stofnunarinnar að nauðsynlegt hafi verið að senda sakavottorð hans í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í maí hafi kvartandinn verið upplýstur um þetta og að það kæmi til með að lengja málsmeðferðartímann. Ráðið verði af svari Útlendingastofnunar að enn sem komið er sé sakavottorðið til athugunar hjá lögreglunni en biðtími hjá þeirri deild lögregluembættisins sem sjái um slíkar beiðnir hafi lengst undanfarið vegna álags og fjölgunar slíkra beiðna. Þá sé tekið fram í svarinu að Útlendingastofnun hafi ekki úrræði til að knýja fram afgreiðslu áreiðanleikakönnunarinnar.

Umboðsmaður minnir á að samkvæmt lögum sé ekki gert ráð fyrir hann hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafi lokið umfjöllun sinni um það. Þegar umboðsmanni berist kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggi að mál hafi verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hafi ítrekað erindi sitt hafi almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls.

Þetta hafi ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hafi reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hafi brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert sé að afgreiða málið. Í þessum tilvikum ljúki umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Þegar niðurstaða liggi ekki fyrir hafi umboðsmaður hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar séu á tilteknum stjórnsýslumálum sem enn séu til meðferðar í stjórnsýslunni séu úr hófi.

Í vinnslu

Segir í bréfi umboðsmanns að ekki verði annað ráðið en að málið sé í vinnslu hjá Útlendingastofnun og að þær tafir sem orðið hafi á afgreiðslu þess megi rekja til þess að beðið sé eftir niðurstöðu athugunar lögreglu á sakavottorði umsækjandans. Því séu ekki forsendur fyrir umboðsmann að aðhafast frekar að svo stöddu endi liggi ekki annað fyrir en að tafirnar séu almennar og ekki bundnar við þetta tiltekna mál sérstaklega. Verði frekari tafir á málinu eftir að athugun lögreglu á sakavottorðinu sé lokið geti kvartandinn lagt fram nýja kvörtun. Honum er einnig bent á þann möguleika að spyrjast fyrir hjá lögreglunni um framgang athugunar á sakavottorðinu.

Með vísan til alls þessa lætur umboðsmaður Alþingis athugun sinni á málinu lokið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bóndi sektaður fyrir að sinna dýrunum illa – Segir Matvælastofnun beita sig andlegu ofbeldi

Bóndi sektaður fyrir að sinna dýrunum illa – Segir Matvælastofnun beita sig andlegu ofbeldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón ósáttur við gæludýralögin – „Þetta er gjaldið sem aðrir flokkar greiða fyrir að fá stuðning Ingu Sæland“

Jón ósáttur við gæludýralögin – „Þetta er gjaldið sem aðrir flokkar greiða fyrir að fá stuðning Ingu Sæland“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sonur Hildar verður fyrir einelti og útskúfun – „Að finna neistann slokkna í barninu mínu er það hræðilegasta sem ég hef upplifað“

Sonur Hildar verður fyrir einelti og útskúfun – „Að finna neistann slokkna í barninu mínu er það hræðilegasta sem ég hef upplifað“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Friðbjörn segir að djúpstæð krísa ríki á Akureyri – „Hreinlega þjóðaröryggismál”

Friðbjörn segir að djúpstæð krísa ríki á Akureyri – „Hreinlega þjóðaröryggismál”