

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra greinir frá því á Facebook að hún hafi nú fyrr í morgun rætt í síma við Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um ákvörðun sambandsins um að undanskilja ekki Ísland og Noreg frá verndartollum á kísilmálmi. Segir Kristrún að skýrt hafi komið fram af hálfu Von der Leyen að um einstakt tilvik væri að ræða sem væri ekki fordæmisgefandi og ákvörðunin snerist ekki um EES-samninginn.
Kristrún segir að ákvörðun Evrópusambandsins hafi verið mikil vonbrigði:
„Að okkar mati samræmist hún ekki EES-samningnum þó að útfærslan á þessum aðgerðum taki mið af hagsmunum okkar – sem er ákveðinn varnarsigur eins og forstjóri Elkem hefur sagt.“
Áfram verði haldið að berjast fyrir hagsmunum Íslands í málinu og þakkar Kristrún öllum sem hafa lagt lið í hagsmunagæslunni undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra:
„Það er mikilvægt fyrir okkur sem erum í forsvari í stjórnmálum að senda rétt skilaboð til fólksins í landinu og atvinnulífsins. Að tala af ábyrgð. Og standa vörð um EES-samninginn sem er og verður áfram kjölfestusamningur í efnahagsstefnu Íslands.“
Kristrún segist í símtalinu við Ursulu von der Leyen hafa komið skýrt til skila óánægju íslenskra stjórnvalda með þessa niðurstöðu og að hún væri ekki í takti við það sem við ætti að búast í samskiptum Evrópusambandsins og Íslands. Von der Leyen hafi tekið af öll tvímæli:
„Von der Leyen staðfesti við mig að aðgerðirnar væru sértækt tilvik og ekki fordæmisgefandi fyrir aðrar ákvarðanir. Hún sagði líka skýrt að þessi ákvörðun snerist ekki um EES-samninginn. Ísland getur áfram reitt sig á aðgengi að innri markaði ESB og því fjárfestingaumhverfi sem samningnum fylgir. Þrátt fyrir þetta hliðarspor þá stendur EES-samningurinn sterkur. Það er mikilvægt að fá það staðfest með þessum hætti.“
Kristrún segist að lokum vera á leiðinni norður í land:
„Nú er ég á leiðinni norður. Ég tek þátt í ráðstefnu á Húsavík um framtíðina á Bakka. Og í kvöld verð ég á Kópaskeri þar sem við Logi Einarsson ætlum að eiga opið samtal við heimamenn um daglega lífið. Hlakka til. Áfram gakk.“