

Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Einmitt ræðir Einar Bárðarson við fjármálaráðgjafann Björn Berg, sem á síðustu árum hefur fest sig í sessi sem einn helsti leiðbeinandi þjóðarinnar í fjármálalæsi. Þeir félagar fara um víðan völl í hagnýtu samtali sem snertir á mörgum af stærstu spurningum heimilanna: lán, vextir, skuldir, kaupmáttur og hvernig fólk getur raunverulega náð betra svigrúmi í lífinu.
Snemma í samtalinu berst talið að fjárfestingum og þar slær Björn fast á strengi sem hann hefur lengi boðað. „Að greiða inn á höfuðstól lána er 100% örugglega besta fjárfesting einstaklinga,“ segir Björn. „Það er skattfrjálst, fyrirsjáanlegt og þú þarft ekki að kannast við flóknar leiðir eða kunna nokkuð sérstaklega. Þú veist nákvæmlega hvað gerist.“ Hann segir að þegar fólk byrjar að vinna markvisst með þetta prinsipp jafnvel með litlum upphæðum fari breytingarnar að sjást hratt bæði í greiðslubyrði og andlegri líðan vill hann meina. „Þegar þú keyrir niður skuldirnar, stundum lítið í hvert skipti en þá býrðu til svigrúm. Þegar greiðslubyrðin hverfur bætist hún við svigrúmið sem þú varst búinn að skapa. Þá fer þetta á autopilot. Eins og í ræktinni: þegar þú sérð árangur heldurðu áfram.“
Einar og Björn ræða einnig hvernig íslenskt samfélag talar oft um vexti á mjög þröngan hátt og gleymir stærra samhengi. Björn bendir á að þegar litið er á kaupmátt, hagvöxt og launaþróun síðustu tveggja áratuga standi Íslendingar mun betur en margir vilja viðurkenna.
„Það er dálítið skrýtið að við horfum bara á vexti og segjum: „Allt er ömurlegt.“ Í mörgum löndum hefur kaupmáttur staðið í stað eða lækkað, og vinnumarkaðurinn er allt öðruvísi. Við höfum búið við mikla kaupmáttaraukningu og gífurlegan hagvöxt,“ segir Björn. Hann minnir á að rétt fyrir Covid hafi Ísland verið komið mjög nærri bestu blöndunni: sterkur kaupmáttur, mikill hagvöxtur og lægri vextir. „Það gleymist oft í umræðunni.“
Í þættinum ræðir Björn einnig um launakerfið, verðbólgu og hvernig Íslendingar geti áfram átt góða framtíð með lágum vöxtum ef þeir velji réttar leiðir. Að hans mati er einföldun umræðunnar, að dæma landið eingöngu út frá vöxtum, grettistak sem þarf að vinna á.
„Við þurfum að ákveða hvort við ætlum að gefast upp, eða hvort við ætlum að horfast í augu við hvað þarf að laga,“ segir hann. „Það þýðir ekki að tala bara um vexti en neita að taka á verðbólgu eða launamyndun.“
Þeir félagar fara yfir fleiri gagnleg mál þegar kemur að rekstri einstaklinga og heimila í þessum þætti sem margir gætu haft gagn af.