
Tveir bræður hafa verið sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir peningaþvætti og annar þeirra fyrir fleiri brot. Brotin áttu sér stað á árunum 2016 til 2019 en rannsókn málsins hjá lögreglu hefur tekið óhemjulangan tíma.
Annar maðurinn var í fyrsta lagi ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 15. febrúar 2016 til og með 8. mars 2019 tekið við eða aflað sér ávinnings af auðgunabrotum fyrir lágmark rúmlega 35 milljónir króna, og notað meðal annars til úttektar á erlendum gjaldeyri og til eigin framfærslu.
Maðurinn var einnig ákærður fyrir minniháttar búðarhnupl og fyrir gabb, með því að hafa mánudaginn 26. september árið 2022 hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt ranglega að hann hafði orðið fyrir líkamsárás í sumarbústað á Blönduósi. Símtalið varð til þess að fjórir lögreglumenn frá Blönduósi og Sauðárkróki fóru á vettvang.
Maðurinn var ennfremur sakaður um að hafa móttekið og aflað sér ávinnings í formi reiðufjár samtals 25,8 milljónir króna sem hann afhenti bróður sínum í þeim tilgangi að umbreyta reiðufé í íslenskum krónum með gjaldeyrisviðskiptum.
Áðurnefndur maður er með langan sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2011. Bróðir hans hefur hins vegar ekki áður komist í kast við lögin en hann var ákærður fyrir að hafa á tímabilinu 7. mars 2018 til og með 12. mars 2019 móttekið ávinning af auðgunarbrotum bróður síns, samtals 25,8 í formi reiðufjár, sem hann nýtti og umbreytti með því að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir reiðufé í íslenskum krónum.
Bræðurnir játuðu báðir sök gegn því að ákæru yrði breytt á þann veg að felldar yrðu brott fullyrðingar um að féð sem þeir tóku við væri ávinnningur af sölu og dreifingu á fíkniefnum.
Við ákvörðun refsingar var horft til þess að þeir játuðu brotin og ennfremur til þess að málið hefur dregist úr hömlu en rannsókn lögreglu hófst árið 2019.
Var fyrrnefndi bróðirinn dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi en sá síðarnefndi í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi.