

Samþykkt var á síðasta fundi menntaráðs Reykjanesbæjar að gerð verði heildarúttekt á stöðu leikskólamála í samanburði við sambærileg sveitarfélög. Segja fulltrúar minnihlutans að eins og staðan á biðlistum virðist vera bendi til að hún sé verri en í Reykjavík.
Greint var frá því á fundinum að í nóvember 2025 hafi 134 börn verið á biðlista eftir leikskólaplássum í Reykjanesbæ. Í fundargerðinni segir að samkvæmt fundargögnum sé þetta fjöldi barna sem sótt hafi verið um leikskólapláss fyrir sem hafi ekki enn fengið úthlutað.
Í kjölfarið var gert fundarhlé í um hálfa klukkustund. Að því loknu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Umbótar, sem eru í minnihluta, fram bókun þar sem skorað var á bæjaryfirvöld að gera heildarúttekt á stöðu leikskólamála í sveitarfélaginu. Í tvö kjörtímabil hafi staðið til að börn væru tekin inn í leikskóla við 18 mánaða aldur en raunin virtist vera sú að flest börn hafi verið að hefja leikskóladvöl 24-29 mánaða gömul. Ef þær tölur reynist réttar þá hafi staðan í þessum málaflokki verið langverst hjá Reykjanesbæ í samanburði við sambærileg sveitarfélög um árabil og fyrir löngu tímabært að ráðast í úrbætur. Reykjavíkurborg hafi verið reglulega gagnrýnd fyrir slæma stöðu í leikskólamálum en miðað við þessa stöðu biðlista í leikskólum þá virðist biðlistar í Reykjanesbæ vera hartnær helmingi lengri en hjá borginni ef miðað sé við íbúafjölda.
Fulltrúar meirihlutaflokkanna í menntaráði, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Beinnar leiðar, lögðu fram sína eigin bókun þar sem tekið var undir að gera þyrfti slíka úttekt.
Segir í bókuninni að sviðsstjóra menntasviðs sé falið að vinna að því að gerð verði heildarúttekt á stöðu leikskólamála í Reykjanesbæ í samanburði við sambærileg sveitarfélög. Markmið úttektarinnar sé að kanna möguleika á því að taka börn inn í leikskóla í Reykjanesbæ við 18 mánaða aldur en í dag sé miðað við börn sem verði tveggja ára á árinu. Einnig verði skoðað á hvaða aldri börn hafi verið þegar þau hafi fengið úthlutað leikskólaplássi í sveitarfélaginu á yfirstandandi kjörtímabili. Rétt sé að benda á að í næstu viku verði tekinn í notkun nýr leikskóli í Drekadal þar sem bætast muni við 43 leikskólapláss og 30 til viðbótar á árinu 2026. Fullbúinn verði þessi nýi leikskóli í Innri-Njarðvík fyrir 120 börn.