

Demókratar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings birtu í gær 20 þúsund skjöl úr dánarbúi kynferðisafbrotamannsins Jeffrey Epstein. Í þeim má finna tölvupósta frá Epstein sem hafa vikið mikla athygl, sér í lagi í þeim tilvikum þar sem Epstein ræðir Donald Trump, Bandaríkjaforseta.
CNN fór yfir skjölin og birti helstu upplýsingar úr þeim. Þar má til að mynda lesa að Epstein gagnrýndi Trump harkalega í einkasamskiptum sínum en í sumum tilvikum vekja samskiptin fleiri spurningar en svör.
Í tölvupósti til fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkistjórn Bill Clinton, Larry Summers, árið 2019 sagði Epstein til að mynda að Trump væri á „barmi þess að vera geðveikur“ og var á sömu nótum í tölvupósti til írsks blaðamanns árið 2017: „Donald er fokking klikkaður.“
Þá ýjar Epstein iðulega að því að Trump hafi eitthvað að fela. Í tölvupósti til, Kathryn Ruemmler sem starfaði sem sérfræðingur í Hvíta Húsinu í valdatíð Barack Obama, árið 2018 segir Epstein: „Ég veit hve skítugur Donald er.“
Það sem allir hafa leitað eftir er hvort að Trump hafi gerst sekur um að taka þátt eða vitað um viðurstyggileg kynferðisbrot Epstein gegn ungum stúlkum. Eitthvað sem að Trump hefur alla tíð þverneitað fyrir.
Engar sannnanir um slíkt er að finna í tölvupóstunum þótt ýmsir telji sig geta lesið út einhverjar vísbendingar.
Þannig virðist Epstein undrast það í tölvupósti til samverkakonu sinnar, Ghislaine Maxwell, árið 2011 að Trump hafi ekki dregist inn í umræðuna um meint afbrot hans.
Í öðrum tölvupósti til blaðamanns New York Times segist Epstein luma á myndum af Trump umkringdum stúlkum í bikiníum í eldhúsi heimili síns. Þær myndir hafa þó aldrei litið dagsins ljós.
Í sama tölvupósti segir Epstein að hann hafi átt tvítuga kærustu í tvö ár undir lok síðustu aldar en hann hafi síðan „gefið hana Trump.“
Athyglisverðustu samskiptin eru við rithöfundinn Michael Wolff. Í einum tölvupósti til hans fullyrðir Epstein að Trump hafi logið því þegar hann sagðist hafa rekið hann sem meðlim úr Mar-a-Lago klúbbi sínum fyrir að „stela“ þaðan ungum stúlkum sem unnu þar og fá þær til að vinna fyrir sig.
Epstein segist hins vegar aldrei hafa verið meðlimur í klúbbnum og bætir við: „Auðvitað vissi hann um stelpurnar, þar sem hann bað Ghislaine að hætta.“
Karoline Leavitt, upplýsingafulltrúi Trump, segir póstana „sanna ekki neitt“ og Trump sjálfur segir að um falsfréttir sé að ræða og sakar Demókrata um að reyna að dreifa athyglinni frá væringum í bandaríska þinginu. Trump hefur alla tíð neitað öllum ásökunum um misgjörðir í tengslum við Epstein.
Epstein-málið hefur reynst Trump erfitt og ljóst að tölvupóstarnir, þrátt fyrir að þeir sanni ekkert saknæmt á Trump, þá hella þeir olíu á eld sem farinn er að brenna glatt. Þá hjálpar það ekki Trump að hann virðist hafa lítinn áhuga á því að Epstein-skjölin birtist í heild sinni . Það er óþægilegt fyrir hann í ljósi þess að hann var yfirlýsingaglaður í kosningabaráttu sinni um að hann vildi birta allt í tengslum við málið.