

„Þessi kostnaður og gjöld sem eru lögð til dæmis á eldsneyti, á losun skipa og flugvéla hækkar allt vöruverð til landsins, hækkar verð á flugmiðum, hækkar verðið við bensíndæluna. Þetta getur í rauninni ekki dregið úr losun Íslendinganna vegna þess að við þurfum að flytja inn vörur og við þurfum að fara til útlanda og við þurfum að keyra bílinn. Og það kemur í ljós að þó að þú hækkir verð á bensíni um 5 eða 10% með einhverjum kolefnissköttum, þá hættir fólk ekki að kaupa bensín. Það þarf að komast í vinnuna og sækja krakkana og vera í þessu skutli. Þannig að það bjargar heldur ekki loftslaginu, en það hækkar vöruverð í landinu. Og það hækkar þá neysluverðsvísitölu,“
segir Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, í Spjallinu með Frosta Logasyni
Frosti hefur á undanförnum misserum gagnrýnt harðlega þá stefnu sem Ísland hefur sett sér í samdrætti á svokölluðum gróðurhúsalofttegundum. Hann segir engu máli skipta hversu mikið Ísland leggur á sig í loftslags málum og bendir á að þó Ísland myndi hætta kolefnislosun með öllu þá gæti það ekki haft nein mælanleg áhrif á loftslagið. Í þessu áhugaverða viðtali fer hann ítarlega yfir ýmsar bábiljur og rangfærslur í loftslagsumræðunni.
„Við hvert eitt prósent hækkunar á þessari neysluvísitölu, þá hækka skuldir heimilanna um tugi milljarða, eitthvað nálægt 20 milljörðum, 1% hækkun. 20 milljörðum fátækari, þeir sem hafa tekið lán verðtryggt. Þetta er unga fólkið sem er að koma upp um sig húsi. Þannig að þetta er bæði heimskulegt, gagnslaust og veldur kostnaði og kemur niður á þeim sem síst skyldi.“
„Það skiptir engu máli hvað Ísland losar mikið eða lítið, losun okkar er 0,1% af losun heimsins. Og ef við myndum hætta að losa á morgun og aldrei losa meir, þá gæti það ekki haft nein mælanleg áhrif á loftslagið.
Þá kemur upp kannski önnur spurning, hvort að það sé rétt að koltvísýringur sé að valda hlýnuninni. Og um það eru bara vísindamenn ekki alveg vissir. Það er ekki hægt að sanna það vísindalega. Það er hægt að koma með tilgátu og sýna fram á að koltvísýringur sé gróðurhúsalofttegund. Án koltvísýrings þá væri kaldara á jörðinni. Magn koltvísýrings má ekki fara niður fyrir hvað, ef hann færi niður í einn þriðja af því sem hann er núna, þá deyja bara allar plöntur, allar ljóstillífandi plöntur, af því að hann er matur fyrir plöntur. Og þessi aukning á koltvísýringi sem hefur gerst síðan á iðnbyltingu, hún hefur leitt til þess að jörðin er að grænka. Allar plöntur fá meira að borða og eyðimerkur minnka, gróður kemst hærra upp í fjöll. Þannig að það er jákvætt að einhverju leyti að auka koltvísýringinn. Þetta er mjög óheppilegt að stjórnvöld séu að velja eitthvað ákveðið, einhverja ákveðna niðurstöðu til að styrkja. Gætu bara látið loftslagsvísindamenn fá styrki óháð því hvað þeir komast að. En þeir loftslagsmenn sem töldu sig geta sýnt fram á eitthvað annað en þetta viðtekna sjónarmið sem Al Gore var að boða, þeir fengu bara ekki styrki, fengu ekki frama og það var ekki skynsamlegt fyrir ungan vísindamann að fara að vinna að slíkum rannsóknum. Samkvæmt Parísarsáttmálanum þá er okkur ekki ætlað að draga saman meira en 29%, en þarna ætlum við að gera 55%.“
Frosti telur að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar njóti ekki stuðnings almennings, ekki nema þá lítils hóps.
„Ég meina þetta er ekki það sem fólkið vill, nema einhver lítill hópur, mjög skelfingu lostinn hópur, sem heldur að það sé rétt. Hann heldur að sé fárviðri, einhver Golfstraumurinn sé að stöðvast, eitthvað slíkt. En hann er bara ekkert að stöðvast og það er furðulegt að fólk sem starfar hjá Veðurstofunni er að segja að Golfstraumurinn sé líklega að stöðvast.
Þeirra rannsóknir og gögn, splunkunýjar, sýna bara að svo er ekki, einhver líkön sýna að gæti gerst. Þetta er ekki vísindi, þetta er bara einhvers konar áróður til þess að viðhalda styrkjum, til þess að halda áfram þessu starfi. Ég held að þetta sé orðið algjörlega farið að nærast á sjálfu sér.“
Frosti segir því eitthvað annað liggja að baki en að verið sé að bjarga loftslaginu.
„Það er að sýna liðsheild, vera með öðrum, vera svona gott fordæmi, eitthvað svoleiðis. En við erum löngu orðin svo gott fordæmi að við þurfum ekkert að vera að sýnast. Fyrir aldamót vorum við búin að gera meira en allar þær þjóðir í því að draga úr útblæstri, í orkuskiptum, í allri kyndingu á húsnæði með hitaveitu og öðru slíku. Í rafvæðingu bílaflota og allt slíkt, þá erum við komin bara framar en öll lönd, með held ég mögulega Noregi, sem er líka ákafur í að innleiða rafbíla. En, hvers vegna eigum við þá að ganga enn framar? Það er einhver pólitískur metnaður íslenskra stjórnmálamanna á alþjóðlegum vettvangi sem er að bera þá ofurliði og veldur okkur sem þjóð óbærilegum kostnaði. Kostnaðurinn hleypur á tugum milljarða árlega. Það kemur fram í stjórnvalda við fyrirspurn þingmanna, að þetta mun kosta á næstu árum, á þessu tímabili sem um ræðir, ég man ekki hvað þetta var langt tímabil, 20 ár, um 250 milljarða. Það eru eitt eða tvö þjóðarsjúkrahús. En það getur ekki bjargað loftslaginu.
Og líka annað, að útreikningarnir á losun Íslands eru kolrangir hjá þeim. Þetta bókhald í kringum losunina gengur út frá því að einhver jarðvegur sé að losa, einhverjar mýrar séu, einhver tún séu að losa. En í raun og veru eru nýjustu rannsóknir að sýna það að íslenskur, sem sagt gróður og á svona norrænum slóðum eins og hér, að gróðurinn og, og sérstaklega beitarland, bindur koltvísýring. Og hann bindur meiri koltvísýring heldur en allur iðnaðurinn losar, þannig að það er óskiljanlegt að þetta sé ekki tekið til greina.“