

Eins og fram hefur komið í fréttum í dag var Karl Ingi Vilbergsson saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara handtekinn í sumar. Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður segir í pistli á Facebook að málið kalli á tiltekt í réttarvörslukerfinu.
Karl Ingi var handtekinn fyrir utan skemmtistað og gisti í kjölfarið fangageymslur eftir að hafa lent í einhverju orðaskaki við aðra viðskiptavini staðarins og dyraverði. Hann hefur hafnað boði embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að ljúka málinu með greiðslu sektar og segist ekki hafa brotið nein lög.
Varahéraðssaksóknari handtekinn fyrir utan skemmtistað í ágúst og gisti í fangageymslu
Sævar Þór spyr í pistli sínu hvort það sé ekki orðið augljóst að að taka þrufi til í réttarvörslukerfinu hér á landi.
„Gott og blessað að þetta sé eitthvað fyllirísraus en mál síðustu vikna, mánaða og ára bera þess keim að það þarf að fara að hreinsa til duglega í þessum kerfum.“
Hvaða önnur mál Sævar Þór á þarna við tekur hann ekki fram en hann gagnrýnir Karl Inga fyrir að lýsa því sjálfur yfir að hann hafi ekki gerst brotlegur við lög:
„Hér er embættismaður sem vinnur við að sækja fólk til saka að lýsa því yfir að engin lög hafi verið brotin og dæmir um það sjálfur, ekki hafa hinir ákærðu í málum sem hann sækir slíkan munað að geta sagt þannig að mark sé á takandi að hans mati.“