

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu þar sem varað er við kræfum vasaþjófum. Í tilkynningunni kemur fram að þrjú mál hafi nýlega komið upp þar sem greiðslukortum var stolið af vasaþjófum.
„Í tveimur þeirra eru brotaþolarnir fullorðnir karlar, komnir á eftirlaunaaldur og rúmlega það. Talið er að þjófarnir hafi fylgst með mönnunum slá inn PIN-númer í verslunum, fylgt þeim síðan eftir og þá stolið veskjunum úr vösum þeirra. Eftirleikurinn var svo auðveldur, en þjófarnir tóku út talsvert fé af reikningum mannanna. Í þriðja tilvikinu varð erlendur ferðamaður fyrir barðinu á vasaþjófum sem voru á kreiki við Hallgrímskirkju, en þeir stálu greiðslukortum af honum,“ segir í tilkynningunni.
Lögreglan minnir fólk á að gæta að sér þegar PIN-númer eru slegin inn og eins að upplýsingar um PIN-númer séu ekki geymdar með greiðslukortum.