fbpx
Sunnudagur 02.nóvember 2025
Fréttir

Báru kennsl á byssumanninn á frægri ljósmynd með gervigreind – Nokkuð óvænt kom í ljós

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. nóvember 2025 20:00

Loks er vitað hver byssumaðurinn var.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Síðasti gyðingurinn í Vinnitsa“ er á meðal þekktustu ljósmyndum sem teknar voru í seinni heimsstyrjöldinni og sýna vel hryllingin sem fórnarlömb nasistanna máttu þola. Á myndinni má sjá þýskan hermann taka gyðing af lífi við bakka fjöldagrafar. Í áratugi hefur ekki verið vitað hver byssumaðurinn var en nú er ráðgátan leyst með aðstoð gervigreindar.

„Samsvörunin, miðað við allt sem ég heyri frá tæknifólki, er óvenju mikil hvað prósentuna sem algóritminn sendir út,“ segir þýski sagnfræðingurinn Jürgen Matthäus við breska blaðið The Guardian. En hann er sá sem komst að því hver byssumaðurinn var.

Ásækjandi ljósmynd

Í áratugi hefur ljósmyndin ásótt fólk. Bæði uppgjafarsvipur gyðingsins sem verið er að taka af lífi og kaldur svipur morðingjans. En lítið hefur verið vitað um hana.

Titill myndarinnar, „Síðasti gyðingurinn í Vinnitsa“, gaf til kynna að hún hefði verið tekin í Vinnitsa héraði í vesturhluta Úkraínu, þáverandi Sovétríkjunum. En um þær lendur fóru útrýmingarsveitir nasista (Einsatzgruppen) eins og engisprettufaraldur og eirðu engu. Fjöldamorð á gyðingum voru þar algeng líkt og annars staðar á hernumdum svæðum. Talið var að myndin hafi verið tekið einhvern tímann á árunum 1941 til 1943.

35 ára grunnskólakennari

Í rannsókn sem birt var í tímaritinu Journal of Historical Studies kemur fram að þetta fjöldamorð hafi ekki átt sér stað í Vinnitsa heldur í Berdychiv, norðar í Úkraínu, þann 28. júlí árið 1941. Hafði sveitinni, Einsatzgruppe C, verið falið það verkefni að hreinsa svæðið af gyðingum og kommúnistum áður en foringinn sjálfur, Adolf Hitler, kæmi í heimsókn.

Myndin í fullri stærð

Byssumaðurinn var maður að nafni Jakobus Onnen. Onnen var fæddur árið 1906 í bænum Tichelwarf, nálægt Emden við hollensku landamærin, og hefur því verið um 35 ára þegar hann framdi þetta ódæði ásamt félögum sínum í sveitinni.

Onnen hafði gengið í Nasistaflokkinn tíu árum áður, árið 1931, en fyrir stríðið starfaði hann sem grunnskólakennari og kenndi ensku, frönsku og leikfimi.

Tilviljun

En hvernig uppgötvaðist þetta? Það var árið 2023 sem filma með sömu ljósmynd fannst fórum austurrísks hermanns með ártali og staðsetningu. Hægt var að sannreyna þetta vegna þess að á myndinni sjást byggingar.

Þegar Matthäus fór að skoða málið gat hann ekki varist þeirri hugsun að byssumaðurinn á myndinni líktist föðurbróður eiginkonu hans, áðurnefndum Onnen. Lét hann því bera myndina saman við fjölskyldumyndir af honum og þá sást þessi mikla samsvörun.

Þýski sagnfræðingurinn Jürgen Matthäus

Matthäus þakkar samt ekki aðeins gervigreindinni að hafa staðfest þetta. Hann segir að hið mannlega verði að koma að til að gera uppgötvanir sem þessa.

Drepinn af kommúnistum

Að sögn Matthäus var Onnen heittrúaður nasisti og SS maður. Hann var í fremstu víglínu helstu ódæðisverka nasistanna, svo sem í dauðabúðunum í Dachau og í hernumdu Póllandi. Loks gekk hann í áðurnefnda Einsatzgruppe C, sem framdi voðaverk á hernumdum svæðum í Sovétríkjunum.

Þrátt fyrir að vera kaldrifjaður morðingi þá náði hann aldrei að verða annað en óbreyttur hermaður í sveitinni. Hann var drepinn af kommúnistum í Zhytomyr héraði í Úkraínu árið 1943.

Næsta verkefni

„Ég tel að þessi ljósmynd ætti að vera jafn mikilvæg og myndin af hliðinu í Auschwitz, því hún sýnir okkur hvernig morðinginn og hinn myrti mætast,“ segir Matthäus.

Enn þá er ekki vitað hver hinn krjúpandi maður er á ljósmyndinni. Matthäus segir að það sé næsta verkefni hjá honum að komast að því.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stöðvaður með 40 sentímetra af snjó á framrúðunni

Stöðvaður með 40 sentímetra af snjó á framrúðunni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Milljónaráðgjafinn Þórunn tórði ekki lengi hjá ríkislögreglustjóra – Glænýjum ráðningasamningi sagt upp

Milljónaráðgjafinn Þórunn tórði ekki lengi hjá ríkislögreglustjóra – Glænýjum ráðningasamningi sagt upp