

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi frávísun Landsréttar í máli manns sem sakaður var um að taka við rúmlega 21 þúsund evrum frá óþekktum aðila. Maðurinn hafði fengið hálfs árs skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi.
Maðurinn var ákærður vorið 2024 fyrir að taka við 21.125 evrum á sex daga tímabili frá óþekktum aðila. Það er um 3 milljónum króna. Taldi lögregla að manninum hefði ekki geta dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum.
Var hann með 20 þúsund evrur faldar í farangri sínum og 1125 evrur í veskinu þegar hann var handtekinn í Leifsstöð þann 11. mars árið 2024 á leið úr landi.
Í Héraðsdómi Reykjaness var maðurinn sakfelldur og dæmdur til hálfs árs skilorðsbundins fangelsis auk þess að sæta upptöku fjármunanna. Málinu var hins vegar vísað frá héraðsdómi í Landsrétti á grundvelli þess að frumbrot peningaþvættisins lægi ekki fyrir og ákæran væri ekki skýr.
Undir þetta tók Hæstiréttur ekki. Var Landsrétti gert að taka málið aftur til efnismeðferðar.
„Að öllu virtu voru ekki þeir ágallar á ákæru í málinu að varnaraðili gæti ekki af henni ráðið hvaða refsiverðu háttsemi hann var sakaður um. Var honum því fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.
Ása Ólafsdóttir, Hæstaréttardómari, skilaði hins inn sératkvæði og taldi að það ætti að staðfesta frávísunina. Ekki væri vísað til ætlaðs frumbrots eða tengsla mannsins við þá sem hafa gerst sekir um slíkt. Þá hefði maðurinn engan sakaferil að baki.