fbpx
Fimmtudagur 30.október 2025
Fréttir

Ólafur: „Við vissum að eitthvað hræðilegt hafði gerst“ – Þetta er það sem særir enn í dag

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. október 2025 10:30

Ólafur William Hand skrifar um snjóflóðið. Mynd í bakgrunni/GVA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég hugsa til næturinnar fyrir 30 árum finnst mér eins og hún hafi bæði verið augnablik og ævi,“ segir Ólafur William Hand, fyrrverandi sjómaður og einn þeirra sem komu til Flateyrar nóttina sem snjóflóðið féll árið 1995.

Ólafur skrifar grein í Morgunblaðið í dag til að minnast atburðanna fyrir 30 árum, aðfaranótt 26. október 1995.

Hann rifjar upp að þegar snjóflóðið féll hafi áhöfn Péturs Jónssonar RE-69 verið í vari undir Grænuhlíð við Ísafjörð.

Þögnin um borð sagði allt

„Ég man enn þegar fréttirnar bárust út á fjörðinn. Þögnin um borð sagði allt. Enginn spurði, við vissum að eitthvað hræðilegt hafði gerst,“ segir Ólafur en skipinu var siglt til Flateyrar þar sem skipverjar gerðu það sem þeir gátu til að hjálpa.

„Það var engin skipulögð áfallahjálp á þessum tíma, enginn sem tók á móti okkur daginn eftir, bara 30 daga túr á miðin. Það var bara þögn, kaffibolli og reykjarlykt í stakkageymslunni,“ segir hann og bætir við að öllu hafi skipt – þó þeir hefðu ekki hugmynd um það þá – að skipverjar höfðu hver annan.

„Það var gott að vera til staðar þegar allt hrundi, að geta lagt hönd á plóg og staðið hlið við hlið með mönnum sem sýndu styrk, samstöðu og hlýju í verki.“

Særir enn í dag

Ólafur segir að þegar hann horfir til baka, 30 árum síðar, sjái hann hve margt hefur breyst til hins betra. Í dag sé til dæmis talað um sársaukann, það er viðurkennt að áföll skilja eftir sig spor sem þurfa meðhöndlun og umhyggju.

„Áfallahjálp er til, og samfélagið hefur lært að mæta fólki með virðingu og hlýju þegar harmleikur dynur yfir. Það er stórt og mikilvægt skref. En því miður hafa ekki allir lært af fortíðinni,“ segir Ólafur og rifjar upp að eftir atburðina á Flateyri hafi verið gefin stór orð, loforð um að byggja ofanflóðavarnir um allt land svo enginn þyrfti að lifa við slíka ógn aftur.

Mynd/GVA

„Sumt hefur verið gert, en víða hefur staðið á framkvæmdum. Á meðan fjöllin halda áfram að vaka yfir bæjum og byggðarlögum eru margir enn í þeirri stöðu að vita að næsta flóð gæti orðið raunveruleiki. Það er óásættanlegt,“ segir Ólafur sem er þeirrar skoðunar að á Íslandi, landi þar sem við höfum bæði þekkingu og tækni, ætti enginn að þurfa að búa við stöðuga ógn náttúrunnar án þess að samfélagið standi með þeim. Það að verja líf og heimili ætti aldrei að vera spurning um kostnað eða pólitískan ávinning.

„Það sem særir enn í dag er sambandsleysið sem má enn finna hjá mörgum ráðamönnum og áhrifamönnum gagnvart raunverulegu lífi fólks á landsbyggðinni. Ekki löngu eftir flóðin, og jafnvel enn í dag, má heyra óviðeigandi og hrokafull ummæli frá þekktum einstaklingum sem telja lausnina felast í því að „kaupa upp heimili fólks og flytja það til Reykjavíkur“. Slík orð eru ekki aðeins klaufaleg, þau sýna glöggt að margir skilja ekki hvað byggðarlög eins og Flateyri, Súðavík og önnur svæði á Íslandi standa fyrir. Þetta eru samfélög sem byggjast á dugnaði, samstöðu og nærveru. Fólk sem ákveður að búa þar gerir það ekki af hugsunarleysi, heldur vegna tengsla við náttúruna, hafið og sögu sína,“ segir hann.

Sáu harmleik en líka það besta í fólki

Hann segir að þetta sé lífsviðhorf sem ætti að fá virðingu en ekki yfirlæti. Ólafur tekur þó fram að það sé kannski ekki sanngjarnt að kenna núverandi ráðamönnum alfarið um þessi viðhorf, mörg þeirra hafi ekki verið fædd eða voru svo ung að þau muna ekki eftir þessum atburðum.

„Það er eðlilega erfitt að skilja sársauka þjóðar ef þau hafa ekki sjálf upplifað hann, en það afsakar ekki ábyrgðina sem þau bera. Þau eiga að trúa, hlusta og læra af þeim sem á undan komu.“

Eins og vísað er til hér fremst segir Ólafur að nóttin fyrir 30 árum hafi bæði verið augnablik og ævi. Það sé ótrúlegt hvernig tíminn getur bæði læknað og minnt okkur á sárin sem aldrei hverfa alveg.

„Ég veit að við í áhöfn Péturs Jónssonar RE-69 munum aldrei gleyma þessari nótt. Við sáum harmleik, en við sáum líka það besta í fólki, hugrekki, samhug og trú á lífið. Það er sú trú sem við þurfum að halda í. Að við getum lært af fortíðinni, staðið saman og tryggt að engin fjölskylda, enginn bær og enginn einstaklingur þurfi að upplifa slíkt aftur. Hvílið í friði öll sem fórust, minning ykkar lifir. Guð geymi ykkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Reykvíkingar svara háðsglósum Norðlendinga vegna snjókomunnar fullum hálsi – „Þetta er ekkert grín þó sumum finnist það“

Reykvíkingar svara háðsglósum Norðlendinga vegna snjókomunnar fullum hálsi – „Þetta er ekkert grín þó sumum finnist það“
Fréttir
Í gær

Hildur tilkynnti hundapassara eftir bitárás á Valhúsahæð – „Ég þurfti að fara á læknavaktina og fá stífkrampasprautu“

Hildur tilkynnti hundapassara eftir bitárás á Valhúsahæð – „Ég þurfti að fara á læknavaktina og fá stífkrampasprautu“
Fréttir
Í gær

Gestur Bláa lónsins ósáttur með viðbrögðin við harmleiknum í gær – „Ég hef aldrei nokkurn tímann verið jafn kjaftstopp“

Gestur Bláa lónsins ósáttur með viðbrögðin við harmleiknum í gær – „Ég hef aldrei nokkurn tímann verið jafn kjaftstopp“
Fréttir
Í gær

Björn ómyrkur í máli: Ísland dýrasta ferðamannaland í heimi – Vont gæti versnað verði þetta að veruleika

Björn ómyrkur í máli: Ísland dýrasta ferðamannaland í heimi – Vont gæti versnað verði þetta að veruleika
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gerir stólpagrín að samningi ríkislögreglustjóra og Intru – „Ég skrifa 4 tíma neyðarútkall á þetta“

Gerir stólpagrín að samningi ríkislögreglustjóra og Intru – „Ég skrifa 4 tíma neyðarútkall á þetta“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varað við snjóflóðahættu á suðvesturhorninu

Varað við snjóflóðahættu á suðvesturhorninu