fbpx
Fimmtudagur 30.október 2025
Fréttir

Meintur grassali má ekki yfirgefa höfuðborgarsvæðið

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. október 2025 14:45

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður af erlendum uppruna, sem er grunaður um fíkniefnasölu, akstur undir áhrifum og peningaþvætti, má ekki yfirgefa höfuðborgarsvæðið og þarf að tilkynna sig daglega á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Hann freistaði þess að fá þessa ráðstöfun fellda niður en kröfu hans hefur nú verið hafnað bæði hjá Héraðsdómi Reykjavíkur sem og í Landsrétti.

Málið má rekja til þess að í lok september var maðurinn stöðvaður af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann reyndist vera með kannabis í blóði og óhæfur til að stjórna bifreið. Lögregla fann einnig á honum mikið reiðufé, 115 þúsund krónur, 200 pund og 180 evrur. Loks fannst talsvert magn af meintu kannabisefni í litlum smelluláspokum við leit í bifreiðinni. Maðurinn var þá handtekinn og vistaður í fangageymslu næturlangt.

Hann kvaðst hafa komið til landsins í frí þann 4. maí en ákveðið að vera lengur. Minni hans virtist við skýrslutöku nokkuð glopótt en hann sagðist ekki viss um hver hefði bókað flug hans til Íslands, kannaðist ekki við menn sem sáust með honum í myndavélaeftirliti við heimili hans, kannaðist ekki við fíkniefni sem fundust í bifreið sem hann hafði til umráða, kannaðist ekki við reiðufé sem fannst við húsleit og vissi að auki ekki hvað hann hefði borgað fyrir leigubifreið sem hann tók á leigu. Hann sagðist engin tengsl hafa við landið, hann hefði komið hingað í frí en svo ákveðið að vera lengur og leita sér að byggingarvinnu.

Lögregla lét hann svo lausan en gerði honum að halda sig á höfuðborgarsvæðinu og sinna daglegri tilkynningarskyldu. Maðurinn er EES-borgari og hefur sem slíkur rétt til dvalar á Íslandi í allt að þrjá mánuði lögum samkvæmt, svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Til að hafa rétt til lengri dvalar þarf hann að uppfylla til þess lagaskilyrði, sem maðurinn gerði ekki. Ákæruvaldið taldi að sökum þessa ásamt þeim brotum sem hann er grunaður um geti maðurinn ekki vísað til stöðu sinnar sem EES-borgari til að réttlæta dvöl á Íslandi. Dómari tók undir með ákæruvaldinu og vísaði til þess að mál mannsins er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kunni ákvörðun að vera tekin í kjölfarið um brottvísun hans. Hann liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geta meira en sex mánaða fangelsi. Að binda hann við höfuðborgarsvæðið og gera honum að sinna tilkynningarskyldu væri til þess fallið að tryggja nærveru hans vegna meðferðar sakamálsins og koma í veg fyrir að hann hlaupist undan.

Úrskurður Landsréttar féll þann 24. október.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Pabbi, má ég innrétta bílskúrinn? Ég fékk ekki lán fyrir 60 fermetra íbúð. Ég er bara með 900.000 í mánaðarlaun“

„Pabbi, má ég innrétta bílskúrinn? Ég fékk ekki lán fyrir 60 fermetra íbúð. Ég er bara með 900.000 í mánaðarlaun“
Fréttir
Í gær

Þórdís Kolbrún sendir Miðflokknum pillu – „Eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt“

Þórdís Kolbrún sendir Miðflokknum pillu – „Eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt“