

Bleiki fíllinn sem Dagur vísar til er íslenska krónan, fákeppnin sem henni fylgir og vaxtastigið sem af henni leiðir. Dagur segir í grein sinni að nýlegur dómur Hæstaréttar og viðbrögð banka og lánastofnana við honum undirstriki það sem við vissum fyrir. Á Íslandi séu nefnilega miklu hærri vextir en í Evrópulöndum, stórum sem smáum.
Dagur segir að húsnæðiskaupendur, verktakar og byggingaraðilar séu allir undir sama vaxtaoki.
„Skoðum tölurnar. Byrjum á ungu fólki og húsnæðiskaupendum. Ítarleit á evrusvæðinu sýnir að meðalvextir á húsnæðislánum eru 3,3% óverðtryggt. Á Íslandi er meðaltalið nú 9,15% óverðtryggt. Verðtryggðu lánin (þar sem yfirhöfuð er hægt að fá þau) eru 4-5 prósent ofan á verðbólgu,“ segir Dagur sem ber síðan saman mánaðarlegar greiðslur og heildargreiðslur á óverðtryggðum evrulánum og krónulánum.
„Miðað við mánaðarlegar greiðslur af 60 milljóna króna láni til 25 ára eru mánaðarlegar greiðslur 509.000 kr. af krónuláninu en 293.000 kr. af evruláninu. Þá er miðað við jafnar greiðslur (annuitets-greiðslur) eins og er algengt í íbúðalánum,“ segir hann.
Af þessu leiðir að heildargreiðslur af 60 milljóna krónuláninu eru 152 milljónir króna á 25 árum.
„Sama fjölskylda hefði greitt 88 milljónir í heild af evruláninu. Munurinn er 70%. Heildarvextirnir sem greiddir eru af evruláninu eru 28 milljónir en 92,7 milljónir af krónuláninu. Þetta geta allir sannreynt með aðgangi að lánareiknum eða hvaða gervigreindarforriti sem er,“ segir hann.
Dagur segir að kjörin sem verktökum bjóðast til framkvæmdalána séu ekki síður sláandi.
„Á evrusvæðinu eru óverðtryggðir vextir til einyrkja og smærri fyrirtækja um 3,95%. Ætla mætti að kjörin sem byðust á Íslandi væru um 11-12%, miðað við stýrivexti, en af samtölum við verktaka eru þau oft nær 16% hjá íslenskum bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum,“ segir Dagur.
Hann veltir því upp hvaða áhrif þessi munur hefur á fjármagnskostnað á byggingartíma.
„Miðað við 40 milljóna króna lán vegna framkvæmdar sem stendur í tvö og hálft ár eru evruvextirnir 3,9 milljónir en 12 milljónir af krónuláninu, miðað við 12% vexti. Kostnaðurinn er 16 milljónir ef krónuvextirnir eru 16%. Með öðrum orðum leggst fjórfaldur fjármagnskostnaður ofan á byggingarkostnað íbúðar á Íslandi miðað við evrusvæðið,“ segir Dagur sem bætir við að lægri vextir og fjármagnskostnaður séu lykilhagsmunir ungs fólks og húsnæðiskaupenda.
„Upptaka evru ætti að vera helsta baráttumál samtaka launafólks, neytenda og samtaka í byggingariðnaði. Verktakar segja sjálfir að fjármagnskostnaður sé að sliga þá. Ungt fólk er varla spurt. Enginn talar um evru. Þessa þögn þarf að rjúfa.“