fbpx
Miðvikudagur 29.október 2025
Fréttir

Soffía svarar Valtý: Þykir sérstakt að vinkona eiginkonu Geirfinns hafi aldrei hitt hann

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 29. október 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Soffía Sigurðardóttir, sem kom að bókinni Leitin að Geirfinni, hefur svarað grein Valtýs Sigurðssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara og áður yfirumsjónarmanns rannsóknar Geirfinnsmálsins.

Í bókinni Leitin að Geirfinni, eftir Sigurð Björgvin, bróður Soffíu, og í fyrri grein Soffíu er því haldið fram að Valtýr hafi vísvitandi afvegaleitt rannsókn Geirfinnsmálsins í upphafi, inn á brautir tilgátu um að hvarf hans tengdist málum er varða spírasmygl. Hin raunverulegu örlög Geirfinns séu þau að hann hafi látist á heimili sínu í kjölfar átaka, að kvöldi 19. nóvember árið 1974.

Valtýr segir þessi skrif vera glórulausan þvætting. Í grein á Vísi frá 11. október hrekur hann þessar ásakanir á hendur sér í fimm liðum. Í nýrri grein Soffíu er þessum athugasemdum svarað.

Þau systkini hafa gert því skóna að Valtýr hafi vísvitandi beint rannsókninni frá hinum eiginlega brotavettvangi, heimili Geirfinns, af persónulegum ástæðum. Valtýr orðar þetta svo í fjórða kafla greinar sinnar:

Ég á samkvæmt þessari fullyrðingu að hafa í símtali við upphaf málsins samþykkt að hylma yfir morð, fyrir fólk sem ég þekkti ekkert, í þeim tilgangi að leyna meintu hjúskaparbroti mínu með þessari nafngreindu vinkonu, gott ef ekki líka barnsmóður. Þetta tekur auðvitað engu tali.“

Hann segist hafa hringt í umrædda konu þegar hann var að skrifa greinina, sem hann fann á ja.is, konan hafi svarað honum því að hún segðist vita hver hann væri en aldrei hafa séð hann í eigin persónu. „Henni ofbauð allar þær lygar sem nú væru á borð bornar í málinu og kvaðst ekki hafa tjáð sig um Geirfinnsmálið í áratugi.“

Sjá einnig: Haukur sakar Soffíu um lygar – „Valtýr var mjög vandaður og ábyggilegur embættismaður“

Soffía bendir hins vegar á í sinni grein að umrædd vinkona, sem þau systkin hafa gengið svo langt að staðhæfa að Valtýr hafi átt í nánu sambandi við og það sé orsökin fyrir afvegaleiðingu rannsóknarinnar, hafi flust inn á heimili Guðnýjar, eiginkonu Geirfinns, strax eftir hvarf hans. Hún skrifar:

„Það var að vísu ekki búið að finna upp ja.is árið 1974, en þessi vinkona flutti inn til eiginkonu hins horfna manns daginn eftir að hann hvarf og var hennar nánasta trúnaðarvinkona, auk þess sem hún hafði fleiri tengingar sem máli skiptu. Það að hún hafi aldrei séð þig í eigin persónu, segir talsvert um hvað þér yfirsást á þessum tíma.“

Deilt um Leirfinnsskýrslu

Eitt af því sem Valtýr og Soffía takast á um er skýrsla Láru V. Júlíusdóttur hæstarréttarlögmanns um tildrög þess að Magnús Leópoldsson var grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns, en fræg leirmynd sem lögregla lét gera var talin líkjast honum. Skýrslan er um 100 blaðsíður en Valtýr skrifar:

„Mér er ekki kunnugt um að fram hafi farið jafn ítarleg athugun á störfum rannsakenda nokkurs máls eins og Geirfinnsmálsins. Þannig fór árið 1979 fram opinber rannsókn á málsmeðferð lögreglunnar í Keflavík sem sá ekkert aðfinnsluvert. Þann 4. febrúar 2003 skilaði síðan Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður skýrslu til dómsmálaráðuneytisins en hún hafði verið settur saksóknari til að framkvæma opinbera rannsókn á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns. Skýrslan er um 100 bls. og voru yfir 40 aðilar yfirheyrðir án þess að þar sé neitt að finna sem styður ávirðingar Soffíu.“

Sjá einnig: Fór ekki til fundar við mann í Hafnarbúðinni og „Leirfinnur“ hringdi ekki í hann

Soffía bendir hins vegar á að hún hafi ekki haft aðgang að þeim frumgögnum sem Lára byggir skýrslu sína á og að Leirfinnsstyttan hafi verið gerð án samráðs við lykilvitni:

„Ég og við sem höfum leitað svara við því hvað gerðist sem olli hvarfi Geirfinns, höfum líka lesið báðar þessar rannsóknir og skýrslur þeirra, en höfum að vísu ekki haft aðgang að frumgögnum Láru V, sem hún byggir skýrslu sína á. Í bókinni Leiti að Geirfinni, er farið ítarlega yfir það hvað kom fram í þeim rannsóknum og hvað rannsakendum yfirsást við þær. Af rýni á því sem fram kemur í báðum rannsóknunum er ljóst að Leirfinnur var unninn án samráðs við lykilvitnið, afgreiðslukonuna sem talaði við símhringjandann (Leirfinn) augliti til auglits og að hún samþykkti aldrei að Leirfinnur líktist símhringjandanum. Nokkur vitni bera þar að Haukur og Kiddi Pé hafi margsinnis veifað myndum af Magnúsi Leopoldssyni og sent lögreglumenn með þær til bæði teiknara og leirlistarkonunnar sem gerði Leirfinn. Þar til viðbótar hefur rannsókn okkar sýnt fram á það með fyrirliggjandi gögnum hvernig Leirfinnur var búinn til og er í raun skilgetið afkvæmi Kidda Pé. Þetta afkvæmi lést þú, sem stjórnunarlegur ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, þér vel líka.“

Aðstandendur bókarinnar Leitin að Geirfinni hafa án árangurs reynt að fá rannsókn málsins tekna upp að nýju á grundvelli upplýsinga í bókinni og annarra upplýsinga sem þau hafa reynt að koma á framfæri við yfirvöld. Um þetta skrifar Valtýr:

„Aðstandendur bókarinnar „Leitin að Geirfinni, hafa nú í tæpt ár áranguslaust freistað þess að fá lögregluyfirvöld til að skoða þessa nýtilkomnu speki án árangurs. Það eitt segir sína sögu.“

Valtýr bendir ennfremur á að hann hafi haft sakbornings við skýrslutöku við rannsókn Láru enda teldi hann slíka rannsókn vera réttarfarslega á skjön við grundvallarreglur um réttláta meðferð sakamála. Soffía bendir hins vegar á staða mikilvægan mun á stöðu sakbornings og stöðu vitnis við skýrslutöku:

„Þér var veitt réttarstaða sakbornings við rannsókn Láru V vegna þess að þú krafðist þess sjálfur og sóttir það fast. Hvað felst í réttarstöðu sakbornings er þér fullkunnugt um. Þeim sem hefur réttarstöðu sakbornings er ekki skylt að veita neinar þær upplýsingar sem geta sakbent viðkomandi sjálfan. Því er öðruvísi háttað með fólk sem hefur réttarstöðu vitnis. Vitni er skylt að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir, að viðlagðri refsingu ef frá er vikið. Þú sumsé kaust að þurfa hvorki að segja satt og rétt frá, né að draga ekkert undan sem máli skiptir.“

Grein Valtýs Grein Soffíu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

FESTI aðalstyrktaraðili Félags kvenna í atvinnulífinu

FESTI aðalstyrktaraðili Félags kvenna í atvinnulífinu
Fréttir
Í gær

Stefán Máni segir frá tálbeitunni sem fylgt hefur honum í 17 ár – „Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær“

Stefán Máni segir frá tálbeitunni sem fylgt hefur honum í 17 ár – „Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær“
Fréttir
Í gær

Einar segir stöðuna að teiknast upp á verri veg – Lítið skyggni á Reykjanesbraut

Einar segir stöðuna að teiknast upp á verri veg – Lítið skyggni á Reykjanesbraut
Fréttir
Í gær

Lögregla vísar fólki úr röðum við hjólbarðaverkstæði – Vanbúnir bílar fjarlægðir með dráttarbílum

Lögregla vísar fólki úr röðum við hjólbarðaverkstæði – Vanbúnir bílar fjarlægðir með dráttarbílum