

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók á konu sem var á rafmagnshlaupahjóli, á móts við Þjóðleikhúsið.
Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekið á konuna sem var á rafmagnshlaupahjóli á hjólastíg við Hverfisgötu í Reykjavík, á móts við Þjóðleikhúsið, þriðjudagsmorguninn 7. október síðastliðinn, um klukkan 8.40 – 8.50 að morgni. Um ljósgráa bifreið hafi verið að ræða, en í aðdraganda slyssins hafi henni verið beygt af Hverfisgötu og áleiðis að plani austan við Þjóðleikhúsið og við það hafi bifreiðinni verið ekið á konuna. Við það hafi hún fallið af rafmagnshlaupahjólinu, en farþegar úr aðvífandi strætisvagni hafi síðan hlúð að henni á vettvangi. Viðbragðsaðilum hafi ekki verið tilkynnt um slysið, en konan farið síðar á slysadeild og þá komið í ljós áverkar á henni.
Segir að lokum í tilkynningunni að við atvik eins og þetta sé mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis sé áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar sé ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi. Lögreglan biðji umræddan ökumann, sem vitni segi vera konu, um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu séu hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Upplýsingum um málið megi sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið 9314@lrh.is.