fbpx
Þriðjudagur 28.október 2025
Fréttir

Þórdís Kolbrún sendir Miðflokknum pillu – „Eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. október 2025 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, varar við boðskap sem Miðflokkurinn er að boða. Baráttan milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar, virði ekki landamæri. Það dugi ekki að hugsa um Ísland fyrst enda geti það bitnað á hagsmunum okkar síðar að vanrækja alþjóðamálin. Hún skrifar grein á vefsíðu sína um málið.

„„Það er fásinna að láta sem svo að baráttan milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar komi okkur ekki við.“ Þessi orð voru sönn þegar Bjarni Benediktsson hinn eldri sagði þau um það leyti þegar Ísland var fyrst að fóta sig sem sjálfstætt ríki með eigin utanríkisstefnu. Og þau eru enn bæði sönn og viðeigandi. Við erum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að lifa tíma í heimssögunni sem gera miklar kröfur til okkar allra. Allir menn sem vilja njóta frelsis þurfa að hafa fyrir því og allar þjóðir sem vilja vera fullvalda og sjálfstæðar þurfa að vanda sig til þess að tryggja einstaklingunum tækifæri til þess að búa við frið og frelsi.“

Nú blasi við nýr veruleiki sem kalli á nýjar ákvarðanir og breytingar. Orð Bjarna Benediktssonar séu jafn sönn í dag og þau voru þá. Stjórnmálamenn sem tali um að það dugi að hugsa bara um hagsmuni Íslands séu því á skjön við nútímann og alla þróun heimsmála.

„Íslenskir stjórnmálamenn sem tala eins og okkur dugi að hugsa um Ísland fyrst eru ekki bara á skjön við nútímann heldur eru þeir úr takti við alla þróun heimsmála í að minnsta kosti heila öld. Sú hugsun er áþekk því að hamstra vatn á meðan hús nágrannans brennur án þess að hugsa út í hvert eldurinn er líklegur til þess að læsast næst. Frelsið og sjálfstæðið getur krafist efnahagslegra og pólitískra fórna og til lengri tíma getur það verið óeigingirni sem best tryggir einkahagsmuni.“

Í tíð fyrri ríkisstjórnar var samþykkt þingsályktunartillaga þar sem fram kom að innrásarstríð Rússlands í Úkraínu væri alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefði að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þórdís skrifar að þessa ályktun hafi allir flokkar samþykkt. Það er þó ekki alveg rétt því báðir þingmenn Miðflokks voru fjarverandi í atkvæðisgreiðslu.

Þórdís bendir á að Úkraína hafi ekki beðið aðrar þjóðir um að senda hermenn, þrátt fyrir að hér sé um að ræða stríð sem sé að halda aftur af útþenslutilburðum Rússa. Hún segir að horfa megi á framlög annarra ríkja til Úkraínu sem eins konar greiðslu á skuld frekar en góðgerðarframlag. Úkraína sé ekki bara að verja sjálfa sig heldur Evrópu.

„Það minnsta sem við getum gert er að sýna stuðning og virðingu í verki. Gleymum ekki að bandamenn okkar hafa margir lofað að færa aðrar eins fórnir fyrir frelsi Íslands eins og sínar eigin þjóðir. Það er því eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt að halda að það eigi að vera forgangsmál fyrir Ísland að reyna að sleppa billega meðan öðrum blæðir fyrir frelsið. Þvert á móti eigum við að leggja okkur fram um að vera verðugir bandamenn og leita allra leiða til þess að styðja það sem er satt og rétt og gott í þessum heimi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Stefán Máni segir frá tálbeitunni sem fylgt hefur honum í 17 ár – „Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær“

Stefán Máni segir frá tálbeitunni sem fylgt hefur honum í 17 ár – „Ég opnaði bara einhverjar dyr og Hörður gekk inn um þær“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Vilja að stemmt verði stigu við bílastæðabraskinu

Vilja að stemmt verði stigu við bílastæðabraskinu