

Jakub Polkowski, fatlaður maður sem selt var ofan af, krefst skaðabóta frá sýslumanni og öðrum sem komu að sölu hússins hans árið 2023. Byggt er á því að sýslumaður hafi ekki gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar, stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegum skuldbindingum.
ÖBÍ styður Jakub í málsókn hans eins og kemur fram í umsögn við frumvarp um breytingu á lögum um nauðungarsölu. Það er frumvarp Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins, um að hús verði seld á almennum markaði í stað uppboðs.
Í greinargerð með frumvarpinu eru nefnd ýmis mál sem hafa komið upp þar sem húsnæði hafa verið seld langt undir raunverulegu verðmæti þess. Meðal annars fasteign sem Landsbankinn keypti á 45 milljónir króna á uppboði en var svo metin á 64,5 milljónir nokkrum dögum seinna og loks seld á 75,9 milljónir.
Mál Jakubs var hins vegar æ svæsnara og má segja að það hafi hneykslað þjóðina. En eign hans í Reykjanesbæ, sem hann hafði keypt fyrir bætur sínar vegna læknamistaka, var selt á aðeins 3 milljónir króna á uppboði en aðeins eitt boð barst, frá útgerðarfélaginu Sæstjörnunni í Sandgerði. Eignin var metin á 57 milljónir króna.
ÖBÍ, sem stutt hefur við Jakub, tekur undir markmið frumvarpsins um að almenn sala á markaði verði meginregla í nauðungarsölu.
„Heimilið er griðastaður fólks og brýnt að stjórnvöld leiti lausna til að lágmarka beitingu Íþyngjandi aðgerða Í sÍnu verklagi,“ segir í umsögn Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, formanns ÖBÍ, og Kjartans Þórs Ingasonar, verkefnastjóra. „Ákvörðun um nauðungarsölu fasteigna er íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð sem hefur áhrif á líf fólks, sérstaklega þeirra sem eru að missa heimili sín og sjá fram á húsnæðisóöryggi.“
Stjórnvöld verði að kanna aðstæður hjá viðkomandi og tryggja að hann hafi fullan skilning á aðstæðum og að öll bjargráð hafi verið fullreynd. Vikið er að máli Jakubs og sagt að hægt hefði verið að koma í veg fyrir það.
„ÖBÍ bendir á að í þegar málið kom fyrst fram í fjölmiðlum tjáði umboðsmaður skuldara í viðtali að hægt hefði verið að koma veg fyrir þessa niðurstöðu ef stofnunin hefði vitað að málinu,“ segir í umsögninni.
Jakub hafi höfðað skaðabótamál á hendur sýslumanni og fleiri aðilum sem komu að sölu hússins með stuðningi ÖBÍ. Byggt er á því að sýslumaðurinn á Suðurnesjum, Árdís Ármannsdóttir, hafi ekki gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar, ákvæðum stjórnarskrár, Mannréttindasáttmála Evrópu og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
„ÖBÍ áréttar að fötlun einstaklinga getur falið í sér að viðkomandi geri sér ekki grein fyrir umfangi skuldbindinga sinna og standa því ekki í skilum. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu eða getu til þess að hefja samningaviðræður við kröfuhafa og geta ekki brugðist við innheimtuaðgerðum,“ segir í umsögninni. „Samskiptaleysi opinberra stofnanna má aldrei skerða aðgengi einstaklinga að lögbundinni þjónustu. Huga þarf sérstaklega að frumkvæðisskyldu stjórnvalda í samskiptum við viðkvæmustu hópa samfélagsins og tryggja að öll úrræði hafi verið reynd til þaula.“