

Árni Árnason, mannauðsstjóri Elju, hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum með stuttum sketsum sínum, þar sem hann leikur Uglu Tré, sem er ekkert óviðkomandi í stjórnsýslunni.
Árni er mættur með nýtt myndband, þó ekki sem Ugla Tré, þar sem hann gerir stólpagrín að máli vikunnar: samningi ríkislögreglustjóraembættisins við fyrirtækið Intra.
Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri beitt sér fyrir viðskiptum við ráðgjafafyrirtækið Intru, sem telur einn starfsmann, síðan hún tók við embættinu árið 2020 en þegar hún gegndi stöðu lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu átti það embætti einnig í viðskiptum við Intru. Alls greiddi fyrrnefnda embættið Intru 160 milljónir króna en það síðarnefnda um 30 milljónir.
Sjá einnig: Segir Sigríði hafa brotið ýmsar reglur með viðskiptunum við Þórunni
Margir reikninga frá Intru til embættanna tveggja snúa að innkaupum og alls konar snattferðum við fyrirtækið JYSK, áður Rúmfatalagerinn. Þórunn Ólafsdóttir eigandi og eini starfsmaður Intru er gift Þórarni Inga Ólafssyni forstjóra móðurfélags og stjórnarmanni JYSK á Íslandi.
Hér er myndbandið þar sem Árni gerir stólpagrín að málinu.
„Sæl vertu ég er hérna frá Intra. Ég er að fara að skipta út þessum ruslaflokkunarílátum hérna á öllum hæðum og salernum hjá ríkislögreglustjóra. Við fundum hérna hjá Epal alveg magnaðan danskan hönnuð sem er með nýja línu, þannig að við ætlum að skipta um alls staðar.
Og hvað kostar þessi vitleysa?
Þetta er nema svona 60 milljónir í heildina. Við verðum að átta okkur á því að þetta er fáguð og tímalaus hönnun. Guð, hver færði píluspjaldið? Ég skrifa sko fjögurra tíma neyðarútkall á þetta.“