

Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, fékk í vikunni birta aðsenda grein á Vísi.is sem fjallaði um stóriðjuna á Íslandi og hvernig hún sé, að mati höfundar, hreinlega að renna sitt skeið.
Greinin hefur vakið nokkra athygli en þó ekki fyrir innihald hennar. Margir eru einfaldlega fullvissir um að Guðmundur Franklín hafi látið gervigreindarforrit um að skrifa greinina.
Einn þeirra er samfélagsrýnirinn Hrafn Jónsson sem skrifaði færslu á Facebook-síðu sína þar sem að hann henti gaman að því að eldra fólk sem og yngsti hópurinn eru þau sem hafa tekið innreið gervigreindarinnar fagnandi. Hans kynslóð sé hins vegar meira á bremsunni.
Sem dæmi bent Hrafn á grein Guðmundar Franklín.
„Til yndisauka læt ég fylgja með grein eftir Guðmund Franklín sem birtist á Vísi í gær og er augljóslega að öllu leyti skrifuð af gervigreind,“ skrifar Hrafn.
Þá hafa einnig fjörugar umræður skapast á Reddit þar sem margir eru á sömu skoðun. Eru það ekki síst notkunin á bandstrikum, tilfinningatáknum (e. emojis), útlistanir með punktum sem og sérstakur niðurstöðukafli, sem gervigreindarforrit eru gjörn á að gera, sem netverjar telja að komi upp um forsetaframbjóðandann fyrrverandi.
Á netinu eru til ýmsar síður sem keyrðar eru af gervigreind og auglýsa að þær geti skorið úr um hvort að texti sé skrifaður af slíku forriti eða ekki. Ein vinsæl slík síða er Sidekicker og sé grein Guðmundar Franklín keyrð í gegnum forritið er niðurstaðan sú að hún sé 98% samin af gervigreindarforriti.