

Eins og DV greindi frá í morgun hefur ríkt nokkur óvissa um veðurspána á morgun en nú virðist betri mynd vera komin á stöðuna.
Gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 18 annað kvöld og er hún í gildi til hádegis á miðvikudag.
„Líkur á snjókomu eða slyddu, staðbundið talsverð eða mikil úrkoma með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum,” segir í viðvöruninni sem gildir um höfuðborgarsvæðið.
Á Suðurlandi verður svipað uppi á teningnum og gætu samgöngutruflanir orðið til dæmis á Hellisheiði og í Þrengslum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur einnig athygli á veðurspánni á Facebook-síðu sinni. Í færslu lögreglu segir:
„Veturinn er farinn að minna á sig á höfuðborgarsvæðinu og nú er snjókoma í kortunum, en spáð er ofankomu í kvöld og nótt. Síðdegis á morgun hefur svo verið gefin út gul viðvörun vegna veðurs á suðvesturhorninu og gildir hún frá kl. 18 á þriðjudag til kl. 12 á hádegi á miðvikudag. Fólk er minnt á að fylgjast vel með veðurspám næstu daga og þá eru bifreiðaeigendur, sem enn aka um á sumardekkjum, hvattir til að skipta yfir á dekk sem henta betur til vetraraksturs.“