

Kynnt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingu á reglugerð um innflutning hunda og katta til landsins. Meðal helstu breytinga er að heimilt verður að flytja dýrin til landsins í farþegarými flugvéla en það var áður óheimilt og erfitt hefur reynst fyrir eigendur að koma hundum sínum og köttum til landsins þar sem ekki öll flugfélög sem fljúga til Íslands hafa verið tilbúin til að flytja dýrin í farangursrýmum.
Segir í samantekt að atvinnuvegaráðuneytið og Matvælastofnun hafi í samráði við hagsmunaaðila leitað leiða til að auðvelda innflutning gæludýra til landsins, þó þannig að gætt sé að sjónarmiðum um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til hingað til lands. Horft sé til þess að eigendur dýra sem komi til landsins í farþegarými fái þjónustu frá fyrirtækjum sem annist móttöku dýra á flugstöð í samræmi við verklagsreglur Matvælastofnunar.
Samkvæmt drögunum er ætlunin að reglugerðin kveði á um að sé hundur eða köttur fluttur til landsins í farþegarými flugvéla beri umráðamanni dýrsins að afhenda það þjónustuaðila flugvallarins samþykktum af Matvælastofnun og á þeim stað sem stofnunin hafi gefið fyrirmæli um í innflutningsleyfi. Þjónustuaðili flytji dýrið í móttökustöð svo fljótt sem verða megi og þangað eigi fulltrúi einangrunarstöðvar síðan að sækja dýrið.
Matvælastofnun er ætlað samkvæmt drögunum að tryggja að starfsmenn flutningsaðila og þjónustuaðili flugvallar hljóti fræðslu um smitvarnir og umgengni við dýr í móttökustöðinni.
Undantekning verður hins vegar gerð fyrir vottaða hjálparhunda, sprengjuleitarhunda og hunda eða ketti í millilendingum á Íslandi. Samkvæmt drögunum verður heimilt að setja sprengjuleitarhunda í heimaeinangrun, eftir komuna til landsins, að skilyrtri úttekt Matvælastofnunar en ekki þurfi lengur að senda þess konar hunda í sérstaka einangrunarstöð.
Sams konar heimild er í gildi fyrir vottaða hjálparhunda. Ráðuneytið rökstyður þessa breytingu með því að engir sprengjuleitarhundar séu nú til á landinu en séu mikilvægir í tengslum við öryggiskröfur erlendra sendinefnda og þjóðhöfðingja. Heimaeinangrunin skal vera á vegum embættis ríkislögreglustjóra en sprengjuleitarhundarnir mega sinna sínum verkefnum á meðan einangruninni stendur.
Umsagnarfresturinn um drögin að reglugerðarbreytingunni er til 7. nóvember næstkomandi.