

Heiða B. Heiðarsdóttir, sem vill bæta kenninafni sínu Sorvino en ekki haft erindi sem erfiði, segir mannanafnalögin miskunnarlaus og ómanneskjuleg. Hún vill kenna sig við föður sinn sem vissi ekki af tilvist hennar fyrr en seint á lífsleiðinni og að nafn hennar endurspegli ítalskan uppruna hennar.
Þetta kemur fram í umsögn Heiðu, sem er einn af eigendum Heimildarinnar, við frumvarp Jóns Gnarr þingmanns Viðreisnar um mannanöfn. Samkvæmt frumvarpinu, sem sjö aðrir þingmenn Viðreisnar eru skráðir fyrir, yrðu mannanafnalög rýmkuð og fólki gert heimilt að taka upp svokölluð eftirnöfn sem kenninöfn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Heiða, sem notar nafnið Sorvino, lýsir sögu sinni í umsögn við frumvarpið sem birt hefur verið á vef Alþingis. Hún segir málið snúast um viðurkenningu á uppruna sínum sem hún fann ekki fyrr en 57 ára. En hún var ættleidd sex daga gömul árið 1964. Blóðmóðir hennar var íslensk en blóðfaðir bandarískur.
„Gallinn við mannanafnalögin, og þá aðallega hvað varðar kenninöfn og ættarnöfn er hversu miskunnarlaus þau eru. Ég get bara ekki trúað því að þegar þau voru skrifuð hafi andi laganna átt að vera svona ómanneskjulegur,“ segir Heiða í umsögninni. „Í 37 ár leitaði ég uppruna míns. Það er erfitt að útskýra fyrir fólki hvers vegna það er manneskju mikilvægt að þekkja uppruna sinn. Ég hélt að ég vissi hversu mikilvægt það væri en það kom mér verulega á óvart hversu mikið ég, sem persóna, breyttist þegar ég fann minn uppruna loksins, 57 ára gömul.“
Fjölskyldan stækkaði mikið við þetta. Í dag eigi hún pabba, tvær systur, tvö systrabörn og urmul af föðursystkinum, mökum þeirra og börnum.
Heiða segist fara til Bandaríkjanna um það bil tvisvar á ári og faðir hennar, Anthony Sorvino, komi hingað til Íslands ásamt eiginkonu sinni árlega. Þau hafa hér eignast dóttur, barnabörn og barnabarnabörn.
En fjölskyldan er ekki aðeins bandarísk, hún á rætur til Ítalíu. Það er til Napolí þar sem Heiða á frænkur og frændur sem hún er í sambandi við.
„Ég átti ömmu og ég stari á myndir af henni og sé mig sjálfa. Ég hef aldrei áður upplifað að vera lík einhverjum,“ segir Heiða um þessa miklu uppgötvun í sínu lífi. „Afi minn var listakokkur og hafnarverkamaður í New York. Ég gæfi mikið til að fá að hitta þau, þó ekki væri nema einu sinni. En ég fæ sögur af þeim og þessi fjögur ár sem hafa liðið síðan ég fann uppruna minn hafa verið nýtt vel til að kynnast og gefa mér innsýn inn í hver við erum, Sorvino fjölskyldan“
Heiða vill að nafn hennar endurspegli þetta en íslensk lög leyfa það ekki. Hún má ekki bæta kenninafninu Sorvino við sitt nafn.
Hún sótti um það hjá dómsmálaráðuneytinu en fékk höfnun. Umboðsmaður Alþingis hefur hafnað henni í þrígang þegar hún leitaði þangað ásjár.
„Ég er algjörlega ráðalaus og satt að segja miður mín yfir því hversu ómanneskjulegt þetta kerfi er,“ segir Heiða. „Það getur varla verið í anda laganna að koma í veg fyrir að einstaklingar sem sannarlega eiga tilkall til fjölskyldunafns sé neitað um það.“
Uppgefin ástæða sé sú að tengsl hennar við blóðfjölskylduna hafi verið rofin við ættleiðingu.
„Faðir minn, Anthony Sorvino, vissi ekki af tilvist minni og ég gat sannarlega ekki rofið nein tengsl. Þessar ákvarðanir voru teknar af öðrum en okkur tveimur,“ segir Heiða. „Ég hef engan áhuga á að gera lítið úr þætti kjörforeldra minna og myndi halda kenninafni kjörföður míns. Kjörforeldrar mínir voru klettarnir í lífi mínu. Sorvino er blóðið og uppruninn. Ég er ítölsk að hálfu leiti og Sorvino sem eiginnafn myndi endurspegla það. Ég þrái að opinberlega sé ég viðurkennd samkvæmt uppruna mínum. Ég þrái að geta veit föður mínum, Anthony Sorvino að bera nafnið hans áður en hann yfirgefur þessa tilvist. Hann verður 83ja ára í næsta mánuði.“