
30 ár eru í dag liðin frá því að eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar gekk yfir Flateyri. Tuttugu létu lífið, tíu karlar, sex konur og fjögur börn. Þau voru á aldrinum eins árs til 72 ára. Fjórum var bjargað úr húsum sem höfðu grafist undir snjó og þar að auki björguðust 22 íbúar af sjálfsdáðum.
Minningarstund fór fram í Flateyrarkirkju í dag og sagði sóknarpresturinn, séra Fjölnir Ásbjörnsson, í samtali við Vísi að þó að það væri sorg í lofti í bænum gæfi samfélaginu mikið að finna samhug þjóðarinnar.
Jón Vigfús Guðjónsson tók þátt í björgunaraðgerðum í kjölfar snjóflóðanna á Súðavík og á Flateyri árið 1995. Hann skrifar um reynsluna í tilefni dagsins á Facebook þar sem hann segist aðeins nýlega hafa tekist að sættast við fortíðina. Jón Vigfús gaf DV góðfúslega leyfi til að fjalla um færsluna.
„Árið 1995 var mér afskaplega erfitt ár, eins og það var fyrir mjög marga Íslendinga. Hins vegar hefur árið 1995 einnig lagt mikið af mörkum til þess að gera mig að þeim manni sem ég er í dag og það er ég þakklátur fyrir.“
Þann 16. janúar það ár var Jón Vigfús einn af 8 björgunarsveitarmönnum frá Flateyri sem fóru til Súðavíkur í björgunaraðgerðir eftir snjóflóð sem tók með sér líf 14 einstaklinga. Þetta var erfið reynsla. Jón Vigfús hafði horfst í augu við áfengisvanda og gengið í AA-samtökin, eftir Súðavík byrjaði hann aftur að drekka . Áföllin urðu fleiri á þesu örlagaríka ári. Hann missti vin sem varð bráðkvaddur og á heimili hans og þann 26. október barst símtalið sem mun seint líða úr minni. „Útkall, snjóflóð.“
Við tóku ógnarstundir hjá Jóni og félögum hans í björgunarsveitinni á Flateyri sem þurftu að grafa í snjónum eftir vinum, kunningjum og ættmennum.
„Í fyrstu lotu var ég úti að vinna í 18 tíma stanslaust og kom að mörgu fólki, því miður aðeins tveimur á lífi. Ég lagði allt sem ég gat í þessa leit og meira til. Því er ég stoltur af í dag og myndi gera það aftur ef þyrfti.“
Þetta ár skildi eftir sig djúp sár á sálinni Næstu mánuðir eftir snjóflóðið á Flateyri einkenndust af áfengisvanda og óbærilegri depurð. Um tíma sá Jón ekki lengur tilgang með lífinu. Svo leið árið 1995 á nýju ári, 1996, fór að birta til. Jón Vigfús losaði sig undan áfengisdjöflinum og hefur verið laus við hann síðan og svo kynntist hann konu sem seinna varð barnsmóðir hans. Jón leit á þetta sem annað tækifæri í lífinu og ákvað að nýta sér það til fulls.
Áföllin bar hann þó enn með sér. Áratugum saman reyndi Jón Vigfús að hugsa sem minnst um árið 1995. Hann vildi ekki muna heldur bara gleyma. Það var ekki fyrr en árið 2019 sem hann gat aftur hugsað til baka og tókst að sættast við fortíðina.
„Ég hataði ekki lengur þetta ár. Ég hef hugsað þetta allt fram og til baka og sæst við lífið mitt. Ég hugsa til baka í dag til allra sem fórust þetta ár með mikilli hlýju og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast öllu þessu fólki sem því miður var hrifsað burt.“
Jón Vigfús hvetur þá sem hafa upplifað áföll til að þiggja alla þá hjálp, einkum áfallahjálp, sem til boða stendur. Hann nýtti sér það ekki sjálfur þegar á þurfti og burðaðist með áföllin næstu áratugina.
Færslunni lýkur hann svo með minningarorðum um þá sem létust í snjóflóðunum.
„Blessuð sé minning þeirra látnu og guð styrki aðstandendur alla.“