

Fjallað var um þetta á vef netöryggissveitarinnar CERT-IS en þar kemur fram að víðtækar vefveiðar séu í gangi núna þar sem markmið ógnaraðila er að komast inn á pósthólf viðtakanda.
„Ógnaraðilar senda í kjölfarið pósta frá pósthólfi brotaþola sem gerir það að verkum að líklegra er að annar viðtakandi falli fyrir póstinum. Vitað er til þess að margir hafi fallið fyrir vefveiðum og er því ógrynni af svikapóstum að berast víðsvegar frá,“ segir í tilkynningu lögreglu. Þar segir enn fremur:
„Við viljum biðja alla um að vera vel á verði næstu daga og láta sína tölvudeild vita (verið er að herja á starfsmannaaðganga) um leið og grunur leikur á því að einhver hafi fallið fyrir vefveiðunum. Frekari upplýsingar um vefveiðarnar eru að finna í frétt á vefsíðu CERT-IS.“