
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sjóvá almennar tryggingar hf greiði ríkislögreglustjóra tæplega 2,9 milljónir króna vegna tjóns á lögreglubíl, úr vátryggingu bíls sem ekið var á.
Sjóvá taldi að lögreglan hefði ekki rétt til bóta þar sem sérsveitarmaður sem ók lögreglubílnum, er hið umdeilda atvik átti sér stað, hafi óumdeilanlega valdið árekstirnum og eigi því sök á honum í skilningi umferðarlaga. Hvorki héraðsdómur né Landsréttur taka undir þetta í úrskurðum sínum heldur taka undir kröfu lögreglustjóra.
Málsatvik eru þau að aðfaranótt 6. júní árið 2018 ætlaði lögregla að hafa afskipti af ökumanni bíls á Hringbraut í Reykjavík. Tildrög afskiptanna voru þau að ökumaðurinn blikkaði ljósum og flautaði án tilefnis fyrir aftan lögreglubíl. Því næst ók hann hægra megin við lögreglubílinn, rétti upp löngutöng „með ósæmilegum hætti“, eins og segir orðrétt í úrskurðinum, og ók síðan brott gegn rauðu ljósi.
Lögregla gaf ökumanninum merki með bláum blikkandi ljósum að stöðva en hann jók þá hraðann. Var hann kominn upp í 150 km/klst á Bústaðavegi, þar sem hámarkshraði er 60 km/klst og uppi á Höfðabakkabrú upp í 170 km/klst. Um tíma ók hann á móti umferð sem bílar úr gagnstæðri átt þurftu að sveigja frá.
Á Vesturlandsvegi var hraðinn kominn upp í 200 km/klst. Eftirförin náði upp í Kjós en þar tókst ökumanninum að keyra framhjá naglamottu sem lögregla hafði komið fyrir. Sérsveitarmaður sem ók umræddum lögreglubíl greip þá til þess ráðst að slökkva á ljósum bílsins. Við það var hægt á bílnum þannig að unnt var að nálgast hann. Það gerði sérsveitarmaðurinn og ók síðan á vinstra afturhorn bílsins með þeim afleiðingum að hann snerist og fór út af veginum. Lauk þar með eftirförinni sem hafði staðið yfir í um hálftíma.
Lögreglubíllinn skemmdist töluvert við áreksturinn og var fluttur með dráttarbíl á verkstæði. Viðgerðarkostnaður var 2.876.763 kr. og sú upphæð er höfuðstóll kröfunnar sem lögreglustjóri gerir á tryggingafélagið. Fyrir liggur að ökumaður bílsins sem keyrt var á var undir áhrifum örvandi efna. Synjaði tryggingafélagið kröfunni og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komst að sömu niðurstöðu, þ.e. að tjón lögreglu sem hlytist af aðgerð sem þessari væru hluti af lögbundnu hlutverki lögreglu sem hún yrði sjálf að standa undir. Ekki væri unnt að líta svo á afleiðingar slíkra lögregluaðgerða féllu undir tjón sem ábyrgðartrygging hins bílsins næði yfir.
Það var hins vegar niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að fallast á það sjónarmið lögreglustjóras að eiginleg orsök árekstrarins hafi alfarið verið ólögmæt háttsemi ökumanns bílsins sem neitaði að verða við ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að nema staðar og skapaði þannig aðstæður að árekstur var óhjákvæmilegur.
Niðurstaðan er því sú að fallast að öllu leyti á kröfur lögreglustjóra og skal Sjóvá almannar tryggingar greiða embættinu 2.876.763 kr.
Landsréttur staðfesti síðan þennan úrskurð en úrskurði héraðsdóms og Landsréttar má lesa hér.