fbpx
Fimmtudagur 23.október 2025
Fréttir

Vínelskur og auralaus þjófur fór ítrekað út að borða

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. október 2025 17:30

Allir veitingastaðirnir sem maðurinn fór á eru í Reykjavík.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birt hefur verið ákæra í Lögbirtingablaðinu á hendur karlmanni á þrítugsaldri fyrir fjölda afbrota. Meðal þeirra er að hafa farið ítrekað á veitingastaði og neytt þar matar og drykkjar án þess að geta greitt fyrir það en einnig að hafa margsinnis stolið vínflöskum.

Maðurinn er í fyrsta lagi ákærður fyrir þrjú þjófnaðarbrot með því að hafa stolið tveimur vínflöskum á Cernin Vínbar, matvöru fyrir 3.000 krónur í Hagkaup í Smáralind og þremur litlum hvítvínsflöskum, einni bjórdós og bollaköku á Hvalasafninu í Reykjavík.

Í öðru lagi hljóðar ákæran upp á fjársvik með því að hafa í júlí 2024 farið á þrjá veitingastaði í Reykjavík og pantað og neytt þar matar og drykkjar án þess að geta greitt fyrir það. Þetta voru veitingastaðirnir Culiacan, Viet Noodles og 101 Bistro. Á síðarnefndu stöðunum tveimur var andvirði veitinganna samtals um 19.000 krónur.

Í þriðja lagi er maðurinn ákærður fyrir fimm gripdeildarbrot með því að hafa stolið þremur vínflöskum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, stolið kampavínsflösku á Finsen bar í Reykjavík, stolið tveimur vínflöskum á Center Hotels á Laugavegi, stolið vínflöskum í Borg 29 mathöll, við Borgartún, opnað þær og fengið sér sopa og loks stolið fimm rauðvínsflöskum á Hilton Hótel við Hafnarstræti.

Loks er maðurinn ákærður fyrir fjársvik og gripdeild með því að hafa pantað og neytt veitinga fyrir 14.000 krónur, á veitingastað Hótel Marina í Reykjavík án þess að geta greitt fyrir það og þar að auki stolið vínflösku úr kæli á staðnum. Síðasti ákæruliðurinn varðar síðan að hafa farið á Þorláksmessu 2024 á veitingastaðinn Bao Bites í Reykjavík, pantað og neytt matar án þess að geta greitt fyrir og tekið ófrjálsri hendi vínflösku að óþekktu verðmæti.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði og mæti maðurinn ekki má búast við því að litið verði á það sem ígildi játningar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt