Birt hefur verið ákæra í Lögbirtingablaðinu á hendur karlmanni á þrítugsaldri fyrir fjölda afbrota. Meðal þeirra er að hafa farið ítrekað á veitingastaði og neytt þar matar og drykkjar án þess að geta greitt fyrir það en einnig að hafa margsinnis stolið vínflöskum.
Maðurinn er í fyrsta lagi ákærður fyrir þrjú þjófnaðarbrot með því að hafa stolið tveimur vínflöskum á Cernin Vínbar, matvöru fyrir 3.000 krónur í Hagkaup í Smáralind og þremur litlum hvítvínsflöskum, einni bjórdós og bollaköku á Hvalasafninu í Reykjavík.
Í öðru lagi hljóðar ákæran upp á fjársvik með því að hafa í júlí 2024 farið á þrjá veitingastaði í Reykjavík og pantað og neytt þar matar og drykkjar án þess að geta greitt fyrir það. Þetta voru veitingastaðirnir Culiacan, Viet Noodles og 101 Bistro. Á síðarnefndu stöðunum tveimur var andvirði veitinganna samtals um 19.000 krónur.
Í þriðja lagi er maðurinn ákærður fyrir fimm gripdeildarbrot með því að hafa stolið þremur vínflöskum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, stolið kampavínsflösku á Finsen bar í Reykjavík, stolið tveimur vínflöskum á Center Hotels á Laugavegi, stolið vínflöskum í Borg 29 mathöll, við Borgartún, opnað þær og fengið sér sopa og loks stolið fimm rauðvínsflöskum á Hilton Hótel við Hafnarstræti.
Loks er maðurinn ákærður fyrir fjársvik og gripdeild með því að hafa pantað og neytt veitinga fyrir 14.000 krónur, á veitingastað Hótel Marina í Reykjavík án þess að geta greitt fyrir það og þar að auki stolið vínflösku úr kæli á staðnum. Síðasti ákæruliðurinn varðar síðan að hafa farið á Þorláksmessu 2024 á veitingastaðinn Bao Bites í Reykjavík, pantað og neytt matar án þess að geta greitt fyrir og tekið ófrjálsri hendi vínflösku að óþekktu verðmæti.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði og mæti maðurinn ekki má búast við því að litið verði á það sem ígildi játningar.