fbpx
Fimmtudagur 23.október 2025
Fréttir

Fá aðeins að sjá tvo tölvupósta um meintar ógnir og áreitni Rússa í garð starfsfólks sendiráðs Íslands í Moskvu

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 23. október 2025 09:00

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók ákvörðunina um að sendiráði Íslands í Rússlandi skyldi vera lokað.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest að mestu leyti synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni Útvarps Sögu um aðgang að gögnum um ógnir og áreitni af hálfu rússneskra stjórnvalda í garð starfsfólks sendiráðs Íslands í Rússlandi, sem fullyrt var að hefði átt stóran þátt í því að sendiráðinu var lokað. Nefndin hefur hins vegar lagt það fyrir ráðuneytið að af gögnum um málið skuli Útvarp Saga fá aðgang að tveimur tölvupóstum en ólíklegt virðist að þeir innihaldi miklar upplýsingar.

Sendiráðinu var lokað árið 2023 en það var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þáverandi utanríkisráðherra sem tók ákvörðun um það. Hlaut hún töluverða gagnrýni fyrir en síðar kom fram að starfsfólki sendiráðsins hafi verið ógnað og það áreitt, af Rússum, sem hafi átt einna stærstan þátt í ákvörðun Þórdísar Kolbrúnar. Bæði hún og núverandi utanríkisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafa sagt að utanríkisþjónusta Íslands sé ekki vel í stakk búin til að glíma við svona framkomu af hálfu gistiríkis og því hafi ekki verið annað í stöðunni en að loka sendiráðinu.

Fór Útvarp Saga fram á að fá öll gögn úr ráðuneytinu um þessar ógnir og áreitni og tilheyrandi samskipti við rússnesk stjórnvöld afhent og kærði synjun ráðuneytisins til nefndarinnar. Vildi fjölmiðilinn meina að synjunin hefði ekki verið rökstudd og ekki kæmi fram hvers vegna það væri skaðlegt að afhenda gögnin.

Góð samskipti

Með umsögn ráðuneytisins til nefndarinnar um kæruna fylgdu þau gögn sem það taldi málið snúast um.

Tvö skjöl taldi ráðuneytið falla undir undanþáguákvæði upplýsingalaga. Þar væri að að finna gögn sem innihéldu beinar og óbeinar upplýsingar um samskipti við önnur ríki. Um væri að ræða samskipti í formi tölvupósta og viðhengja sem inni­héldu meðal annars formlegar orðsendingar og frásagnir af fundum. Ótak­mörk­uð upplýsingagjöf um samskipti við önnur ríki væri til þess fallin að valda skaða í slíkum samskipt­um sem utanríkisþjónustan annaðist fyrir hönd Íslands, sem myndi enn fremur hamla því að hún gæti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Vildi ráðuneytið einnig meðal annars meina að samskipti íslenskra stjórnvalda við erlend ríki yrðu að geta farið fram á þann hátt að um þau ríki trún­aður, ekki ólíkt sambandi fjölmiðla við heimildarmenn. Að öðrum kosti væri hætt við að gagn­kvæm­ur trúnaður og traust færi forgörðum, sem myndi valda skaða í slíkum samskiptum. Það eigi vafalaust við í tilvikum eins og þessu þegar samskiptin tengist lokun sendiráðs Íslands í öðru ríki á viðkvæmum alþjóðapólitískum tímum.

Ríkisstjórnin

Annað skjal sem nefndin fékk afhent vildi ráðuneytið meina að Útvarp Saga ætti ekki að fá aðgang að. Í því skjali væri að finna gögn sem tekin hafi verið saman fyrir fundi ríkisstjórnarinnar í formi minnisblaða og fylgiskjöl þeirra, en samkvæmt upplýsingalögum væru slík gögn undanþegin upplýsingarétti.

Athugasemdir Útvarps Sögu við andsvörum utanríkisráðuneytisins eru ekki tíunduð í úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í niðurstöðu nefndarinnar er nánari grein gerð fyrir innihaldi umræddra þriggja skjala. Þar sé að finna frásögn af fundi utanríkisráðherra með utanríkismálanefnd Alþingis, minnisblað til ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og tölvupóst þar sem minn­is­blaðið hafi verið sent til tiltekinna starfsmanna þess. Einnig sé í skjölunum minnisblað utanríkisráðuneytisins til ríkisstjórnarinnar, fylgiskjal með því minnisblaði og tölvupóst þar sem gögnin hafi verið send til tiltekinna starfsmanna utanríkisráðuneytisins.

Afhenda sumt en ekki annað

Nefndin segir að tölvupósturinn, sem minnisblað ráðuneytisstjóra fylgdi með, til tiltekinna starfsmanna ráðuneytisins innhaldi ekki upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóða­stofn­anir, í skilningi upplýsingalaga og því séu ekki neinar forsendur fyrir því að afhenda það ekki Útvarpi Sögu.

Frásögnin af fundi utanríkisráðherra með utanríkismálanefnd Alþingis og minnisblað ráðuneytisstjórans innihaldi hins vegar upplýsingar um samskipti Íslands við Rússland. Upplýsingar þessar snúi að viðkvæmu málefni og afhending þeirra kunni að hafa skaðleg áhrif á samskipti við umrætt ríki og þannig raska mikilvægum almannahagsmunum í skilningi upplýsingalaga. Synjun ráðuneytisins á beiðni Útvarps Sögu um að fá þessi gögn afhent er því staðfest.

Þegar kemur að tölvupósti til tiltekinna starfsmanna utanríkisráðuneytisins, þar sem fylgdi með minnisblað utanríkisráðu­neyt­isins til ríkisstjórnar og fylgiskjal með því minnisblaði, segir ráðuneytið að ekkert í póstinum bendi til að um sé að ræða gagn sem hafi verið tekið saman fyrir fund ríkisstjórnarinnar og falli því ekki undir undanþáguákvæði upplýsingalaga um afhendingu slíkra gagna.

Minnisblaðið til ríkisstjórnarinnar og fylgiskjalið með því séu hins vegar bersýnilega gögn sem hafi verið tekin saman fyrir fund ríkisstjórnarinnar og falli því undir áðurnefnd undanþáguákvæði upplýsingalaga og ráðuneytinu sé því stætt á því að afhenda þau ekki.

Líklegt verður að teljast að þeir tölvupóstar sem utanríkisráðuneytinu ber að afhenda Útvarpi Sögu innihaldi takmarkaðar upplýsingar og hafi aðallega verið sendir til að koma áleiðis, til þessara tilteknu starfsmanna ráðuneytisins, þeim gögnum sem ráðuneytið þarf ekki að afhenda.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Guðrún um áfallið á Grundartanga – „Þarna munu tapast útflutningstekjur upp á tugi milljarða“

Guðrún um áfallið á Grundartanga – „Þarna munu tapast útflutningstekjur upp á tugi milljarða“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ökuníðingur ákærður eftir stórháskalegan akstur í Reykjanesbæ

Ökuníðingur ákærður eftir stórháskalegan akstur í Reykjanesbæ