Bandarískur karlmaður keypti sér buxur á Amazon. Þegar hann fékk þær í hendur leyndist miði í vasanum. Sá miði var pöntun frá íslenskum pizza stað.
Maðurinn, John Hnat að nafni frá borginni Cleveland í Ohio fylki í Bandaríkjunum, greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlum. Það er í grúbbunni Dull Men´s Club á Facebook.
Greinir hann frá því að hafa í síðustu viku keypt sér buxur, það er svartar regnbuxur í stærðinni 34/34, frá vefversluninni Amazon.
„Þegar þeir komu mátaði ég þá, setti hendurnar í vasana, og fann eitthvað í einum vasanum. Ég hélt fyrst að þetta væri einn af þessum sílica gel pökkum,“ segir Hnat í færslunni.
Hann veiddi þetta úr buxunum og sá að þetta var kvittun. Pöntunarmiði frá Black Crust Pizzeria. Hann fór á leitarvélina Google og sá að um veitingastað á Íslandi var að ræða. Um 2800 mílur, eða 4500 kílómetra og einu hafi í burtu frá úthverfinu í Cleveland sem hann býr í. Var kvittunin dagsett þann 20. september.
„Svo það besta sem ég get séð, einhver annar hafði keypt þessar buxur, farið í þær, fengið sér bragðgóðan hádegisverð, hent kvittuninni í vasann, og skilað síðan buxunum til Amazon,“ segir Hnat.
Þetta vakti hann til umhugsunar um „nýja“ hluti sem við kaupum.
„Ég hef aldrei látið eins og hver „nýr“ hlutur á Amazon sé 100% nýr, eða að hver skilaður hlutur verði sendur aftur til framleiðanda í stað þess að vera endurunninn til næsta kaupanda,“ segir hann. „En það var frekar fyndið að sjá þetta hugtak í raun … og að sjá að þessar buxur voru með nokkuð ferðalag að baki, um 2-3 vikur.“
Þetta vakti hann einnig til umhugsunar um Ísland og hvatti hann til að heimsækja landið.
„Mig hefur alltaf langað til að heimsækja Ísland, og nú hef ég auka ástæðu — til að heimsækja Black Crust Pizzeria og sjá hvað þetta snýst allt saman um,“ segir hann að lokum.