Maður að nafni Sindri Kjartansson hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið annan man með hnífi tvisvar í brjóstkassann. Sindri bar fyrir sig neyðarvörn í málinu en ekki var fallist á það.
Í dómi Landsréttar í gær, fimmtudaginn 16. október, var staðfest refsing Sindra frá dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. maí árið 2024. Það er að hann sæti fimm ára fangelsisdómi. Er það vegna stunguárásar sem átti sér stað á heimili ónefnds brotaþola þann 16. júlí árið 2022. En brotaþoli var hætt kominn og missti um 20 prósent af blóði sínu.
Bar Sindra og brotaþola ekki saman um atvik í aðdraganda árásarinnar. Þeir voru hins vegar sammála um að hafa hist á Laugarvegi snemma þennan morgun og farið þaðan á heimili brotaþola.
Sindri sagðist hafa lognast út af í sófa í stofunni og taldi sig hafa orðið fyrir byrlun af hálfu brotaþola. Þegar hann hafi rankað við sér hafi brotaþoli verið búinn að stinga getnaðarlim sínum í munn hans og gert samræðishreyfingar. Einnig hafi hann verið búinn að losa belti á buxum Sindra og renna niður buxnaklaufinni.
Sagðist hann í kjölfarið hafa farið fram í eldhúsið en brotaþoli elt hann þangað og gripið í hann. Þá sagðist Sindri hafa slegið hann í andlitið í geðshræringu. Er brotaþoli hafi gripið í hann á ný hafi Sindri gripið hníf úr hnífastandi og slegið til hans. Hafi því verið um neyðarvörn að ræða.
Brotaþoli sagði allt aðra sögu. Það er að þeir hafi setið saman í stofu íbúðarinnar og talað saman. Svo hafi þeir farið að kyssast en ekki haft áhuga á neinu frekar. Sagðist brotaþoli margsinnis hafa beðið Sindra að fara en hann ekki hlýtt því heldur farið að ísskápnum, tekið þar sterkt áfengi og drukkið.
Hafi Sindri þá spurt brotaþola hvort hann væri að reka sig út og fylgt spurningunni eftir með því að kýla brotaþola í andlitið. Í framhaldinu hafi hann svo gripið hníf úr hnífastandinum á eldhúsborðinu og stungið brotaþola í brjóstkassann. Hafnaði brotaþoli alfarið staðhæfingum um að hafa brotið á Sindra kynferðislega í aðdraganda árásarinnar.
Brotaþoli stóð alblóðugur á stigapalli við aðra hæð hússins þegar lögregla kom á vettvang. Var bolur hans gegnsósa af blóði og blóð lak niður eftir lærum hans. Var hann látinn leggjast niður og fluttur á bráðamótttöku Landspítala.
Þegar þangað var komið hafði brotaþoli misst um 20 prósent af blóði sínu. Var hann með lífshættulega áverka og þurfti að framkvæma á honum aðgerð til þess að stoppa blæðinguna.
Fimm dögum eftir árásina var Sindri handtekinn og honum gerð grein fyrir því að hann lægi undir grun að hafa stungið brotaþola að morgni hins 10. maí. Við skýrslutökuna neitaði hann hins vegar að hafa farið heim með manni þessa nótt. Sagðist hann hafa verið laminn í miðbænum, hann hafi svo hitt vinkonu sína og farið heim.
Þegar Sindra var gerð grein fyrir því að DNA hefði fundist á vettvangi sem væri til rannsóknar og að ætlunin væri að leita á heimili hans af lífsýnum tengdum rannsókninni óskaði hann eftir að hlé yrði gert á skýrslutökunni til að ráðfæra sig við verjanda. Síðar breytti hann framburði sínum á þann veg sem fyrr er lýst.
Í dóminum kemur fram að Sindri hafi orðið missaga um veigamikil atriði, meðal annars varðandi þá hnífa sem voru í íbúðinni. Þótti brotaþoli hins vegar trúverðugur í framburði sínum og var hann lagður til grundvallar niðurstöðu.
Taldist sannað að Sindri hafi veist að brotaþola fyrirvaralaust og án nokkurs tilefnis. Ekki var fallist á að árásin hefði verið framin í neyðarvörn.
Brotaþoli var stunginn tvisvar á sérstaklega hættulegt svæði líkamans. Hafi Sindra mátt verða ljóst að langlíklegast væri að bani hlytist af atlögunni. Er hann því sakfelldur fyrir tilraun til manndráps.
Eins og áður segir var staðfestur fimm ára fangelsisdómur. Þá þarf hann að greiða brotaþola rúmar 2 milljónir króna með vöxtum, greiða brotaþola 1,3 milljónir króna í málskostnað í héraði, 3,5 milljónir í sakarkostnað málsins í héraði og 2,1 milljón í áfrýjunarkostnað málsins.