Valtýr Sigurðsson, fyrrum ríkissaksóknari, segir að langt sé síðan annar eins óhróður, persónulegt níð og ólögmætar aðdróttanir hafi sést á prenti og þau sem birst hafa gegn honum nýverið í tengslum við rannsókn Geirfinnsmálsins.
Vísar hann þar til bókarinnar Leitin að Geirfinni eftir Sigurð Björgvinsson og greinar Soffíu, systur Sigurðar, þann 27. ágúst síðastliðinn.
DV fjallaði um grein Soffíu hér og hefur fjallað ítarlega um bókina.
Valtýr, sem er fæddur árið 1945, starfaði sem dómarafulltrúi hjá bæjarfógetanum í Keflavík frá 1971 til 1980 og stýrði hann upphafi rannsóknar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Síðar var hann héraðsdómari í Keflavík og Gullbringusýslu, borgarfógeti í Reykjavík, héraðsdómari í Reykjavík, forstjóri Fangelsismálastofnunar og ríkissaksóknari.
Segir Valtýr að bæði í bókinni og í greininni sé hann sakaður af systkinunum um að hafa afvegaleitt rannsóknina frá upphafi af persónulegum ástæðum og þannig hylmt yfir raunveruleg afdrif Geirfinns.
„Aðstandendur bókarinnar Leitin að Geirfinni hafa nú í tæpt ár árangurslaust freistað þess að fá lögregluyfirvöld til að skoða þessa nýtilkomnu speki án árangurs. Það eitt segir sína sögu.
Það er ekkert við því að segja að lærðir og leiknir velti fyrir sér hvarfi Geirfinns en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeir sem það gera haldi sig við staðreyndir málsins og auki ekki á þann rugling og söguburð sem fylgt hefur málinu alla tíð, engum til góðs.“
Í grein sinni á Vísi rekur Valtýr málið og vísar til greinar Soffíu og fullyrðinga hennar sem hann segir ekki ganga upp, viðtals DV við Hauk Guðmundsson, fyrrum rannsóknarlögreglumann, og eigin greinar í Morgunblaðinu árið 1998.
Í heilsíðugrein minni í Morgunblaðinu 31. október 1998: „Nokkur atriði um rannsókn Geirfinnsmálsins,“ segist ég hafa haft yfirumsjón með rannsókninni. Síðan segir: „Ég ber því stjórnunarlega ábyrgð á upphafsrannsókn málsins.“ Segir Valtýr að rangfærsla Soffíu um að Haukur hafi borið ábyrgð á rannsókninni falli því um sjálft sig, orð Hauks í viðtalinu við DV styðji það einnig.
Segir Valtýr það honum enn í fersku minni þegar Haukur kom á skrifstofu sína 21. nóvember 1974, tveimur dögum eftir hvarf Geirfinns, og skýrði frá undarlegum aðdraganda að hvarfi hans. „Hann taldið málið alvarlegt og ég tók undir það og sagði eitthvað á þessa leið: „Nú rannsökum við þetta mál og látum ekki nægja að sporhundurinn Nonni gangi nokkra hringi.“ Ástæða þessa orðalags var að fyrr á árinu hafði Guðmundur Einarsson horfið í Hafnarfirði og sporhundur var mikið notaður við leitina án árangurs.“
Segist Valtýr hafa óskað þess áður en vika var liðin frá hvarfi Geirfinns að sérfræðingar Sakadóms Reykjavíkur tækju yfir rannsókn málsins, þar sem ekki væri mannskapur né tæki eða tól í Keflavík til að sinna henni. Ekki hafi verið fallist á þá beiðni hans og segir Valtýr að þetta hafi verið heimskuleg áætlun ef honum hafi verið í hug að hylma yfir rannsókn málsins:
„Nú má spyrja: Gat það verið skynsamleg leið reyna að fá helstu sérfræðinga landsins í rannsóknarlögreglunni í Reykjavík til að taka málið yfir og afsala mér þar með allri stjórnun og aðkomu á því ef ætlun mín var að afvegaleiða alla rannsókn málsins? Nei, heimskulegri aðferð var varla hugsanleg. Það sjá allir.“
Rannsókn málsins lauk formlega í Keflavík með bréfi Valtýs til dómsmálaráðuneytisins 4. Júní 1975. Rúmum sjö mánuðum síðar voru Magnús Leópoldsson, Einar Gunnar Bollason og Valdimar Olsen úrskurðaðir í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar í Reykjavík og segir Valtýr þann þátt annsóknar Geirfinnsmálsins á engan hátt tengjast rannsókn málsins í Keflavík.
Í grein sinni segir Soffía Valtý hafa boðist sig fram til að yfirheyra fjórmenningana sem sátu í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa banað Geirfinni. Til að hrekja þá fullyrðingu birtir Valtýr yfirlýsingu í heild sinni frá Einari Gunnari Bollasyni, Magnús Leópoldssyni og Valdimar Olsen. Endar yfirlýsingin á:
„Valtýr Sigurðsson hvorki ræddi við okkur í Keflavíkurrannsókninni né hafði af okkur afskipti og enginn okkar hafði réttarstöðu grunaðs manns þá eða voru grunaðir um aðild að hvarfi Geirfinns Einarsson nema á gundvelli rangra sakargifta Erlu Bolladóttur. Á árinu 2019 þegar við leituðumst við að benda Alþingi á að Erla Bolladóttir hefði verið upphafsmanneskja að ógæfu okkar, áttum við sjálfir frumkvæði að því að kalla Valtý Sigurðsson lögmann, okkur til aðstoðar. Enginn okkar þekkti hann eða höfðu átt við hann einhver persónuleg samskipti.“
Valtýr segir að sér sé ekki kunnugt um að fram hafi farið jafn ítarleg athugun á störfum rannsakenda nokkurs máls eins og Geirfinnsmálsins. Árið 1979 fram opinber rannsókn á málsmeðferð lögreglunnar í Keflavík sem sá ekkert aðfinnsluvert. Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður skýrslu til dómsmálaráðuneytisins 4. febrúar 2003, sem settur saksóknari til að framkvæma opinbera rannsókn á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns. „Skýrslan er um 100 bls. og voru yfir 40 aðilar yfirheyrðir án þess að þar sé neitt að finna sem styður ávirðingar Soffíu. Auk þessa hafa tugir dómara fjallað um málið með sömu niðurstöðu.“ Segir Valtýr það algeran þvætting sem haldið er fram í bókinni að hann hafi átt aðkomu að skýrslunni og jafnvel breytt niðurstöðu hennar, og segir hann lítið gert úr vinnu Láru.
„Það má því teljast með miklum ólíkindum að öllum aðilum, sem að málinu hafa komið undanfarna áratugi, hafi yfirsést það sem aðstandendur bókarinnar Leitin að Geirfinni segjast hafa skyndilega uppgötvað tæpri hálfri öld síðar og leyst með því málið.“
Segist Valtýr hafa átt leið á bókasafn nýlega og lesið bókina. „Mig rak í rogastans að sjá allan þann þvætting sem þar var á borð borinn og ákvað þá að skrifa þessa grein sem hér birtist.“
Í bókinni er Geirfinnur sagður hafa látist á heimili sínu eftir átök, og eiginkona hans og vinkona hennar hafi haft samband við Valtý: „Þá þegar á ég, samkvæmt frásögn höfundar, að hafa tekið yfir rannsókn málsins, afvegaleitt málið og beitt áhrifum mínum á bæði yfirvöld og öll vitni alla tíð. Ég á samkvæmt þessari fullyrðingu að hafa í símtali við upphaf málsins samþykkt að hylma yfir morð, fyrir fólk sem ég þekkti ekkert, í þeim tilgangi að leyna meintu hjúskaparbroti mínu með þessari nafngreindu vinkonu, gott ef ekki líka barnsmóður. Þetta tekur auðvitað engu tali.“
Segist Valtýr við skrif greinarinnar hafa ákveðið að hringja í þessa nafngreindu vinkonu sem hann fann á ja.is, kynnt sig og lesið fyrir hana þessa fullyrðingu. „Skemmst er frá að segja að hún kvaðst vita hver ég væri en hafa aldrei séð mig í eigin persónu. Henni ofbauð allar þær lygar sem nú væru á borð bornar í málinu og kvaðst ekki hafa tjáð sig um Geirfinnsmálið í áratugi.“
Valtýr segir að eina sannleikskorn bókarinnar sé þess er getið að þegar fjölmiðill hafi árið 2019 beðið um að fá að sjá skýrslu Láru V. í heild sinni, mörgum árum eftir gerð hennar, hafi því verið hafnað af úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Segist Valtýr hafa, þegar hann komst að því að skýrslan var ekki opinber og aðgangi að henni hafnað, hafa skrifað 23. október 2023 tölvupóst til dómsmálaráðuneytisins og frábeðið leynd yfir skýrslunni. „….Gæti hugsast að það væri vegna þess að mér var veitt staða sakaðs manns við skýrslutöku í málinu en ég hafði sett fram þá kröfu til að sýna fram á að rannsókn sem þessi var réttarfarslega á skjön við grundvallarreglur um réttláta meðferð sakamála? Sé sá grunur minn á rökum reistur þá frábið ég mér leynd yfir skýrslunni af þeim sökum. Ég óska því hér með eftir aðgangi að skýrslunni helst í rafrænu formi og jafnframt geri ég þá kröfu að hún verði aðgengileg almenningi.“
Segist hann hafa ítrekað þessa beiðni í janúar 2025 þar sem ekki hafi borist svar við erindinu. Sagðist hann sjálfur hafa skýrsluna undir höndum og veita hverjum sem óskaði eftir aðgang að henni.
„Til að troða þessari samsæriskenningu enn frekar ofan í kokið á höfundi bókarinnar þá var Láru V. Júlíusdóttur ritað bréf dags. 13. nóvember 2001 vegna fyrirhugaðrar rannsóknar hennar. Þar segir að ég telji „eðlilegast að rannsóknin fari fram fyrir opnum tjöldum eftir því sem unnt er.“ Leyndin var nú ekki meiri en þetta.Við þessu var því miður ekki orðið.
Aðstandendur bókarinnar Leitin að Geirfinni hafa nú í tæpt ár árangurslaust freistað þess að fá lögregluyfirvöld til að skoða þessa nýtilkomnu speki án árangurs. Það eitt segir sína sögu.
Það er ekkert við því að segja að lærðir og leiknir velti fyrir sér hvarfi Geirfinns en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeir sem það gera haldi sig við staðreyndir málsins og auki ekki á þann rugling og söguburð sem fylgt hefur málinu alla tíð, engum til góðs.“