Margir óttast að Rússar eigi í náinni framtíð eftir að ráðast inn í eitthvert Eystrasaltsríkjanna, sem eru í NATO, og láta þannig reyna á samstöðu varnarbandalagsins.
Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og þekktur álitsgjafi um alþjóðamál, þekkir vel til í Eystrasaltsríkjunum. Hann telur að þau að einhverju leyti ofmeti verndina sem felst í NATO aðild.
Hins vegar álítur hann að Rússar hafi ekki áhuga á beinu stríði innan NATO.
„Ég skil vel áherslu Eystrasaltsríkjanna að sækjast eftir NATO aðild. Þau vildu eins náinn samruna við Vesturlönd og þau gátu fengið og auk ESB aðildar tóku þau öll upp evruna um leið og þau gátu. Í samtölum mínu við þá sem ég hef hitt í Eystrasaltsríkjunum undanfarna áratugi hefur mér þó fundist gæta ákveðins óraunsæis um það öryggi sem NATO aðild geti veitt þeim,“ segir Hilmar og nefnir þar þrjú atriði.
Það fyrsta er að NATO og Bandaríkin „hafi einhverja yfirburði hernaðarlega sem myndu tryggja sigur á vígvellinum í stríði með hefðbundnum vopnum gegn Rússlandi nokkuð auðveldlega, verði á þau ráðist, t.d. einhverja tæknilega yfirburði.“
Segir Hilmar að vissulega eigi NATO og Bandaríkin í einhverjum tilvikum fullkomnari vopn en Rússland en þarna skipti magnið líka máli: „Sérstaklega í löngu stríði eins og í Úkraínu. Mikið af vopnum Vesturlanda eru dýr og til í takmörkuðu magni og framleiðslugetan setur líka sínar skorður. Úkraína er ekki í NATO og hefur fengið vopn frá NATO ríkjum, en ekki NATO hermenn. Þó Eystrasaltsríkin fengju bæði vopn og hermenn frá NATO í hugsanlegu stríði við Rússland bendir fátt til þess að sigur myndi vinnast á Rússlandi auðveldlega eða á skömmum tíma. Eystrasaltsríkin eru í bakgarði Rússlands og fjarri Bandaríkjunum. Rússland er sterkast í sínum bakgarði. Ég er samt þeirrar skoðunar að Rússland hafi ekki áhuga á beinu stríði innan landamæra NATO.“
Hilmar segir að í öðru lagi sé oftrú innan Eystrasaltsríkjanna á vilja Bandaríkjamanna til að setja hagsmuni Eystrasaltsríkjanna í fyrsta sæti ef til átaka við Rússland kemur. Að Bandaríkin séu jafnvel tilbúin að hætta á kjarnorkustríð. Hilmar segir:
„Það má ljóst vera að stórveldi eins og Bandaríkin taka alltaf sína hagsmuni fram yfir hagsmuni annarra ríkja, þar á meðal hagsmuni Evrópu og Eystrasaltsríkjanna. Fundur Donald Trump og Vladímír Pútin í Alaska sýnir að Donald Trump vill betri samskipti við Rússland til lengri tíma litið, sem er skiljanlegt ef hann vill styrkja stöðu Bandaríkjanna í stórveldasamkeppninni við Kína. Þetta sést líka á þeim tollum sem Bandaríkin hafa lagt á ESB, að Bandaríkin hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni sem verður líka að teljast eðlilegt þó a.m.k. einhverjum leiðtogum Evrópu hafi komið þetta á óvart. Mörg ESB ríkin eru bandalagsríki Bandaríkjanna og í NATO. Skemmst er að minnast orða Newt Gingrich, fyrrum forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem eitt sinn sagði: „Eistland er í úthverfi Sankti Pétursborgar. Ég er ekki viss um að ég myndi hætta á kjarnorkustríð um einhvern stað sem er í úthverfi St. Pétursborgar.“
Hilmar segir að Evrópa skipti enn máli fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna en vægi álfunnar hafi minnkað og á sama tíma hafi vægi Ausur-Asíu aukist vegna uppgangs Kína. Mið-Austurlönd skipti Bandaríkin líka miklu máli, sérstaklega Persaflóinn.
„Ég hef líka orðið var við það viðhorf að hægt sé að sigra Rússland með refsiaðgerðum eða á vígvellinum þó landið sé kjarnorkuveldi. Að refsiaðgerðirnar myndu leiða til efnahagslegs hruns Rússlands og ef það dugar ekki myndu hernaðaraðgerðirnar leiða til ósigurs og hugsanlega að Rússland brotnaði í mörg smáríki. Margir virðast telja að ekki sé hægt að semja við Rússland, sérstaklega Vladímír Pútin, undir nokkrum kringumstæðum. Einu leiðirnar séu refsiaðgerðir eða átök á vígvellinum ef þarf,“ segir Hilmar og nefnir þarna þriðja atriðið sem varðar oftrú Eystrasaltsríkjanna á vernd gegn Rússum.
Hann segir hins vegar að heimurinn sé fjölpóla, stórveldin séu fleiri en eitt og því geti Rússar beint viðskiptum sínum annað.
„Þannig getur Rússland beint sínum viðskiptum til Kína, sem er efnahagslegt stórveldi, og annarra Asíuríkja og líka, t.d. til BRICS landanna, og þá skipta refsiaðgerðir Vesturlanda minna máli. Kaja Kallas, fyrrum forsætisráðherra Eistlands og nú utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, hefur sagt að æskilegt gæti verið að Rússland brotnaði í smáríki undan þrýstingi frá Evrópu og Bandaríkjunum. Svona tal er ekki til þess fallið a stuðla að stöðugleika í samskiptum ESB og Rússlands, hvorki til skamms né lengri tíma. Þarna virðist ekki vera tekið tillit til áhættunnar sem gæti fylgt í kjölfar þess að Rússland, sem kjarnorkuveldi, missti tökin á sínum kjarnorkuvopnum og að þau komist í hendur aðila sem eru ekki vinveittir Evrópu eða Bandaríkjunum. Sum ríki, t.d. í Mið-Austurlöndum, gætu viljað komast yfir þessi kjarnorkuvopn til að tryggja öryggi sitt t.d. gagnvart Ísrael. Það bendir líka fátt til þess að hægt sé að sigra Rússland auðveldlega á vígvellinum og á skömmum tíma jafnvel þó að Rússar grípi ekki til kjarnorkuvopna, sem þeir gætu gert ef þeir telja þjóðaröryggi sínu ógnað.“
Hilmar bendir á að Rússland verði nágranni Evrópu um ókominn tíma og Evrópa þurfi að finna leiðir til að lifa með Rússlandi. „Ég geri mér samt grein fyrir að þetta verður erfitt og langan tíma tekur fyrir Evrópu að koma á bærilegum samskiptum við Rússland eftir að Úkraínustríðinu lýkur, hvenær sem það nú verður.“
Hilmar telur að varnarsamningur Íslands við Bandaríkin haldi gildi sínu þó að Bandaríkin fjarlægist NATO. Það þjóni öryggishagsmunum Bandaríkjamanna að önnur stórveldi komi sér ekki upp aðstöðu á Íslandi.
„Þess vegna held ég að tvíhliða varnarsamstarf Bandaríkjanna og Íslands geti haldið áfram þó staða NATO kunni að breytast ef stuðningur Bandaríkjanna við bandalagið minnkar eða hverfur. Ljóst er að núverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur oft gagnrýnt NATO, og þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta sagði hann stofnunina úrelta (e. obsolete).“