Yfirskattanefnd hefur staðfest synjun ríkisskattstjóra á beiðni Vestmannaeyjabæjar um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerðar á neysluvatnslögn bæjarins eftir að miklar skemmdir urðu á henni. Vísa skattayfirvöld til þess að viðgerð af þessu tagi flokkist ekki undir björgunarstörf vegna náttúruhamfara og almannavarna.
Í nóvember 2023 varð tjón á neysluvatnslögn Eyjamanna þegar akkeri fiskiskipsins Hugins VE festist í henni. Svo miklar skemmdir urðu á lögninni að ef ekki hefði verið gripið til aðgerða hefði hún líklega farið alveg í sundur. Unnið er að því að leggja nýja lögn og Vestmannaeyjabær hefur stefnt eiganda skipsins, Vinnslustöðinni, en fyrirtaka í málinu við Héraðsdóm Suðurlands verður líklega í næsta mánuði.
Bærinn kærði synjun ríkisskattstjóra í apríl á þessu ári en hann synjaði beiðninni um endurgreiðslu virðisaukaskattsins í janúar. Alls var endurgreiðslan sem bærinn fór fram á um 3,3 milljónir króna en viðgerðin sem ráðist var í kostaði um 17,2 milljónir króna. Byggði beiðnin á ákvæðum reglugerðar um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila og laga um virðisaukaskatt. Í reglugerðinni og lögunum segir meðal annars að sveitarfélög eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna.
Ríkisskattstjóri vildi meina að viðgerð á vatnslögn gæti ekki talist til björgunarstarfa eða öryggisgæslu vegna náttúruhamfara eða almannavarna. Þessi ákvæði laganna og reglugerðarinnar bæri að túlka þröngt. Þau hefðu verið túlkuð á þann veg að átt væri við kaup á vinnu og þjónustu við björgun fólks og eigna vegna náttúruhamfara, svo og vegna öryggisgæslu af sama tilefni.
Ríkisskattstjóri sagði að miðað hefði verið við um að kostnað væri að ræða sem opinber aðili yrði fyrir vegna yfirstandandi náttúruhamfara og beinna afleiðinga þeirra. Kostnaður sem félli til vegna forvarnaraðgerða, sem og vegna viðgerða í kjölfar atburðar eða annarra aðgerða sem ekki miðuðu að því að bjarga fólki og eignum ásamt öryggisgæslu á meðan á atburði stæði, og í kjölfar hans til að varna frekara tjóni, hefði hins vegar ekki verið talinn mynda stofn til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Viðgerð á neysluvatnslögn vegna skemmda sem fiskiskip hefði valdið gæti ekki talist til björgunarstarfa eða öryggisgæslu í hefðbundnum skilningi þeirra orða vegna náttúruhamfara eða almannavarna þeim tengdum. Því væru ekki forsendur til að fallast á beiðni Vestmannaeyjabæjar.
Bærinn vísaði meðal annars til þess í kæru sinni að þegar lögnin skemmdist hafi ríkislögreglustjóri lýst yfir hættustigi almannavarna. Bærinn hafi ekki aðgang að öðru vatnsbóli. Raunveruleg hætta hafi verið á því að lögnin færi alveg í sundur. Því hafi verið nauðsynlegt að grípa til björgunaraðgerða í þágu almannahags og koma í veg fyrir allsherjar tjón. Bærinn hafi því greitt fyrir viðgerð á lögninni og tilheyrandi virðisaukaskatt. Kostnaðurinn hefði komið til vegna aðgerða í þágu almannavarna og umrædd ákvæði laga og reglugerðar sneru meðal annars að björgunarstörfum vegna almannavarna almennt og að það ætti við í þessu máli.
Benti Vestmannaeyjabær á í sinni kæru að án vatns væri ekki hægt að hita hús í bænum sem hefði óhjákvæmilega leitt til umtalsverðra skemmda. Vísað var til tjóns sem varð á fasteignum í Grindavík þegar vatnslagnir til bæjarins skemmdust. Nauðsynlegar ráðstafanir og viðgerðir á einu vatnslögninni sem liggi til Vestmannaeyja hafi því verið nauðsynleg ráðstöfun og björgunaraðgerð í þágu almannavarna, enda komist íbúar bæjarfélagsins ekki af án vatns. Hefði ekki verið gripið til aðgerða hefði þurft að rýma bæinn innan ákveðins tíma þar sem hann hefði orðið vatnslaus.
Í niðurstöðu yfirskattanefndar segir meðal annars að þar sem áðurnefnd ákvæði reglugerðarinnar og laganna snúist um undanþágu frá skattskyldu bæri að túlka þau þröngt. Nefndin tekur undir það með ríkisskattstjóra að ákvæðin lúti að kaupum á þjónustu við björgun manna og muna meðan á náttúruhamförum stendur eða í órofa tengslum við þær, en kostnaður sem falli til síðar við viðgerðir og endurbætur mannvirkja sem tjón verði á í náttúruhamförum eigi ekki við ákvæðin, enda verði slík vinna hvorki talin björgunarstörf né öryggisgæsla. Nefndin segir það ekki hafa verið talið skipta máli í þessu samhengi hvort um bráðabirgðaviðgerðir eða varanlegar framkvæmdir væri að ræða. Tekur nefndin undir það með ríkisskattstjóra að viðgerð á vatnslögn vegna skemmda af mannavöldum geti ekki fallið undir þessi ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Kröfu Vestmannaeyjabæjar um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðgerðar á einu neysluvatnslögn bæjarins var því hafnað.
DV freistaði þess að leita viðbragða Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, við úrskurðinum en ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.