Hæstiréttur hefur hafnað beiðnum Sjóvár-Almennra Trygginga hf. um leyfi til að áfrýja dómum Landsréttar, í máli þriggja einstaklinga, tveggja karla og einnar konu gegn félaginu, en þau höfðu krafist greiðslu slysabóta eftir að annar karlinn ók bifreið, sem hin tvö voru farþegar í, á ljósastaur í Reykjavík árið 2020. Tryggingafélagið neitaði að borga bæturnar á grundvellli þess að um tryggingasvik væri að ræða en bæði Landsréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdu félaginu í óhag og komust að þeirri niðurstöðu að því hefði ekki tekist að sanna að ekki hefði verið um slys að ræða.
Um þrjá mismunandi dóma og þar með þrjár mismunandi ákvarðanir Hæstaréttar er að ræða en þar sem um sama mál var að ræða í öllum tilfellum voru dómar og ákvarðanir samhljóða að miklu leyti.
Dómar Landsréttar í málunum voru kveðnir upp í maí á þessu ári en dómar Héraðsdóms Reykjavíkur voru kveðnir upp í lok árs 2023.
Í dómum Landsréttar var það helsta sem kom fram að þremenningarnir höfðu krafist greiðslu úr slysatryggingu ökumanns og eiganda ökutækis, hjá Sjóvá, vegna afleiðinga slyssins fyrir heilsu þeirra. Sjóvá hélt því fram að ökumaðurinn hefði ekið viljandi á ljósastaurinn og allt hefði fólkið veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um afleiðingar slyssins. Héraðsdómur Reykjavíkur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Sjóvá hefði ekki fært nægilegar sönnur á að árekstrinum hefði verið valdið af ásetningi eða axlað þá sönnunarbyrði sem félagið bæri um að skilyrði væru til að fella niður greiðslur til þremenninganna og dómurinn féllst því á kröfu þeirra um greiðslu bóta.
Fyrir Landsrétti krafðist Sjóvá aðallega ómerkingar dóma héraðsdóms þar sem dómurinn, sem var ekki skipaður sérfróðum meðdómanda, hefði í forsendum sínum litið til læknisfræðilegra gagna og framburðar sjúkraþjálfara fyrir dómi hvað varðaði sönnun þess að þremenningarnir hefðu orðið fyrir líkamstjóni við áreksturinn. Í dómum Landsréttar kom fram að þar sem fólkið nýtti heimild laga um meðferð einkamála til að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu Sjóvár og í ljósi þess að ekki var deilt um læknisfræðileg álitaefni eða umfang tjónsins, hefði ekki verið þörf á sérfróðum meðdómsmanni.
Landsréttur taldi því að ekki hefði verið grundvöllur fyrir því að ómerkja dóma héraðsdóms og taldi enn fremur að þremenningarnir hefðu sannað líkamstjón sitt. Voru því allir dómar héraðsdóms staðfestir.
Í beiðnum Sjóvár til Hæstaréttar um leyfi til að áfrýja öllum dómunum kom það meðal annars fram að dómar Landsréttar væru bersýnilega rangir, einkum um að ekki hafi verið efni til að ómerkja dóma héraðsdóms. Af þeim dómum megi ráða að dómarinn hafi litið til læknisfræðilegra gagna sem og framburðar sjúkraþjálfara fyrir dómi varðandi sönnun um að fólkið hafi orðið fyrir tjóni sem dómaranum hafi verið ókleift að gera á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu.
Þá taldi Sjóvá þá niðurstöðu ranga að þremenningarnir hefðu sannað með fullnægjandi hætti að þau hefðu orðið fyrir líkamstjóni. Auk þess væri niðurstaða Landsréttar röng að því er varðaði sönnunarmat. Vildi Sjóvá sömuleiðis meina að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi og varðaði sérstaklega mikilvæga hagsmuni félagsins. Málið hefði þannig verulega þýðingu um hvaða tilvik gætu fallið undir skilgreiningu á vátryggingarsvikum samkvæmt lögum og skilmálum vátryggingarsamnings. Enn fremur skipti verulegu máli að dómstólar tækju afstöðu til þess hvernig sönnunarbyrði skiptist milli vátryggingafélags og tjónþola í slíkum tilvikum.
Hæstiréttur tók hins vegar ekki undir með Sjóvá. Rétturinn segir í öllum þremur tilvikum að hvorki verði litið svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Sjóvár í skilningi laga um meðferð einkamála. Þá verði ekki séð að dómar Landsréttar séu bersýnilega rangir. Öllum þremur beiðnum um áfrýjunarleyfi var því hafnað. Sjóvá kemst því ekki lengra með málið í íslensku dómskerfi og situr uppi með að þurfa að greiða þremenningunum bætur þrátt fyrir fullyrðingar félagsins um að brögð hafi verið í tafli.