Maður sem starfar sem tónlistarmaður fær, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, engar bætur frá ríkinu eftir handtöku vegna gruns um akstur um götur Hafnarfjarðar undir áhrifum fíkniefna. Sýnataka á lögreglustöðinni í Hafnarfirði staðfesti ekki að maðurinn væri undir áhrifum og var honum þá sleppt og málið látið niður falla. Sagðist maðurinn hafa verið eltur af lögreglunni töluverðan spöl en hafi verið handtekinn eftir að hann hefði stöðvað bíl sinn að eigin frumkvæði og krafist svara um hvers vegna verið væri að elta hann.
Í dómi héraðsdóms er málinu eins og það blasti við manninum lýst með ítarlegum hætti. Maðurinn var handtekinn aðfaranótt sunnudags árið 2022 en nákvæm staðseting og dagsetning hafa verið afmáð.
Samkvæmt lögregluskýrslu var maðurinn með ógnandi hegðun þegar hann var stöðvaður og hafi borið þess merki að vera undir áhrifum fíkniefna. Sjáöldur hafi verið samandregin og hann verið ör. Hann hafi verið fluttur á lögreglustöðina í Hafnarfirði til sýnatöku og verið í handjárnum á leiðinni þangað. Þvagpróf hafi ekki sýnt nein fíkniefni og hafi honum þá þegar verið sleppt. Handtakan hafi staðið yfir í 16 mínútur.
Í stefnu mannsins á hendur ríkinu var þessari atvikalýsingu lögreglunnar mótmælt. Sagði hann lögregluna hafa elt sig um nokkuð langan veg um götur Hafnarfjarðar án þess að gefa honum merki um að stöðva. Hann hafi á endanum stöðvað bifreið sína gengið að lögreglubifreiðinni sem hefði elt hann og spurt lögreglumennina, sem þar sátu, hvers vegna þeir væru að þessu. Þeir hafi brugðist afar illa við þessari fyrirspurn og tilkynnt honum að hann væri talinn undir áhrifum fíkniefna, hann verið settur í handjárn og færður á lögreglustöðina í Hafnarfirði. Þar hafi hann verið látinn pissa í þvagprufuglas fyrir framan lögreglumann en niðurstaðan hafi verið neikvæð.
Vildi maðurinn meina að handtakan hafi ekki staðið yfir í 16 mínútur heldur um klukkustund þar sem hann hafi ekki getað pissað strax við komuna á lögreglustöðina.
Fyrir dómi sagðist maðurinn hafa verið að koma af skemmtun þar sem hann hefði verið að spila þegar hann hefði mætt lögreglubílnum sem hafi snúið við og ekið á eftir honum. Fyrst hafi hann haldið að lögreglan þyrfti að komast fram úr honum og hafi því reynt að víkja marg sinnis. Hann hafi ekið krókaleiðir en loks fengið nóg og ákveðið að lögreglan yrði að skýra sitt mál þar sem hann hefði hvorki verið undir áhrifum né hafi nokkuð verið athugavert við bifreiðina. Eltingaleikurinn hafi því verið ástæðulaus. Sagðist maðurinn hafa verið ákveðinn við lögreglumennina sem hann sé almennt. Þessi framkoma hafi bersýnilega farið eitthvað öfugt ofan í þá og hann í kjölfarið verið handtekinn.
Maðurinn sagðist ekki neyta fíkniefna og hafi því furðað sig á því að lögreglan teldi hann sýna merki um það. Hann sagði einnig fyrir dómi að honum hefði þótt undarlegt að hvorki hefði verið leitað í bílnum eða á honum sjálfum. Honum hefði þótt eðlilegra verklag að stöðva akstur hans strax. Þá hefði hann aldrei gert mál úr neinu og hann og lögreglumennirnir getað skilið sáttir þegar í ljós hefði komið að hann hefði ekki verið undir áhrifum.
Lögreglumaðurinn sem tók ákvörðunina um handtökuna kom fyrir dóm. Hann sagði að þegar ökumenn sem grunaðir væru um akstur undir áhrifum væru ekki stöðvaðir strax væri lögreglan yfirleitt að meta aksturslagið eða að leita að hentugum stað til að stöðva bifreiðina. Þegar maðurinn hefði verið stöðvaður hefði hann verið æstur, ör og óðamála. Lögreglumaðurinn sagðist þá hafa tekið eftir að sjáöldur mannsins væru samandregin og þá fundist rétt að kanna hvort hann væri undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn hafi líklega verið fluttur á lögreglustöðina þar sem próf til að taka munnvatnssýni hafi ekki verið til staðar til að kanna á staðnum hvort hann væri undir áhrifum. Almennt væri ekki leitað á mönnum sem settir væru í handjárn og ekki væri leitað í bifreið viðkomandi nema staðfesting fengist á því að hann væri undir áhrifum fíkniefna.
Lögreglumaðurinn taldi það ekki óeðlilega skamman tíma að handtakann hafi staðið yfir í 16 mínútur.
Í stefnu mannsins var því haldið fram að hann ætti rétt á bótum þar sem hann hefði ekki gert neitt til að stuðla að þessum aðgerðum. Enginn rökstuddur grunur hafi verið um lögbrot af hans hálfu. Hann hafi ekki sýnt nein merki um fíkniefnaneyslu og hann hafi verið handtekinn og frelsissviptur eingöngu til að lækka í honum rostann eftir að hafa gert athugasemdir við háttalag lögreglunnar umrædda nótt. Beita hafi átt meðalhófi í málinu með því að taka munnvatnssýni á vettvangi.
Ríkið sagði hins vegar hafa verið fullt tilefni til aðgerðanna. Maðurinn hafi raunar stuðlað að þeim með háttalagi sínu og hann hafi sýnt merki um fíkniefnaneyslu. Var þeim fullyrðingum mannsins um að atvikalýsingar í lögregluskýrslu væru ekki réttar vísað á bug.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að eðlilegt sé að maðurinn hafi talið handtökuna hafa staðið lengur en í 16 mínútur en ekkert hafi hins vegar komið fram sem sanni að skráning lögreglunnar á lengd handtökunnar hafi verið röng. Maðurinn hafi gefið þvagsýnið af fúsum og frjálsum vilja og ekkert skyldi lögregluna til að nota próf fyrir munnvatnssýni og ljóst sé að slíkt próf hafi ekki verið í lögreglubílnum. Dómurinn segir framburð mannsins sjálfs um að hann hafi verið orðinn þreyttur á að vera eltur og ákveðið að krefja lögreglumennina svara renni stoðum undir framburð lögreglumannsins um að maðurinn hafi verið áberandi æstur. Maðurinn hafi raunar sjálfur sagst hafa verið ákveðinn og hvass við lögreglumennina.
Þessi framburður um hegðun mannsins og það að sjáöldur hans hafi verið samandregin sýni fram á að fullt tilefni hafi verið til aðgerða lögreglu. Henni hafi borið skylda til að ganga úr skugga um að maðurinn væri ekki undir áhrifum fíkniefna.
Kröfum mannsins um bætur var því hafnað á þeim grundvelli að hann hefði sjálfur stuðlað að því að hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Dóminn í heild má nálgast hér.