Ef umhverfisverndunarsinnar hefðu verið til á síðustu öld væru hér engar eða fáar hitaveitur, raforkuver eða vatnsveitur, að mati stjórnsýslufræðingsins Hauks Arnþórssonar. Hann leggur orð í belg í deilum um Hvammsvirkjun en Landsvirkjun hefur haldið áfram framkvæmdum þrátt fyrir að Hæstriréttur hafi fellt virkjunarleyfi úr gildi. Staðfesti Hæstiréttur þar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Er virkjunin þar sögð stríða gegn vatnalögum. Landsvirkjun bendir á að niðurstaða dómstóla í málinu snúi að formgöllum, vegna mistaka við setningu vatnalaga, en búið er að breyta lögunum eftir að dómur Hæstaréttar féll.
Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, hefur gagnrýnt harðlega framgöngu Landsvirkjunar. Í aðsendri grein sem hún birti á Vísi líkir Björg Eva framgöngu forstjóra Landsvirkjunar, Herði Arnarssyni, við atferli heimilisofbeldismanns:
„Landsvirkjun er að knýja í gegn stórvirkjun án leyfa, þegar fullreynt er að ná sáttum við nærsamfélagið. Ef það var þá einhverntímann reynt – því alltaf var áherslan á ímyndasmíð, þöggun, fegrun og hliðrun upplýsinga sem gerir að þeir sem ekkert þekkja til sjá fyrir sér indælis rennslisvirkjun, með glöðum löxum skoppandi um fiskvegi og mikla farsæld sveita í frábærum orkuskiptum. Heimamenn upplifa hinsvegar að fallega sveitin þeirra er orðin iðnaðarsvæði. Forstjórinn blæs á það, enda hefur hann aldrei séð neitt kvikt við Þjórsá, nema sitt fólk og oddvitann. Aðferðin minnir á hvernig heimilisofbeldi er þaggað niður. Ekkert er að, húsbóndinn segir fjölskylduna hamingjusama og sjáist áverkar á konu eða börnum, þá gengu þau óvart á hurð. (Feitletrun DV)“
Þóra Arnórsdóttir, samskiptastjóri Landsvirkjunar, segir í viðtali við Sýn að málflutningur Bjarga Evu beri vitni um rökþrot. Segir hún að vandað hafi verið til verka við undirbúning Hvammsvirkjunar. Fyrir löngu sé búið að semja við alla landeigendur og vatnsréttarhafa á áhrifasvæði virkjunarinnar.
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir í pistli sínum um málið:
„Umhverfissverndarsinnar eru komnir út í horn í þjóðfélaginu. Ef þeir hefðu verið til á síðustu öld hefðum við ekki eða fáar hitaveitur, raforkuver, vatnsveitur og.fl. Umhverfisvernd er ekki lengur sjálfsprottin heldur rekin af atvinnufólki í málefninu. Um er að ræða öfgafólk sem hefur gengið lengra og lengra á vit ofstækis eins og gerist í trúarhópum (og getur gerst í pólitík). Þá leiðir alltaf sá öfgafyllsti og þeir sem andmæla honum eru svikarar.
Stórfelldur þjóðfélagslegur ábati er af því að nýta auðlindir landsins og til þess höfum við fullan rétt. Nú þarf ríkið að koma sér upp risa mállíkani (LLM – large language module) til að knýja opinbera þjónustu í framtíðinni og til þess eins þarf gríðarlega orku. Sem ekki er fyrir hendi. Þá er ég ekki farinn að tala um aðrar innlendar þarfir og því síður þjóðfélagslegan ábata af útflutningi orku, t.d. sem rafeldsneyti – eða útflutningi á vatni. Sem hvort tveggja byggir á að nýta auðlindir sem við sóum nú.“
Haukur segir að umhverfisvernd sé hvorki til hægri né vinstri, heldur þverpólitísk andstaða við framfarir og aukinn kaupmátt. Hjá vinstra fólki sé hún hins vegar farin að koma í staðinn fyrir stéttarbaráttu. Pistilinn og umræður um hann má lesa með því að smella á tengilinn hér að neðan: