Almennur dómstóll Evrópusambandsins hefur fallist á niðurstöðu Hugverkastofu Evrópusambandsins um að Ísland eigi vörumerkið Iceland. Hafnað var kröfum bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods Ltd. um vörumerkið.
Deilurnar hafa staðið yfir í nokkur ár og greint hefur verið frá þeim í fjölmiðlum. Iceland Foods var stofnað árið 1970 og selur aðallega frosna matvöru. Fékk verslunin einkaleyfi á notkun nafnsins Iceland árið 2013 og hófstu deilurnar við íslensk stjórnvöld þremur árum seinna.
Hefur málið farið fyrir ýmis dómstig og Richard Walker, forstjóri Iceland Foods, hefur mætt í dómsal til að verja hagsmuni verslunarinnar. „Iceland gegn Íslandi. Við erum að berjast fyrir einkaleyfi á nafninu okkar,“ sagði Walker á sínum tíma.
Nú hefur Ísland unnið stóran sigur, enda miklir viðskiptahagsmunir fyrir íslensk fyrirtæki að geta markaðssett sig með nafninu Iceland.
„Við fögnum auðvitað afdráttarlausri niðurstöðu okkur í vil í þessu mikilvæga máli fyrir hagsmuni lands og þjóðar“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Það skiptir höfuðmáli fyrir fyrirtækin okkar að geta vísað til upprunans, til hreinleikans og til sérstöðu okkar á alþjóðavettvangi. Það felast verðmæti í heiti landsins og við stöndum áfram vörð um þessa hagsmuni fyrir Ísland.“