Hanna Katrín segir að frumvarpið marki tímamót í því hvernig við innheimtum gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda í sjávarútvegi.
„Með breytingum á lögum um veiðigjald tryggjum við að gjaldið endurspegli raunverulegt markaðsverð – ekki það verð sem útgerðin sjálf ákveður í innri viðskiptum. Um er að ræða leiðréttingu sem löngu er tímabær og sem þjóðin á skýlausan rétt á,“ segir Hanna Katrín í aðsendri grein á vef Vísis í morgun þar sem hún fer yfir málið.
Hanna Katrín segir að í gegnum árin hafi veiðigjöld verið reiknuð á grundvelli viðmiða sem gefa ranga mynd af verðmæti aflans.
„Afleiðingin er sú að þjóðin hefur orðið af tugum milljarða í tekjur. Þessu vil ég, og við í ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins breyta. Þess vegna eru nú lögð til ný viðmið fyrir fimm helstu nytjastofna við Íslandsstrendur: þorsk, ýsu, síld, makríl og kolmunna – byggð á raunverulegu verði, meðal annars á íslenskum fiskmörkuðum, en einnig með hliðsjón af reynslu Norðmanna þar sem viðskipti fara fram á opnum markaði,“ segir hún.
Hún segir síðan að eftir samráðsferli þar sem fram komu áhyggjur af áhrifum leiðréttingarinnar á litlar og meðalstórar útgerðir hafi frítekjumark í þorski og ýsu verið stórhækkað. „Frítekjumarkið í þessum nytjastofnum hækkar upp í 50 milljónir króna sem minnkar verulega áhrif leiðréttingarinnar á þessi fyrirtæki.“
Hanna Katrín kveðst gera sér grein fyrir því að þessar breytingar veki sums staðar hörð viðbrögð.
„Það er eðlilegt enda eru miklir hagsmunir í húfi. En í samfélagi sem byggir á sanngirni og ábyrgð eiga sameiginlegar auðlindir að skila öllum ábata, ekki bara fáum. Það er ekki kollsteypa á kerfinu að endurspegla raunverulegt verð – það heitir á mannamáli að gera réttu hlutina rétt,“ segir hún í grein sinni.
Hanna Katrín segir að áætlanir geri ráð fyrir að með umræddri leiðréttingu skili veiðigjöldin þjóðinni um 17,3 milljörðum króna á ári eftir að tekið hefur verið tillit til frítekjumarka.
„Það eru tekjur sem verða nýttar til uppbyggingar innviða um allt land og við það munum við standa,– þar sem innviðaskuldir síðustu ríkisstjórnar blasa við – í holóttu vegakerfi, í orkukerfi við þolmörk og í dreifikerfi sem oft bregst þegar mest á reynir,“ segir hún og bætir við að í gegnum árin hafi það sýnt sig að fiskveiðikerfið getur þróast og aðlagast.
„Nú er komið að því að tryggja að þjóðin fái sinn réttmæta hlut. Ég bind vonir við að Alþingi verði samstíga í því verkefni. Það er okkar skylda sem kjörnir fulltrúar að gæta hagsmuna almennings. Ég er stolt af því að leiða þetta mál, og stolt af því að tilheyra ríkisstjórn sem stendur einhuga að þessu réttlætismáli, stendur með fólkinu og tryggir að auðlindir Íslands þjóni í raun almannahagsmunum umfram sérhagsmuni.“