fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Fréttir

Halldór: Leigubíllinn í Mosó kostar 8.000 – Kostar minna að ferðast um allt Þýskaland í heilan mánuð

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 12. september 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er allt eins og í lélegu Sovétríki,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og pistlahöfundur, í nýjasta pistli sínum sem vakið hefur talsverða athygli. Þar skrifar hann meðal annars um almenningssamgöngur hér á landi og er yfirskrift pistilsins: Hvernig Ísland líkist lélegu kommúnistaríki.

Halldór birti pistilinn á Facebook-síðu sinni í morgun en hann birtist þó fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um liðna helgi.

Í byrjun pistilsins segir hann frá félaga sínum sem þurfti að komast heim til sín í Holtin úr Mosfellsbæ klukkan 22 á Menningarnótt.

„Einhver þurfti að sinna hestum meðan aðrir sinntu menningunni. Hann gekk út á stoppistöð og komst þar að því að þjónusta strætó hafði verið felld niður; það var sumsé gert ráð fyrir því að enginn þyrfti að komast í átt til bæjarins, bara frá honum. Hann tók því leigubíl sem kostaði 8.000 krónur.“

Halldór segir síðan:

„Ég er staddur í hinu stórhættulega Evrópusambandi, nánar tiltekið Þýskalandi, þar sem ég nota svokallaðan Deutschland-miða. Hann gildir í allar almenningssamgöngur innan allra borga Þýskalands og milli þeirra í heilan mánuð. Miðinn kostar 49 evrur, 7.500 krónur. Það kostar meira að komast einu sinni heim til sín úr Mosfellsbæ á laugardagskvöldi en að ferðast um gjörvallt Þýskaland í heilan mánuð.“

Pínlega opinberandi

Halldór segir það segja töluvert mikið um viðhorf íslenskra yfirvalda til almenningssamgangna að þeir séu felldar niður á Menningarnótt.

„Þar kristallast sú hugsun að þær séu sniðugar þegar þjóðin fer á hópfyllerí, en ekki eðlilegur hluti af daglegu lífi. Það er líka pínlega opinberandi að ekki megi hafa traustar almenningssamgöngur í Leifsstöð, það er augljóslega viljaverk sem snýst um að viðhalda einokun rútufyrirtækja með pólitísk tengsl á kostnað okkar allra.“

Í pistlinum spyr hann hvert hluverk ríkisins er og vísar í nýlegt viðtal á RÚV þar sem forsætisráðherra sagði að taprekstur í almenningsvagnakerfinu gangi ekki til langs tíma, ekki frekar en í öðrum rekstri. Ef ekki gangi vel að auka þátttöku eða notkun í kerfinu þá verði að bregðast við, draga úr úr umfangi og kostnaði.

„Þetta verður ekki skilið öðruvísi en sem bein hótun um að gera almenningssamgöngur enn þá verri. Valdafólk hér ber það margt ekki með sér að hafa nokkru sinni stigið upp í strætisvagn, hvað þá að hafa búið á stað þar sem almenningssamgöngur eru í lagi. Lykillinn að þeim er að þær séu svo áreiðanlegar og öflugar að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af þeim – þú vitir að þær séu í fimm mínútna fjarlægð og fimm mínútna bið. Það þarf líka að vera vit í verðlagningu, það á ekki að kosta það sama að fara tvær stoppistöðvar eða átján,“ segir Halldór.

„Þið hljótið að vera að grínast? Hvar er þetta frelsi ykkar?“

Hann spyr svo hvor sé frjálsari, ferðalangur með Deutschland-miðann eða félagi hans í leigubílnum. Sjálfur kveðst hann líta svo á að hlutverk ríkisins sé að tryggja og auka eftir fremsta megni frelsi borgaranna til að lifa lífinu eftir eigin höfði.

„Þess vegna tel ég það vera hlutverk ríkisins að leitast við að hafa samgöngur eins greiðar og ódýrar og kostur er; það eykur frelsi allra til muna og geri hagkerfið dýnamískara. Að neyða alla til að kaupa bíl sem með öllu kostar einhver mánaðarlaun á ári að eiga og reka og stendur síðan kyrr 22 tíma á dag eykur ekki frelsi eins eða neins. Þess vegna er galið að ganga út frá því að almenningssamgöngur séu hagnaðardrifnar. Hvað þá með alla aðra opinbera þjónustu?“

Halldór endar svo pistilinn á þeim orðum að næstum ekkert af „öllu ruglinu“ sem íslensk yfirvöld láta skattgreiðendur niðurgreiða fyrir vini þeirra og stórfyrirtæki auki frelsi borgaranna, hvað þá borgi sig.

„Þess vegna er oft fyndið að heyra fólkið sem hefur ráðið öllu á Íslandi hér um bil alla mína ævi tala um „frelsi“. Þið hljótið að vera að grínast? Hvar er þetta frelsi ykkar? Eftir áratugalanga valdatíð íslenskra „frelsisunnenda“ er landið mörgu leyti líkara lélegu kommúnistaríki; við erum kyrrstöðu- og haftasamfélag þar sem samkeppni og frjálsir markaðir eru de facto bannaðir af því það hentar ráðandi stéttum. Besta leiðin til auðsöfnunar, viðskiptatækifæra eða góðrar vinnu er alltaf að hafa pólitísk tengsl. Þú getur fengið allt gefins ef þú hefur pólitísk tengsl. Þú getur fengið veiðileyfi á almenning ef þú hefur pólitísk tengsl. Lífið er strit fyrir hér um bil alla nema þá sem hafa pólitísk tengsl. Þetta er allt eins og í lélegu Sovétríki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Bjartsýnir stjórnmálamenn vilja byggja flugvöll á virku gossvæði – Fræðimenn setja spurningarmerki við áformin

Bjartsýnir stjórnmálamenn vilja byggja flugvöll á virku gossvæði – Fræðimenn setja spurningarmerki við áformin
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Fordæmir viðbrögð Kópavogsbæjar eftir að brotið var kynferðislega á dóttur hennar í Snælandsskóla

Fordæmir viðbrögð Kópavogsbæjar eftir að brotið var kynferðislega á dóttur hennar í Snælandsskóla
Fréttir
Í gær

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum
Fréttir
Í gær

Slapp undan milljóna reikningi eftir klúður á bensínstöð

Slapp undan milljóna reikningi eftir klúður á bensínstöð
Fréttir
Í gær

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki
Fréttir
Í gær

Þurfa nauðsynlega að ná tali af tveimur ökumönnum vegna banaslyssins á Sæbraut

Þurfa nauðsynlega að ná tali af tveimur ökumönnum vegna banaslyssins á Sæbraut
Fréttir
Í gær

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“
Fréttir
Í gær

Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá afhentar ólöglega

Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá afhentar ólöglega