Ein þekktasta sölusíða þjóðarinnar, Brask og Brall, er horfin af yfirborði jarðar. Stofnandi hinnar upphaflegu síðu, Frank Høybye, segir í samtali við DV að flest bendi til þess að óprúttnir netþrjótar hafi náð stjórn á síðunni og tekið hana úr loftinu.
Frank stofnaði Brask og Brall árið 2013. Tilgangurinn var sá að Frank, sem er mikill safnari, vildi reyna að losa sig við dót og stofnaði því umræddan hóp. Framtakið vatt heldur betur upp á sig því fjórum árum síðar voru notendurnir orðnir 105 þúsund og sá fjöldi hafði rúmlega tvöfaldast þegar sölusíðan gufaði upp.
Frank sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 2017 að lykillinn að vinsældum Brasks og Bralls hafi mögulega verið sá að vel var haldið um stjórnartaumanna í hópnum. Frank og aðrir einstaklingar sem aðstoðuðu hann við að stýra síðunni tóku hart á ruslpóstum og annarri óæskilegri hegðun inni á síðunni og hentu grimmt út þeim sem brutu reglur hópsins.
Eins og gefur að skilja var Frank afar vonsvikinn yfir því að hafa misst hópinn fræga úr höndum sér og ákvað hann því að stofna nýjan hóp og reyna að endurbyggja þann fyrri. Þá rakst hann hins vegar á annan Facebook-hóp sem hét sama nafni, Brask og Brall, og meðal stjórnenda hans var Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs.
Ljóst er þó að sá Facebook-hópur, sem telur 120 þúsund meðlimi, hefur verið virkur í nokkur ár en Frank er á því að tilvist hans sé á siðferðilega gráu svæði. „Það vita allir hver stofnaði Brask og Brall. Þetta er kannski löglegt, en þetta er siðlaust,” segir Frank. Hann afréð því að nefna sinn hóp Brask og Brall.is, til aðgreiningar, en meðlimir hans telja nú um 1.200 manns. Ljóst er að löng þrautarganga er framundan að ná fyrri fjölda meðlima.
Í samtali við DV segist Reynir skilja lítið í gagnrýni Franks. Fyrirtæki hans hafi keypt umræddan Facebook-hóp fyrir líklega 3-4 árum síðan og hann hafi undir höndum kaupsamning og afsal sem sanni það. Hópurinn hafi verið einn af afleiddu Brask og Brall-hópunum sem spruttu upp í kjölfar vinsælda upphaflega hópsins. „Ég man ekki hvað hópurinn hét, mögulega Brask og Brall – Allt leyfilegt, eða eitthvað í þeim dúr“ segir Reynir. Nafninu hafi svo verið breytt síðar í núverandi heiti en þó alls ekki sem viðbragði við skyndilegu brotthvarfi upphaflega hóps Franks. „Það er af og frá. Þessi hópur hefur verið með sama heitið í að minnsta kosti eitt ár,“ segir Reynir.
Hann segir félag sitt hafa keypt fleiri Facebook-hópa á árum áður, til að mynda Facebook-síðu Kvennablaðsins, sem hafi verið nýtt til að deila fréttum Mannlífs. Lítið hafi þó verið gert með Brask og Brall í gegnum tíðina. „Það eina sem við höfum notað þennan hóp í er að auglýsa í forsíðumynd hans,“ segir Reynir og bætir við að talsverð vinna fari í að halda um stjórnartaumana í hópnum vinsæla.