Næstkomandi mánudag verður þingfesting í Héraðsdómi Reykjavíkur í stóra fíkniefnamálinu svonefnda, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu. Þar munu sakborningarnir 18, 13 karlar og 5 konur, taka afstöðu til sakargifta í ákæru. Búast má við því að aðalmeðferð í málinu verði í haust.
DV hefur undir höndum rannsóknargögn í málinu. Þar er lýst afar skipulegri og samhæfri starfsemi hópsins í hringrás sem snerist um að flytja til landsins mikið magn fíkniefna, koma þeim í dreifingu og sölu hér á landi, þvætta peninga og koma fjármagni til útlanda til að kaupa meiri fíkniefni.
Greina má skýra verkaskiptingu innan hópsins þar sem einn höfuðpaur stýrir honum eins og hverju öðru fyrirtæki, ræður fólk til starfa og rekur það eftir þörfum, greiðir laun, úthlutar sumarfríum, útvegar fólki bíla og ber ábyrgð á að afla fíkniefnaviðskipta erlendis frá.
Tveir aðrir voru nánir höfuðpaurnum og má segja að hópurinn hafi haft þrjá stjórnendur. Aðrir voru fótgönguliðar með mismunandi verkefni en verkaskiptingin var skýr. Meðal starfa voru að selja fíkniefni, geyma fíkniefni, ganga frá fíkniefnum í umbúðir og hafa yfirsýn yfir birgðastöðu, flytja peninga milli staða og milli landa. Mikilvægt verkefni og vel borgað var að skipta reiðufé úr fíkniefnasölu yfir í gjaldeyri. Einn maður sá um að smala saman fólki til þess verks og var þess gætt að hver og einn skipti ekki hærri upphæð en sem nam ákveðnu hámarki.
Í lögregluskýrslum er staðhæft að sumir í hópnum hafi haft svo miklar tekjur af starfseminni að þeir hafi ekki þurft að stunda önnur störf. Væntanlega á það við um höfuðpaurinn og tvo næstráðendur hans. Aðrir í hópnum virðast hafa haft góðar aukatekjur. Samkvæmt heimildum DV voru 2-300 þúsund krónur á mánuði (til ráðstöfunar) algengustu tekjur fólks í hópnum. Tvö dæmi eru um aðila sem voru með 150 þúsund á mánuði fyrir að geyma fíkniefni.
Helmingur af sakborningunum eru með dóma á bakinu, mismarga. Flestir dómarnir eru fíkniefnatengdir. Höfuðpaurinn í málinu er þekktur í undirheimum en óþekktur að öðru leyti. Fullyrt er í eyru DV að meirihluti fólksins sé venjulegt fjölskyldufólk sem lifi rólegu og reglusömu lífi, og gildi það líka um einhverja af þeim sem hafa dóma á bakinu.
Sú regla gilti um starfsemi hópsins að fólk í neyslu gat ekki starfað í honum. Vandamál vegna þessa komu upp varðandi þrjá meðlimi í hópnum. Almenna reglan er samt sú að þetta fólk er ekki í neyslu.
DV ræddi við stuttlega við einn sakborninginn, einstæða móður sem hafði 2-300 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir ýmsa umsýslu varðandi fíkniefni (hún seldi ekki efni og geymdi ekki efni heima hjá sér).
Konan er ekki með sakaferil né neytir fíkniefna. Hún segist hafa, eins og margir aðrir í hópnum, leiðst út í þessa brotastarfsemi vegna blankheita. „Ef ég hefði ekki verið að borga 375 þúsund í húsaleigu þá hefði ég ekki þurft að gera þetta,“ segir hún. Aukatekjurnar hafi gert henni auðveldara að ná endum saman þó að ekki hafi hún efnast af þessu.
„Ég hef alltaf verið í vinnu eða námi og er bara frekar venjuleg kona. Mig bara sárvantaði peninga.“ – Hún segir ennfremur: „Ég mun auðvitað taka afleiðingum gjörða minna, það þurfa allir að gera það, en ég meiddi engan, hef aldrei átt vopn, hef aldrei gert neitt slæmt nema þetta.“
Konunni finnst sumir fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið hafa gert sér far um að útmála fólkið sem harðsvíraða glæpamenn. Það sé að einhverju leyti villandi lýsing. „Það er talað um okkur eins og atvinnuglæpamenn. Mér þætti forvitnilegt að lesa grein um hvað veldur því að fólk sem lifir eðlilegu lífi finnst það knúið til að gera ólöglega hluti. Ég leitaði lengi að einhverri svartri vinnu til að láta dæmið ganga upp en það var ekkert að finna, ég var líka fyrir í 10 tíma vinnu og gat illa bætt við mig.“
Konan segir að þessi iðja hafi tekið mikið á andlega. „Ég lifði með mikilli skömm allan tímann, þetta er ekki eitthvað sem ég vil stunda og ég hafði aldrei ímyndað mér að ég ætti einhvern tíma eftir að gera eitthvað þessu líkt.“