fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Fréttir

Björn segir galið hversu margir taka bílalán á Íslandi – „Við erum á allt of dýrum bílum“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. júní 2024 14:30

Björn Berg Gunnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi segir að lánin séu óvinurinn og það sé alltaf best að skulda sem minnst og greiða eins hratt af lánum og mögulegt er. Hann nefnir sérstaklega eina tegund láns sem margir Íslendingar stóla á en ættu helst að forðast: Bílalán.

Björn var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í vikunni þar sem hann fór yfir lánamálin og einkum þá möguleika sem eru í boði varðandi íbúðalán.

„Þetta er ekkert að verða auðveldara vegna þess að úrvalið er að aukast og sveigjanleikinn að verða meiri,“ sagði Björn um þá mörgu möguleika sem eru í boði varðandi fasteignalán. Hann segir að mikið sé um það að fólk sé að endurfjármagna fasteignalánin sín, enda kostnaðurinn ekki ýkja mikill en það geti verið til mikils að vinna að fá hagstæðara lán.

Björn segir mikilvægt að fólk hafi skilning á því um hvað er verið að velja en það sé ekki alltaf þannig.

„Það er ekki alveg í lagi. Við verðum að skilja muninn á verðtryggðu og óverðtryggðu láni, föstum og breytilegum vöxtum, jöfnum greiðslum og jöfnum afborgunum og áhrifum þess að vera með lengra eða styttra lán,“ sagði Björn sem fór svo nokkuð ítarlega yfir muninn á þessum hugtökum.

Hann segir að fyrir þá sem eru að reka heimili, bera ábyrgð á fjölskyldunni og reyna að tryggja sína fjárhagslegu framtíð séu lán óvinurinn, hvernig sem á það er litið.

„Við eigum bara að forðast þau eins og heitan eldinn. Við eigum alltaf að líta á það sem ávinning að skulda minna og minna og minna og halda okkur frá öllu svona. Ég get ekki séð undir nokkrum kringumstæðum að einhver muni bölva því eftir 10 ár að hafa aðeins hraðað á niðurgreiðslu lánanna sinna og hafa farið að leggja aðeins aukalega inn á lánið. Ég veit ekki um nokkurn mann sem er að kvarta yfir því núna að hafa sett séreignasparnaðinn inn á lánið sitt og sjá það lækka.“

Björn segir að fólk eigi að hugsa um skammtíma- og langtímaávinning á sama tíma.

„Mér finnst til dæmis, bara eitt dæmi, við erum á allt of dýrum bílum. Allt of dýrum bílum, það er bara þannig. Stór hluti bílaflotans er á lánum sem er í rauninni algjörlega absúrd. Það á ekki að vera neitt bílalán á Íslandi. Við eigum ekki að vera að leka peningum út úr heimilisfjármálunum í hverjum mánuði af því við viljum vera á dýrari bíl en við höfum efni á að vera á. Við erum að fara í ferðalög sem við höfum ekki efni á að fara í.“

Björn hvetur þá sem hafa svigrúm til að greiða niður íbúðalán sitt því ávinningurinn sé gríðarlegur. Margir séu þó vissulega í þeirri stöðu að leita frekar í hina áttina og létta á greiðslubyrðinni.

„En við þurfum þá að skilja áhrifin sem það hefur. Með því að gera þetta, sérstaklega að lengja lán og fara úr jöfnum greiðslum í jafnar afborganir þá verðum við að vera meðvituð um að við erum að hægja á eignamynduninni okkar.“

Hér má hlusta á allt viðtalið við Björn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Rashford missir prófið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ótrúlegar myndir af einangruðum ættbálk í Perú – Heimkynni þeirra eru í hættu

Ótrúlegar myndir af einangruðum ættbálk í Perú – Heimkynni þeirra eru í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris Dögg ráðin framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu

Íris Dögg ráðin framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu