fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Sighvatur áhyggjufullur: „Lágkúrulegar árásir og hreint níð um fólk“ – Mikið breyst á Íslandi á liðnum árum

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. júní 2024 11:00

Sighvatur Björgvinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ritstjóri, þingmaður og ráðherra, hefur miklar áhyggjur af umræðuhefðinni sem hefur skapast hér á landi. Hann skrifaði athyglisverða aðsenda grein í Morgunblaðið um helgina, en yfirskrift greinarinnar er Um níðið sem einkennir okkar þjóð.

„Átta­tíu og tveggja ára á ég þá reynslu að hafa mik­inn hluta þess tíma starfað sem áhorf­andi og síðar þátt­tak­andi í ís­lensk­um þjóðmál­um. Fyrst sem áhorf­andi og þá m.a. sem einn af rit­stjór­um þeirra mörgu dag­blaða, sem þá voru bæði þátt­tak­end­ur og lýsendur at­b­urðarás­ar þjóðmála. Síðan í þrjá­tíu ár sem virk­ur þátt­tak­andi í stjórn­mála­starfi – með setu á Alþingi, í rík­is­stjórn­um og virk­ur í flokks­starfi. Því­lík­ar breyt­ing­ar sem orðið hafa inn­vort­is á okk­ar sam­fé­lagi á þeim tíma! Og þær ekki all­ar til heilla!,“ segir Sighvatur í grein sinni.

Héldu níðinu utan birtingar

Hann rifjar upp að ritstjórar dagblaðanna á sínum tíma hafi gegnt meðal annars því hlutverki að vera ábyrgir fyrir því sem þeir samþykktu að birt yrðu í blöðunum.

„Ef ein­hver höf­und­ur í blaði þeirra gerði at­lögu að öðrum ein­stak­lingi með níðskrif­um ell­egar sví­v­irðing­um og per­sónu­leg­um ávirðing­um gát­um við rit­stjór­arn­ir sætt ábyrgð fyr­ir það – en þurft­um sjald­an að gera. Það var vegna þess að við, all­ir sem einn, vor­um sam­mála um að halda slíku níði og slíkri ill­mælgi um annað fólk utan birt­ing­ar. Sjálf­ur átti ég þátt í því, að vísa slík­um skrif­um á bug. Neita höf­undi um birt­ingu.“

Sighvatur segist svo vita mörg dæmi þess þar sem „slíkir níðhöggar“ réðust persónulega að ritstjóra viðkomandi blaðs með skömmum og jafnvel heitingum fyrir að neita þeim um birtingu á níði um annað fólk.

„Man enn mörg dæmi um slík­ar árás­ir, sem auðvitað voru hvergi birt­ar en iðkaðar af höf­und­um í sam­skipt­um við rit­stjór­ana. Ég veit mörg slík dæmi því við, rit­stjór­ar og ábyrgðar­menn þess­ara blaða, höfðum sam­bönd okk­ar á milli þar sem við sögðum frá sam­skipt­um við þannig fólk og vöruðum hver ann­an við þeim.“

Gífuryrði, skammir og níð

Sighvatur bendir á að nú séu þessi blöð ekki lengur til, fyrir utan Morgunblaðið, en í staðinn hafi komið svonefndir samfélagsmiðlar.

„Ekki nokk­ur ein­asti maður, sem að þeim stend­ur, þarf að axla þá ábyrgð sem okk­ur gömlu rit­stjór­un­um var ætlað að gera. Eng­inn þar sem er ábyrg­ur fyr­ir að birta níð annarra, gróu­sög­ur eða ill­mælgi um annað fólk. Þvert á móti er slík um­fjöll­un orðin ein­kenni þeirr­ar „blaðamennsku“ sem sam­fé­lags­miðlarn­ir stunda – og er eitt helsta ein­kenni ís­lensks sam­fé­lags á okk­ar tíð.“

Sighvatur segir að Íslendingar hafi ekki getað annað en rekið sig á slíka illmælgi um annað fólk í nýafstöðnum forsetakosningum.

„Það merki­lega er að þar er síður en svo um að ræða gíf­ur­yrði, skamm­ir og níð um sjálfa fram­bjóðend­urna – þó slíkt hafi óneit­an­lega borið við. Held­ur er hvarvetna um að ræða lág­kúru­leg­ar árás­ir og hreint níð um fólk sem hef­ur leyft sér að hafa skoðanir á fram­bjóðend­um og látið í ljós stuðning við ein­hvern þeirra. Jafn­vel val­in­kunn­ir ein­stak­ling­ar, virt­ir menn­ing­ar­frömuðir og þekkt­ir höf­und­ar hafa ráðist með offorsi og níði að slíku fólki – Kára Stef­áns­syni, Víði, Bubba Morthens svo fá­ein­ir af mikl­um fjölda séu nefnd­ir – fyr­ir það eitt að lýsa af­stöðu sinni í kosn­ing­um.“

Enginn finnur til ábyrgðar

Sighvatur segir að höfundar slíkra texta sýni af sér svona meðvitaða ofsóknarkennd og persónulega árásarhneigð án nokkurs minnsta hiks né efa.

„Ráðist með ill­mælgi að öðrum fyr­ir það eitt að leyfa sér að láta í ljós fylgi við ein­hvern fram­bjóðanda án þess að nota tæki­færið til þess jafn­framt að níða alla hina eins og menn­ing­ar­frömuðum sam­tím­ans virðist helst þókn­ast.“

Sighvatur segir að lokum að hatursorðræða sé nú það sem núorðið einkennir íslenska þjóðmálaumræðu. Enginn beri lengur neina ábyrgð á því sem sjálfur segir.

„Fólk má þar níða aðra eins og hverj­um og ein­um níðhögg þókn­ast. Eng­inn ábyrg­ur, síst af öllu höf­und­ur­inn sjálf­ur sem miklu frem­ur miklast af eig­in verk­um. Hat­ursum­ræða er vin­sæl­asta umræðuefni á Íslandi í dag. Það er ekki leng­ur umræðuvert. Það umræðuverða er að eng­inn finn­ur þar til neinn­ar ábyrgðar – og eng­um er leng­ur meinað að tjá sig um annað fólk með slík­um hætti eins og við gömlu rit­stjór­arn­ir þurft­um að gera til þess að axla ekki ábyrgðina sjálf­ir. Ísland er í þjóðmá­laum­ræðunni orðið víg­völl­ur þar sem níðhögg­ar keppa hver við ann­an um ill­mælgi og sví­v­irðing­ar um annað fólk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt