fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Fréttir

Aron er Íslendingurinn sem slasaðist í flugi Singapore Airlines – „Þetta hefði auðveldlega getað farið mun verr“

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 28. maí 2024 16:28

Aron dvelur þessa dagana í Bangkok þar sem hann safnar kröftum fyrir heimferðina. Hann útskrifaðist af sjúkrahúsinu í gær.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er nýútskrifaður eftir sex nætur á sjúkrahúsinu í Bangkok. Mér líður þokkalega miðað við aðstæður, er enn þá með verki en ég fæ lyf yfir daginn,“ segir Aron Matthíasson, 34 ára Íslendingur, sem var um borð í flugvél Singapore Airlines sem lenti í gríðarlegri ókyrrð á leið sinni frá London til Singapúr á þriðjudag fyrir viku.

Um borð voru 229 manns, farþegar og áhöfn, og slösuðust yfir hundrað manns. Þá lést 73 ára breskur ríkisborgari sem var um borð.

Greint hefur verið frá því að einn Íslendingur hafi verið um borð í vélinni en það var Aron sem var á leið í vinnuferð til Nýja-Sjálands fyrir Marel. Aron hlaut nokkuð alvarleg meiðsl en hann er með brotinn hálshryggjarlið, þrjú brotin rifbein ásamt tognun og eymslum í hálsi. Hann ber sig samt ágætlega en er meðvitaður um að það hefði getað farið miklu verr.

Var að sækja bakpokann sinn

„Mænan er alveg ósködduð en ég þarf að vera með hálskraga (spelku) næstu tvo mánuðina. En læknirinn sagði „congratulations“ þegar hann sýndi mér niðurstöðurnar þar sem þetta hefði auðveldlega getað farið mun verr.“

Aron rifjar svo upp hvernig hann slasaðist.

„Áður en ókyrrðin byrjaði var ég að sækja bakpokann minn í farangurshólfið fyrir ofan sætið mitt. Um leið og ég settist niður fann ég að vélin byrjaði með smá titring svo ég greip í beltið,“ segir hann. „En áður en ég veit af kemur svakalegur skellur og ég skýst upp í farangurshólfið með þeim afleiðingum að ég brýt það og rotast.“

Aron rankaði svo við sér á gólfinu einni sætaröð aftur og velti hann því fyrir sér hvað hann væri eiginlega að gera þar.

„Aðrir í kringum mig sátu í sínum sætum og vélin var stöðug. Seinna fékk ég að vita að þessi ókyrrð hafði staðið yfir í um þrjár mínútur, ég hef því verið úti í að minnsta kosti þann tíma,“ segir Aron og er eftir á að hyggja kannski þakklátur fyrir það miðað við þær aðstæður sem uppi voru um borð í vélinni.

„Það hefur mögulega bjargað andlegu hliðinni, að missa af þeirri upplifun að vélin væri að hrapa. Eftir að ég stóð upp fann ég að þetta var ekkert venjuleg ókyrrð og ég hafði ekki dottið úr sætinu, en þarna fann ég gríðarlega verki um allan líkama og átti mjög erfitt með andardrátt.“

Einn og hálfur tími af hræðslu og óreiðu

Aron segir að restin af fluginu hafi verið mjög erfið, einn og hálfur klukkutími af hræðslu, gráti og óreiðu sem minnti helst á eitthvað úr bíómyndunum.

Aron dvelur þessa stundina á hóteli þar sem hann safnar kröftum áður en hann getur flogið heim.

„Foreldrar mínir eru komnir til mín og ætla að aðstoða mig hér í Bangkok og fylgja mér heim. Ég finn ekki fyrir flughræðslu en ég er hræddur við það hvernig ég mun bregðast við ef ókyrrð verður,“ segir Aron.

Hann segir að Singapore Airlines eigi allt hrós skilið fyrir hvernig flugfélagið tókst á við þessar aðstæður.

„Þau sýndu gríðarlega fagleg og góð vinnubrögð í öllu þessu ferli, frábæra þjónustu og hafa reynt að gera líf mitt eins gott og mögulegt er á þessum erfiða tíma. Frábær þjónusta frá sjúkrahúsinu og yndislegt fólk þar, ég fékk mikið af fallegum skilaboðum alls staðar að úr heiminum, frá vinnufélögum mínum í Marel, ræðismanni Íslands í Bangkok, fjölskyldu og vinum. Núna tekur við langt bataferli en ég er jákvæður og er fullviss um að ég nái sömu heilsu á ný. Ég get ekki beðið eftir því að komast heim í faðmlag konunnar minnar og barna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt