fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Fréttir

Lántakendur á breytilegum vöxtum þurfi að huga að stöðu sinni til að glata ekki kröfum – „Þá skiptir mjög miklu máli“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. maí 2024 11:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

EFTA-dómstóllinn birti á fimmtudag ráðgefandi álit sitt í svokölluðu vaxtamáli Neytendasamtakanna gegn Íslandsbanka að skilmálar bankans um breytilega vexti fasteignalána séu ekki í samræmi við tilskipanir Evrópuþingsins. Komist íslenskir dómstólar að því að skilmálar bankans séu ólögmætir gæti það þýtt um 30 milljarða tjón fyrir íslensku bankanna sem þyrftu að endurgreiða lántökum þær vaxtahækkanir sem byggðu á þessum skilmálum.

Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður Neytendasamtakanna ræddi um málið við Sprengisand í morgun. Þar rakti hann að málið byggi á tilskipunum Evrópusambandsins sem voru teknar upp í EES-samninginn sem Ísland er aðili að. Ísland hafi svo innleitt tilskipanirnar að íslenskum rétti. Um er að ræða tilskipanir sem grundvallast á neytendavernd þá einkum til að tryggja stöðu neytenda gagnvart fyrirtækjum á borð við fjármálafyrirtæki.

Ófyrirsjáanlegt fyrir neytendur

Tilskipanirnar fjalla um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Það vísar til þess að þegar slíkir samningar eru gerðir eru fyrirtækin í yfirburðastöðu gagnvart neytendum og semja einhiða þá skilmála sem í slíkum samningum og getur neytandinn átt erfitt með að átta sig á því hvað hann er nákvæmlega að samþykkja.

Ingvi segir: „Ef bankinn notar viðmiðunarvexti til að breyta vöxtunum þá þurfi þeir að vera hlutlægir, skýrir aðgengilegir að sannprófanlegir, svo þetta er mjög afmarkað dæmi. í málinu er í raun og veru deilt um hvernig eigi að beita þessum ákvæðum og hvernig það komi við íslenskan rétti þar sem nákvæmlega þetta orðalag hefur verið innleitt“

Dæmi um þetta séu ákvæði bankanna um breytilega vexti lána. Þar sé að finna upptalningu á þáttum sem horft er til við vaxtaákvarðanir en upptalningin er ekki tæmandi og gefur mjög óljósa mynd um það í hvaða tilvikum og með hvaða rökum bankarnir mega hækka vexti.

Ingvi segir að í þeim löndum sem Ísland vill helst bera sig saman við þá sé breytilegum vöxtum beitt með öðrum hætti.

„Þá er algengast að breytilegir vextir séu settir þannig fram að þeir eru annars annars tengdir við eitthvað hlutlægt viðmið sem endurspeglar vaxtarkjör á markaði á hverjum tíma og svo setur bankinn álag ofan á. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að sveiflurnar verða óháðar afstöðu bankans svo bankinn er ekki að stjórna því hvernig vextirnir fara upp og niður heldur kemur markaðsþróunin beint inn í verðið. Og það er líka gagnsætt að því leyti að þá veistu hvaða álag bankinn er að setja ofan á.“

Þetta gagnsæi geri neytendum kleyft að bera betur saman þau lánskjör sem í boði eru hverju sinni, þ.e. hvaða álag bankinn áskilur sér og hvaða viðmið vextir miðast við. Á Íslandi er þetta ekki svona.

Óskýrar forsendur vaxtaákvörðunar

Ingvi nefnir Landsbankann sem dæmi.

„Þar segir í skilmálum að við vaxtaákvörðun líti bankinn meðal annars – svo hann útilokar ekki að það sé litið til fleiri þátta – við vexti Seðlabankans, vaxta á markaði – án þess að það sé skilgreint sérstaklega – eða til annars fjármagnskostnaðar. Og það sem EFTA-dómstóllinn bendir á er að þarna er óskýrt bæði hvaða viðmið eru notuð hverju sinni og líka hvernig þau eru notuð. Þú veist ekki hvað ræður hverju sinni. Þar með getur ákvæðið ekki talist uppfylla þau skilyrði að bjóða upp á viðmið sem eru aðgengileg, skýr, hlutlæg og sannprófanleg.“

Í áliti EFTA-dómstólsins segir að lánveitanda beri að útlista með „tæmandi talningu“ þau skilyrði sem ákvörðun um vaxtabreytingu byggist á. Skilyrði tilskipana séu ekki uppfyllt með almennri tilvísun til ófyrirséðrar hækkunar á kostnaði bankans eða annarra skilyrða sem „lánveitanda er ókunnug um“. Neytandi þurfi að geta borið saman ólík tilboð til að taka upplýsta ákvörðun um lántöku og það geti hann ekki ef orðalag lánaskilmála feli í sér almennar og opnar tilvísanir á borð við „meðal annars“ og „og svo framvegis“ þar sem þeim skorti fullnægjandi upplýsingar um samhengið.

Upphaflegir vextir standi

Ingvi segir að Neytendasamtökin séu í málaferlum sínum við bankanna að gera kröfu um endurgreiðslu á þeim vöxtum sem lántakendur voru rukkaðir um á grundvelli þessara skilmála, þ.e. að horft sé framhjá ákvæði um breytilega vexti. Ef horft sé framhjá því ákvæði þýði það í raun að upphaflegir vextir, sem voru í gildi þegar lánið var tekið, standi eitt eftir og því beri bönkunum að endurgreiða þá vexti sem voru teknir umfram það.

Ingvi furðar sig á yfirlýsingu Landsbankans og Samtaka fjármálafyrirtækja eftir að EFTA-dómstóllinn birti álit sitt. Þar sé vísað til þess að breytilegir vextir sæki stoð sína í íslenskum sérreglum sem trompi Evrópulöggjöfina. Ingvi bendir á að tilskipanirnar hafi verið innleiddar í íslensk lög og hafi því lagagildi hér og ef Ísland ætlar að halda því fram að aðildarríki EES eða Evrópusambandsins geti innleitt tilskipanir sambandsins og svo bara sett innlend sérlög til að virða tilskipanir að vettugi, þá sé það fásinna sem kunni að baka íslenska ríkinu skaðabótaskyldu. Þá verði bönkunum hlíft á kostnað skattgreiðenda.

„Það er skylda íslenska ríkisins að tryggja að þessi lágmarksréttindi, þessi neytendavernd sem fellst í tilskipununum, sé innleidd í íslenskan rétt og ef íslenska ríkið stillir upp einhvers konar sérreglum sem takmarka þessi réttindi við innleiðingu reglanna þá eru það brot á samningnum og getur auðvitað opnað á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.“

Skiptir máli að fyrirbyggja fyrningu

Ingvi bendir á að þeir neytendur sem hafa tekið lán á breytilegum vöxtum þurfi að huga að réttarstöðu sinni. Sérstaklega þeir sem hafa á síðustu fjóru árunum greitt lán á breytilegum vöxtum upp. Þeir eigi á hættu að möguleg krafa þeirra vegna ólögmætra vaxtahækkana fyrnist.

„Ég held að það sé æskilegt fyrir fólk þegar það greiðir upp lán að gera fyrirvara um betri rétt“

Neytendasamtökin hafa óskað eftir því að bankarnir falli frá fyrningu á meðan málin eru rekin fyrir íslenskum dómstólum, helst þá til að tryggja að dómskerfinu verði ekki kaffært í endalausum vaxtamálum. Miðað við viðbrögð bankanna telur Ingvi þó að afstaða þeirra sé sú að skilmálar þeirra séu lögmætir og því muni þeir halda áfram að beita breytilegum vöxtum með sama hætti.

„Þá skiptir mjög miklu máli fyrir fólk að grípa til einhverra ráðstafana til þess að gæta réttar síns. Sérstaklega þegar greidd eru upp lán.“

Ingvi segir að bankarnir meti áhættu sína af málaferlunum upp á um 30 milljarða samtals, en samtök fjármálafyrirtækja hafi staðfest þann útreikning. Hins vegar veit Ingvi ekki á hvaða forsendum þessir útreikningar byggja og setur þann fyrirvara við töluna.

Þrír dómarar kvittuðu undir álit EFTA-dómstólsins. Þar á meðal forseti dómstólsins, Páll Hreinsson fyrrverandi Hæstaréttardómari og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Páll er einn helsti fræðimaður íslenskrar lögfræði og hefur komið víða við. Hann var til dæmis formaður Rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsakaði aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins 2008. Hann hefur eins ritað mörg grundvallarrit íslenskrar lögfræði. Doktorsritgerð hans fjallaði um hæfisreglur stjórnsýslulaga og svo hefur hann skrifað fræðibækur á sviðum stórnsýslu-, stjórnskipunar- og kröfuréttar.

EFTA-dómstóllinn byggir álit sitt á EES-rétt, en því verður þó ekki haldið fram að dómstóllinn hafi enga innsýn haft í gildandi rétt hér á Íslandi. Dómritari EFTA-dómstólsins er lögmaðurinn Ólafur Jóhannes Einarsson sem er sérfræðingur í EES-rétti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum
Leiðrétting um Carbfix
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“

Bikblæðingar á vettvangi rútuslyss – Vegarkaflinn „ein stór tjörudrulla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum

Landsréttur staðfesti dóm yfir manni fyrir fjárdrátt – Tæmdi reikning fyrirtækis sem hann átti með öðrum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti

Rússneskur bankastjóri varar við – Blikur á lofti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar

Fór til Íslands fyrir þremur árum og gerði stór mistök: Nú hefur ókunnugur maður komið henni til bjargar