fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 6. desember 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Innflutningsfyrirtækið Dista ehf. hafði betur gegn ÁTVR fyrir Hæstarétti í vikunni í svokölluðu bjórmáli. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ÁTVR hefði brotið gegn stjórnarskrá með því að velja bjóra í hillur á grundvelli framlegðar fremur en eftirspurnar.

Jónas Fr. Jónsson er lögmaður Dista og segir að málið sé merkilegt og verði líklega notað í lögfræðikennslubækur framtíðarinnar. Málið sé fordæmisgefandi hvað varðar atvinnufrelsi á Íslandi, lögmætisreglu og lögskýringu. Jónas ræddi málið við Bítið á Bylgjunni í dag og veltir meðal annars fyrir sér hvort ÁTVR sé að brjóta gegn samkeppnislögum og hvort ólögmætt framferði fyrirtækisins hafi mögulega valdið óþarfa hækkunum á neysluvísitölunni.

Embættismenn að taka sér vald Alþingis

Bjórmálið varðar þá ákvörðun ÁTVR að neita að selja tiltekna bjóra frá Dista út af því að þeir voru ekki að skila nægilegum söluhagnaði eða framlegð. Engu að síður var eftirspurn eftir þessum bjórum mikil og jafnvel meiri en eftir öðrum dýrari bjórum sem ÁTVR ákvað þó að selja áfram. Eigandi Dista furðaði sig á þessu. Hann hafði samband við fjármálaráðuneytið og benti þar á að þetta fengi tæpast staðið enda stæði í lögum að ÁTVR bæri að velja inn vörur á grundvelli eftirspurnar. Hins vegar hafði ráðuneytið sett reglugerð sem heimilaði val á grundvelli framlegðar.

Löggjafavaldið er í höndum Alþingis. Reglugerðir eru svokölluð stjórnvaldsfyrirmæli sem verða að eiga sér stoð í lögum. Samkvæmt stjórnarskránni er atvinnufrelsi á Íslandi og ef það á að takmarka það frelsi þá má aðeins gera það með lögum og lögin þurfa þar að auki að vera skýr og ganga ekki lengra en nauðsynlegt er.

Jónas sagði um þetta: „Þarna voru embættismenn í ráðuneytinu og hjá ÁTVR að ákveða að taka sér vald Alþingis, hvernig ætti að velja inn vörur.“

ÁTVR hafi á þessum grundvelli valið inn dýrari vörur sem skiluðu meiri hagnaði og svo jafnvel mögulega valið inn sterkara áfengi, því eftir því sem áfengi er sterkara því meira er lagt á það.

„Þannig má segja að með þessu kerfi, þar sem menn eru að velja inn ekki eftir vinsældum heldur eftir því hvað ÁTVR græddi á hverri seldri einingu af því meðal annars að verðið ræðst mikið til af áfengisskatti sem er lagður á áfengisprósentu, þá sé verið að halda dýrari vöru og jafnvel sterkari vöru að neytendum.“

Þetta leiði til þess með tíð og tíma að vörurnar sem eru valdar inn til ÁTVR verða sífellt dýrari og dýrari, jafnvel þó að á sama tíma hafi í lögum verið gert ráð fyrir að valið byggði á eftirspurn neytenda.

Hefur þetta haft áhrif á vísitöluna?“

Jónas benti á annað sláandi atriði. Áfengi og tóbak er með í neysluvísitölunni.

„Það má velta fyrir sér, því að áfengi og tóbak er rúm 2-2,5% í neyslugrunni neysluverðsvísitölunnar, hefur þetta haft áhrif á vísitöluna?“

Jónas segir að hann og Dista séu ánægðir með niðurstöðu Hæstaréttar en eftir standi að sjá hvernig málið verður gert upp, enda liggi fyrir að Dista hafi orðið fyrir tjóni út af ólögmætu framferði ÁTVR og að líkindum aðrir birgjar sömuleiðis. Jónas tekur fram að þetta hafi verið löng barátta og kostnaðarsöm en umbjóðandi hans sé prinsippmaður sem hafi áður lagt ríkið í deilum um áfengissölu.

Áður hafi engum reglum verið fyrir að fara um hvernig ætti að velja áfengi inn í fríhöfnina. Ekki fyrr en Dista fór af stað, ásamt Jónasi, og kvartaði til eftirlitsstofnunar EFTA sem komst að þeirri niðurstöðu að um brot á EES-samningnum væri að ræða.

Eftir standi þó spurningin um hvort ÁTVR sé með óeðlilegum hætti að hefta samkeppni á Íslandi. Vísbendingar um það hafi komið fram í gögnum sem voru lögð fram fyrir dómi.

„Það var eitt af því sem kom nú fram í þessu máli og gæti kallað á skoðun hjá Samkeppniseftirlitinu. ÁTVR hélt því fram í skriflegum greinargerðum að með því að velja þetta viðmið, framlegð, þá væru þeir að takmarka verðsamkeppni birgja. Nú eru engin verðlagsákvæði um birgja. Við stýrum verðinu á áfengi með mjög háum áfengissköttum og svo fastri álagningu hjá ÁTVR og þetta er kannski, ég veit það ekki, 60-75% af áfengisverðinu. Þannig að samkeppnin í innkaupsverðinu er að birgjar geti haft einhverja samkeppni.“

Jónas sér ekki fyrir sér hvernig þetta standist samkeppnislög, enda ÁTVR markaðsráðandi fyrirtæki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið
Fréttir
Í gær

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump
Fréttir
Í gær

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“
Fréttir
Í gær

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“