fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Fréttir

Hafa ekki fengið nein svör frá sveitarfélaginu í rúmt ár

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 1. október 2024 13:30

Upphaflega var skortur á svörum frá Tálknafjarðarhreppi kærður en Vesturbyggð tók við málinu eftir sameiningu sveitarfélaganna. Mynd: Markaðsstofa Vestfjarða

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lagt það fyrir sveitarfélagið Vesturbyggð að svara erindum ábúenda á bænum Eysteinseyri í Tálknafirði sem vilja meina að þeir hafi verið látnir greiða of há sorphirðugjöld. Fyrsta fyrirspurn ábúendanna var lögð fram í nóvember á síðasta ári en þá til Tálknafjarðarhrepps sem sameinaðist Vesturbyggð síðastliðið vor og hefur síðarnefnda sveitarfélagið því tekið við málinu.

Ábúendurnir lögðu fram alls þrjár fyrirspurnir til Tálknafjarðarhrepps vegna sorphirðugjaldanna. Þá fyrstu í nóvember 2023, þá næstu í desember 2023 og svo loks þá þriðju í janúar á þessu ári. Þegar engin svör höfðu borist í mars kærðu ábúendurnir þennan drátt á svörum til innviðaráðuneytisins.

Í maí sameinaðist Tálknafjarðarhreppur Vesturbyggð. Fyrirsvar málsins er því nú hjá Vesturbyggð en fyrr í þessum sama mánuði var kæra ábúendanna framsend frá innviðaráðuneytinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í apríl hafði Tálknafjarðarhreppur skilað greinargerð vegna kærunnar. Þar voru sjónarmið og rökstuðningur sveitarfélagsins vegna ákvörðunar sorphirðugjalds rakin en ekki var fjallað um svör við erindum ábúendanna, þ.e. hvort eða hvenær þeim hafi verið svarað.

Svör hafi ekki verið væntanleg

Úrskurðarnefndin sendi Vesturbyggð fyrirspurn með tölvupósti 26. september síðastliðinn þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort fyrirspurnum ábúendanna hefði verið svarað. Með tölvupósti daginn eftir upplýsti sveitarfélagið að ekki hafi verið enn brugðist við erindunum eftir að sameining sveitarfélaganna tók gildi.

Í niðurstöðu úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála segir að fyrir liggi að Vesturbyggð hafi svarað innviðaráðuneytinu með greinargerð þar sem fjallað var um sjónarmið og rökstuðning sveitarfélagsins vegna ákvörðunar um sorphirðugjald. Aftur á móti hafi Vesturbyggð ekki svarað erindum ábúendanna. Af svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar megi ráða að svör hafi ekki verið væntanleg.

Þar af leiðandi verði að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis ábúendanna, í trássi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Nefndin leggur því fyrir Vesturbyggð að taka erindi ábúendanna til afgreiðslu án ástæðulausra tafa.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt